Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. MAÍ 2008 15 Eftir Önnu Jóa annajoa@simnet.is Oft hefur verið vikið að skorti á al-mennri og samfelldri umræðu ummyndlist á opinberum vettvangi hérá landi og undanfarið virðist hún sjaldan ná út fyrir umfjöllun Morgunblaðsins. Umræðuskorturinn hefur m.a. verið rakinn til vankanta í skólakerfinu hvað varðar myndlist- arlegt uppeldi þjóðarinnar og talið að þetta hafi leitt til áhugaleysis á myndlist. Skýra birting- armynd þekkingarleysisins má stundum sjá í spurningakeppninni Gettu betur? þar sem hin fjölfróðu ungmenni stranda á einföldum spurn- ingum um grunnatriði listasögunnar. Sú var tíðin að almenningur fylgdist af mikl- um áhuga með þróun íslenskrar myndlistar og umræðu um hana og nýverið mátti fá nasasjón af slíkri umræðu, eins og hún tíðkaðist, á sýn- ingunni „Klessulistarhreiðrið“ sem lauk um síð- ustu helgi í Listasafni ASÍ við Freyjugötu þar sem starfsemi Listvinasalarins á árunum 1951- 1954 voru gerð skil. Opinber umræða um mynd- list einkenndist á árum áður gjarnan af svipt- ingasömum skoðanaskiptum og má þar nefna „listamannadeiluna“ svonefndu í byrjun 5. ára- tugar síðustu aldar (og það eimdi eftir af henni í byrjun 6. áratugarins þegar Listvinasalurinn hóf starfsemi sína) og síðar átök milli fé- lagsmanna í FÍM (Félags íslenskra myndlist- armanna) og nýrrar kynslóðar myndlist- armanna, SÚM-hópsins, á þeim sjöunda. Slík uppgjör, sem lýsa má sem átökum um „menn- ingarforræði“, einkenna mótunarár í íslenskri menningarsögu þegar sjálfstæðisbarátta í ýms- um skilningi var á fullu skriði og fátt var talið sjálfgefið. Um samtímann hefur verið sagt að tímar hinna stóru „leiðarsagna“ séu á enda, og kalda stríðið sömuleiðis. Við lifum á tímum fjölhyggju þar sem allt er afstætt, allt er leyfilegt – og markaðsöflin hafa náð öflugu taki á flestum þáttum mannlífsins. Í kjölfar sýningarinnar um klessulistarhreiðrið er ekki úr vegi að rifja upp þá tíma þegar almenningur lét sér ekki alltaf standa á sama um myndlist. Listvinasalurinn á sér merkilega sögu en hann var stofnaður árið 1951 af Gunnari Sig- urðssyni, kenndum við Geysi, og Birni Th. Björnssyni listfræðingi í húsnæði Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara við Freyjugötu 41 (þar sem Listasafn ASÍ er nú til húsa). Raunar var þar um að ræða fyrsta eiginlega myndlist- argalleríið á Íslandi eins og segir í upplýsandi texta Kristínar Guðnadóttur, forstöðumanns Listasafns ASÍ, í sýningarskrá „Klessulist- arhreiðursins“. Listvinasalurinn var mik- ilvægur sýningarvettvangur fyrir framsækna módernista og samfara metnaðarfullu sýning- arhaldi var reglulega efnt til fjölsóttra kynn- ingar- og umræðukvölda um nútímalist. Má ætla að starfsemi salarins hafi átt talsverðan þátt í að festa í sessi nýja strauma í myndlist hér á landi – ekki síst afstraktmálverkið. Sýningin var ekki síst athyglisverð fyrir hið menningarsögulega samhengi sem hún varpaði ljósi á: þar voru ekki einungis til sýnis úrvals- verk eftir íslenska afstraktmálara á borð við Þorvald Skúlason, Karl Kvaran, Valtý Pét- ursson, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason og fleiri, heldur voru jafnframt rifjaðar upp að- stæður listamannanna eða „andrúmsloftið“ við sköpun, sýningu og viðtökur verkanna. Í þeim tilgangi voru útdrættir úr dagblaðaskrifum frá þessum tíma um sýningarhald og starfsemi Listvinasalarins stækkaðir og límdir á veggi sýningarrýmisins og voru þeir áberandi þáttur á sýningunni – sem innsýn í samfélagslega orð- ræðu um Listvinasalinn og myndlist í víðu sam- hengi. Eins og yfirskrift sýningarinnar bar með sér mótaðist orðræðan af sterkum mótþróa við þau framúrstefnulegu menningaráhrif sem lista- menn Listvinasalarins höfðu orðið fyrir við nám í evrópskum stórborgum, ekki síst í París. Þeir voru boðberar nýrra strauma á borð við af- straksjón, kúbisma, súrrealisma og expressjón- isma í íslenskri myndlist og voru af sumum kall- aðir „klessumálarar“, jafnvel sagðir tengjast bolsévisma og taldir „óþjóðlegir“ eins og lesa mátti í vel völdum textabrotum á veggjunum. Aðrir tóku nýjum, erlendum menningar- straumum fagnandi og víst er að umræðan leiddi ýmis framandi hugtök inn í íslenskt menningarlíf. Orðræðan um „þjóðlega“ eða „óþjóðlega“ myndlist var ekki ný af nálinni á þessum tíma og segja má að hún hafi náð ákveðnu hámarki í „listamannadeilunni“ í byrjun 5. áratugarins þegar hópur framsækinna myndlistarmanna kærði menntamálaráð (sem Jónas Jónsson frá Hriflu var í forsvari fyrir) en það hafði umsjón með listaverkakaupum ríkisins fyrir hönd Al- þingis. Skrá yfir listaverkakaup ráðsins frá stofnun þess 1928 hafði nýlega verið birt op- inberlega í fyrsta sinn. Myndlistarmönnunum þótti innkaupastefna ráðsins einkennast af við- vaningshætti og afturhaldssemi og sögðu verk eftir framsækna listamenn sniðgengin að stórum hluta. Þeir lögðu fram ýmsar kröfur er tengdust hagsmuna- og réttindamálum mynd- listarmanna. Margar þeirra náðu fram að ganga og enn er staðinn vörður um þessi mál nú á dögum. Sagt er frá listamannadeilunni í tímaritunum TMM (Tímariti Máls og menningar) og Helga- felli á þessum árum og þar er „ofsóknum“ Jón- asar frá Hriflu á hendur myndlistarmönnum líkt við gyðingaofsóknir en sem kunnugt er setti hann árið 1942 upp sýningar á „úrkynjaðri list“ (óþjóðlegri) og „fyrirmyndarlist“ (þjóðlegri) líkt og gert hafði verið í Þýskalandi nasismans 1937. Þjóðleg list taldist af hinu góða og tók til hlut- bundinna verka í natúralískum stíl þar sem unnt var að tengja myndefnið við þekkjanlegan, íslenskan veruleika, ekki síst landslag. Fylg- ismönnum sveitarómantíkurinnar yfirsást að einnig hún var tilkomin vegna erlendra menn- ingaráhrifa. Í ritstjórnarpistlum og öðrum föst- um pistlum TMM og Helgafells er m.a. lögð áhersla á að verja þurfi tjáningarfrelsið og sporna gegn andlegri kúgun. Myndlistarumræða tímaritanna beinist einn- ig gegn þekkingarskorti almennings á nútíma- myndlist og má þar lesa ýmsar fræðslugreinar um hana. Stundum er tekist á, enda mikið talið í húfi – má þar nefna harðorð skoðanaskipti Steins Steinars og Jóhanns Briem (Helgafell, 7. og 8.-10. hefti, 1942). Afstraktkynslóðin svonefnda barðist af hörku fyrir tilverurétti sínum og þegar leið á 6. áratuginn var svo komið að hún hafði náð undir- tökunum í íslenskum listheimi. Adam var þó ekki lengi í Paradís – strax á 7. áratugnum kom fram ný kynslóð sem erlendis hafði kynnst ný- framúrstefnu, eins og hún hefur verið kölluð, og gróf undan forræði afstraktmálaranna. Stefnur á borð við konsept, flúxus og naumhyggju bár- ust hingað með SÚM-listamönnunum en eins og bent hefur verið á í seinni tíð urðu einnig þeir og aðrir róttækir, framsæknir listamenn (hér sem erlendis), sem áttu þátt í að endurskil- greina listina á þessum tíma, stofnanavæðing- unni að bráð: listasöfnunum, endurnýjuðu lista- forræði og markaðsöflunum sem þeir gerðu uppreisn gegn. Hér á landi eimir þó enn eftir af orðræðunni, sem skapaðist á 7. áratugnum, um „konsept“ andstætt „málverkinu“, en sú umræða getur auðveldlega orðið afturhaldssöm (ekki síst með- al þeirra sem hampa annarri hefðinni og vísa hinni á bug). Þetta tvennt getur vel farið saman og í fjölhyggju samtímans gefur unga kynslóðin eflaust lítið fyrir slíka flokkadrætti. Deilur á op- inberum vettvangi geta og hafa vissulega vakið athygli á myndlist. Á hinn bóginn má spyrja hvort hatrömm átök í opinberri orðræðu og sú niðurrifshefð, sem hér myndaðist í myndlist- arumfjöllun, hafi ekki haft fráfælandi áhrif á al- menning og ýtt undir afskiptaleysi og frekara skilningsleysi. Í ljósi þess hlýtur öflugri, al- mennri umræðu um myndlist – faglegri, vand- aðri og fræðilega ígrundaðri – að vera tekið fagnandi. Myndlist: umræða og átök Morgunblaðið/Golli Klessulistarhreiðrið Frá sýningunni „Klessulistarhreiðrið“ í Listasafni ASÍ. Á myndinni sjást afstraktverk eftir Jóhannes Jóhannesson, Valtý Pétursson, Karl Kvaran og Þorvald Skúlason. Höfundur er myndlistagagnrýnandi við Morgunblaðið. Hannes Mælir með kvikmyndinni Gouttes d’eau sur pierres brûlantes sem er grátbroslegt sál- fræðidrama sem byggir á handriti Fassbinder í meðförum franska leikstjórans Francois Ozon. Gláparinn Kvikmyndin Gouttes d’eau sur pierres brûl-antes (Vatnsdropar á brennandi steinum, 2000) er grátbroslegt sálfræðidrama byggt á handriti Rainers Werners Fassbinders í með- förum franska leikstjórans Francois Ozons (f. 1967) og leyna hvorki viðfangsefnið né efn- istökin því hvaðan verkið er sprottið. Andleg og líkamleg kúgun á mörkum vonsku og vorkunn- ar, lífs og listar, tröllríður myndinni frá upphafi til enda þannig að þegar upp er staðið virðast ástir samlyndra hjóna bara vera nokkuð bæri- legt sambúðarfyrirkomulag. Líkt og Fass- binder hefur Ozon fengið á sig stimpil fyrir að vera „enfant terrible“ franskrar kvikmynda- gerðar og hefur hann síðan gert nokkrar eft- irtektarverðar kvikmyndir eins og til dæmis 8 Women (2002) og Swimmingpool (2003). Öll kvikmyndin gerist í sömu íbúðinni í þrúgandi og tímalausu andrúmslofti, enda þótt fatnaður og húsmunir bendi til áttunda áratugarins. Sá sem fer inn kemst aðeins tilfinningalega bækl- aður eða andvana aftur út. Þessi tragikómíska ádeila á drottnunartilburði í kynlífi hefst á sam- tali hins fimmtuga Leopolds, sem Bernard Gi- raudeau leikur listilega vel, og tvítuga Franz. Hinn miðaldra kaupsýslumaður tælir unga manninn með sér í rúmið og hefst þá ástarsam- band þeirra þar sem Leopold undirokar dreng- inn og inn í tvinnast bæði ný og gömul ástamál með tilheyrandi krísum. Leikurinn breiðist út í einhvers konar trekant milli hins samkyn- hneigða, gagnkynhneigða og tvíkynhneigða þar sem skeytingarlaus dauðinn, frelsari trúleys- ingjanna, setur amen eftir efninu. Að lokum yppir maður bara öxlum, glottir og stynur: Þetta líf, þetta líf. Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Lesarinn Ég hef verið að lesa Yfir Ebrofljótið eftirÁlfrúnu Gunnlaugsdóttur, bók sem kom út 2001, en ég las ekki almennilega í fyrr en núna og skammast ég mín fyrir vanræksluna, því þetta er magnað verk um Spánarstríðið og þátttöku Íslendings í því og þeim hug- sjónapotti ofstækis og réttlætis sem Evrópa millistríðsáranna var. Það er hægt að lesa hana sem stríðsbók eins og maður gerði sem strákur, það er hægt að lesa hana sem þroska- sögu ungs manns, það er hægt að lesa hana sem heimspekilega minningu um hvað menn töldu vera rétt og rangt, það er hægt að lesa hana sem pólitískt uppgjör, það er hægt að lesa hana sem heimspekilega pælingu um minnið og afl minninganna, og það er hægt að lesa hana sem orrustuna við Elli kerlingu í spegli styrjaldar þar sem einn maður og margir aðrir glötuðu sakleysi sem aldrei hefur fengist endurheimt, ekki heldur með hverri nýrri kynslóð. Um það vitnar Guernica Picas- sos sífellt. Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Morgunblaðið/Frikki Gauti Mælir með Yfir Ebrofljótið eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.