Morgunblaðið - 25.03.2008, Blaðsíða 16
|þriðjudagur|25. 3. 2008| mbl.is
Við stýrið Elías yfirlæknir og Margrét deildarstjóri segja mikla samheldni hjá starfsfólkinu.
FRÉTTASKÝRING
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur
sunna@mbl.is
T
augalækningadeild Landspítalans í
Fossvogi varð til við samruna
deilda á Grensás og við Hringbraut
árið 2002 og er sú eina sinnar teg-
undar á landinu. Þar er fengist við
sjúkdóma í taugakerfinu og þar með hinu
flókna og viðkvæma líffæri heilanum. Helstu
viðfangsefnin eru sjúkdómar á borð við heila-
blóðfall (slag), MS, flogaveiki og Parkinsons-
veiki auk margra annarra, s.s. MND, höf-
uðverkja og æxla í taugakerfi. Sjúkdómarnir
eru flestir langvinnir en á síðustu árum og ára-
tugum hafa komið fram nýjungar í meðferðum
sem hafa aukið lífsgæði sjúklinganna til muna.
Sumir sjúkdómar í heila tengjast háum aldri,
sérstaklega heilaæðasjúkdómar en einnig
Parkinsons, og munu þeir verða algengari í takt
við hraða fjölgun eldri Íslendinga.
Yfirleitt er ekki hægt að koma í veg fyrir
sjúkdóma sem leggjast á taugakerfið en heila-
blóðfall sker sig þó úr. Í mörgum tilvikum væri
hægt að koma í veg fyrir það með því að greina
og meðhöndla háþrýsting, sem er helsti
áhættuþáttur heilablóðfalls.
Lyfjameðferð getur haldið sumum sjúkdóm-
um niðri og t.d. hjá flestum flogaveikum er
hægt að halda flogunum í skefjum með lyfja-
meðferð. Hjá hluta flogaveikra hjálpa lyfin lítið
og þá er stundum hægt að lækna sjúkdóminn
með skurðaðgerð.
Kennsla, fræðsla
og teymisvinna
En lyf og aðrar meðferðir, auk framfara í
greiningartækni, koma að litlu gagni án fag-
þekkingar og af henni er hafsjór á taugadeild
Landspítala, líkt og Margrét Rögn Hafsteins-
dóttir deildarstjóri orðar það. Það helgast m.a.
af því að margir úr starfsliðinu hafa eytt nær
allri sinni starfsævi á deildinni og öðlast mik-
ilvæga sérþekkingu á taugasjúkdómum. Þá fer
mikil kennsla þar fram og árlega eru t.d. um 50
læknanemar þar við nám í nokkrar vikur í senn.
Mikil áhersla er lögð á þverfaglega teym-
isvinnu á deildinni og er stefnt að því að auka
hana enn frekar. Samvinnan teygir anga sína
einnig til starfsfólks annarra stofnana, t.d.
Reykjalundar og MS-heimilisins. „Við höfum
lagt ríka áherslu á endurmenntun og fræðslu í
gegnum tíðina,“ segir Jónína Hafliðadóttir, sem
er í námsleyfi frá deildarstjórastarfi á tauga-
deild.
Þessi mikla þekking hefur m.a. skilað sér í
auknum lífslíkum heilaæðasjúklinga og til að
bæta aðbúnaðinn enn frekar stendur til að opna
hágæsluaðstöðu á deildinni, þar sem hægt er að
hafa mikið veika sjúklinga sem ekki þarfnast
öndunarvéla.
Álag og útskriftarvandi
En aðstaðan sem þessu hæfa starfsfólki er
boðið upp á er hins vegar að mörgu leyti óvið-
unandi þótt álagið sé eðli málsins samkvæmt
sveiflukennt. Það vantar bæði hjúkrunarfræð-
inga og sjúkraliða til starfa og hefur deildin
verið undirmönnuð í mörg ár. Fjórir reyndir
hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum fyrir
áramótin vegna óhóflegs vinnuálags. Uppsagn-
irnar voru dregnar til baka í kjölfar vilyrðis um
að brugðist yrði við ástandinu. Efndum er hins
vegar erfitt að koma við enda álagið mikið víð-
ast hvar á sjúkrahúsinu og legurúmum hefur
verið fækkað á öllum deildum.
Þá háir útskriftarvandi starfseminni en líkt
og manneklan er hann alls ekki eingöngu bund-
inn við taugadeildina heldur flestar deildir spít-
alans. Jafnan liggja á deildinni, jafnvel mán-
uðum saman, sjö til níu manns sem lokið hafa
meðferð og bíða eftir úrræðum utan spítalans.
Þetta þýðir m.a. að bráðveikir sjúklingar, sem
þurfa á sérhæfðri þjónustu taugadeildar að
halda, eru stundum lagðir inn á aðrar deildir.
Þá er mikill þrýstingur á að sinna fleirum og
betur, t.d. vegna nýtilkominna lyfja.
Þjónusta við ákveðna hópa útundan
Þessi erfiða staða getur komið niður á sjúk-
lingunum. Á undanförnum árum hefur verið
byggð upp af krafti þjónusta við heilaæða-
sjúklinga, enda ört stækkandi sjúklingahópur,
en þjónusta við aðra hópa hefur orðið útundan.
Parkinsonssjúklingar þurfa t.d. oft á reglu-
bundnum styttri innlögnum að halda til að stilla
lyfjameðferðina, en vegna þrengsla á legudeild
hefur þetta gengið illa og þegar þeir loks koma
inn á sjúkrahúsið eru þeir veikari og þurfa að
liggja lengur. Heilasíritarannsókn er nauðsyn-
leg til að finna þá flogaveiku sem hægt er að
hjálpa með skurðaðgerð. Rannsóknin krefst
allt að tveggja vikna innlagnar, en vegna mann-
eklunnar hefur þetta gengið illa. „Við eigum í
vaxandi erfiðleikum með að gera þessa rann-
sókn og höfum ekki getað sinnt þessu verkefni
vel síðastliðin tvö ár,“ segir Elías Ólafsson, yf-
irlæknir taugadeildar, og bætir við: „En það
vantar miklu meiri þjónustu við alla okkar sjúk-
lingahópa,“ segir hann og telur t.d. þjónustu við
Parkinsonssjúklinga „klárlega“ hafa versnað.
Þá er ekki hægt að halda öllum rúmum á
legudeildinni opnum vegna skorts á starfsfólki
og fyrir kemur að inn eru lagðir fleiri sjúklingar
en starfsfólkið getur sinnt eins vel og það sjálft
vildi.
Margrét Rögn telur útskriftarvandann þó
mesta áhyggjuefnið. „Okkar vandi er ekki sá að
það þurfi að bæta við rúmum og stækka deild-
ina, hann er sá að við þurfum að koma þeim
sem lokið hafa meðferð í önnur úrræði. Ef okk-
ur tækist það værum við í ágætum málum.“
Þá er dagdeildin umsetin. Þangað koma tugir
sjúklinga í hverri viku vegna lyfjagjafar og sí-
fellt fleiri bætast í hópinn. Deildin var betr-
umbætt fyrir nokkrum árum en starfsemin hef-
ur þegar sprengt húsnæðið utan af sér og
starfsfólkið sér oft ekki framúr verkefnunum.
Skýringin er m.a. sú að á þessu ári var farið að
gefa MS-sjúklingum byltingarkennt lyf, Ty-
sabri. Sú lyfjagjöf hefur verið mikil viðbót við
annars fulla deild og því hefur orðið að fara
hægt af stað við að taka nýja sjúklinga í með-
ferðina.
Við ofangreindar aðstæður er ómetanlegt að
allir í starfsliðinu séu samstilltir. „Þó að á deild-
inni sé oft á tíðum þungur hópur sjúklinga, og
óneitanlega verði oft meira álag á starfsfólkinu
en æskilegt væri, er hér mikil samheldni hjá
starfsfólkinu,“ segir Margrét Rögn. „Það er
það sem heldur starfseminni uppi.“
Hafsjór þekkingar nýttur
við oft erfiðar aðstæður
Morgunblaðið/Golli
Heilinn Greiningartækni hefur fleygt fram á undanförnum áratugum og m.a. er hægt að skoða starfsemi heilans með nákvæmu heilalínuriti.
Áður fyrr voru sumir tauga-
sjúkdómar álitnir dauðadóm-
ur, en á síðustu áratugum hafa
komið fram lyf og aðrar með-
ferðir sem hafa stórbætt líðan,
dregið úr einkennum og jafn-
vel læknað fólk af sjúkdómum
sínum. Þessum sjúklingahópi
sinnir fagfólk taugadeildar
Landspítala af mikilli elju en
oft við erfiðar aðstæður sem
eru einkennandi fyrir ástandið
víða á sjúkrahúsinu.
Járnkarlinn
breytti öllu
HEILINN er flókið fyr-
irbæri og tilviljanir
hafa stundum ráðið því
að upp hefur komist
um virkni ólíkra svæða
hans. Vel þekkt dæmi
er sagan af járnbraut-
arstarfsmanninum
Phineas Gage. Gage
var við vinnu í Ver-
mont í Bandaríkjunum árið 1848 er hann
varð fyrir hræðilegu slysi. Verið var að
sprengja járnbraut leið í gegnum berg og
þeyttist þá af miklu afli í hann járnkarl sem
stakkst í gegnum kinn hans og upp í enn-
isblað heilabarkarins, þaðan í gegnum höf-
uðkúpuna og tugi metra upp í loftið. Gage
lifði slysið af, en varð ekki samur eftir.
Þessi fyrrum ábyrgðarfulli ljúflyndismaður
varð allt í einu eirðarlaus, hvatvís og rudda-
legur, sumir segja kærulaus vindhani. Síðar
á lífsleiðinni fór hann að fá flog og lést að
lokum árið 1860.
Þessi sorgarsaga gaf mönnum samt sem
áður hugmynd um að ennisblaðið gegndi
m.a. mikilvægu hlutverki í persónuleika
fólks sem var tímamótauppgötvun í tauga-
læknisfræði.
Heili Gage var ekki rannsakaður að hon-
um látnum en sjö árum eftir andlátið var
höfuðkúpa hans grafin upp og er nú geymd
á bókasafni Harvard-háskóla.
ÞAÐ VAR fyrst árið 1973 að byrjað var að
taka tölvusneiðmyndir og hægt að skoða heila
lifandi sjúklinga. Tölvusneiðmyndatæknin
kom hingað til lands árið 1981 og síðan hefur
segulómun, MRI, bæst við. Þessi tækni hefur
gjörbreytt möguleikum á greiningu og með-
höndlun sjúkdóma í miðtaugakerfi. Einnig
hafa þróast aðrar rannsóknaraðferðir og
merkust þeirra er svokallaður PET-skanni,
sneiðmynd er sýnir efnaskipti heilans. Með
þessari rannsóknaraðferð hefur verið hægt að
staðsetja og rannsaka svæði í heilanum sem
tengjast margvíslegri starfsemi hans, svo sem
sjón, hreyfingu, svefni, skynjun verkja o.s.frv.
Þá hefur undanfarna áratugi mikill árangur
náðst í leit að nýjum lyfjum. Á síðustu tveimur
áratugum hafa komið á markað nær 20 ný lyf
við flogaveiki og einnig lyf sem hægja á fram-
gangi bæði MND-sjúkdómsins og MS.
Framfarir
í lækningum
daglegtlíf