Morgunblaðið - 26.11.2008, Síða 24
24
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. NÓVEMBER 2008
Einar Sigurðsson.
Ólafur Þ. Stephensen.
Forstjóri:
Ritstjóri:
STOFNAÐ 1913
Útgefandi: Árvakur hf., Reykjavík.
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal.
Útlitsritstjóri:
Árni Jörgensen.
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á slóðinni http://morgunbladid.blog.is/
Mikil áskor-un felst íþví fyrir
ráðamenn ríkis og
sveitarfélaga að
fjármagna rekstur hins opin-
bera næsta árið. Það er ljóst
að bankakreppan setur fjár-
málum hins opinbera veru-
legar skorður. Bæði verður
erfiðara og dýrara að fjár-
magna halla á ríkissjóði og
rekstur sveitarfélaga. Um leið
dragast tekjur saman vegna
samdráttar í efnahagslífinu.
Í Morgunblaðinu í gær kom
fram að alþjóðlega matsfyrir-
tækið Standard & Poor’s spá-
ir því að skuldir ríkissjóðs
verði 130% af vergri lands-
framleiðslu. Það er mun
hærra hlutfall en gert er ráð
fyrir í áætlun ríkisstjórn-
arinnar um efnahagsstöðug-
leika sem send var Alþjóða-
gjaldeyrissjóðnum. Þar er
spáð að hlutfall skulda verði
nær 109%.
Hvað sem öllum prósentum
líður er ljóst að skuldir hins
opinbera munu aukast stór-
kostlega frá því sem nú er.
Útlit er fyrir að til að fjár-
magna íslensku bankana,
Seðlabankann og fyrirsjáan-
legan halla á ríkissjóði þurfi
ríkið að afla að minnsta kosti
700 milljarða króna. Þá eru
lánin frá Alþjóðagjaldeyris-
sjóðnum og öðrum ríkjum til
að styrkja gjaldeyrisvara-
forðann undanskilin.
Orðstír íslensks
efnahagslífs hefur
beðið hnekki á al-
þjóðlegum fjár-
magnsmarkaði.
Matsfyrirtæki hafa lækkað
lánshæfismat íslenska rík-
isins frá því að bankarnir voru
yfirteknir. Síðast Standard &
Poor’s í fyrradag. Það verður
nánast ómögulegt að fjár-
magna hallarekstur hins op-
inbera með erlendu fé.
Þá munu opinberar aðilar
keppa um þær krónur sem
þarf að ávaxta á innlendum
markaði. Þar eru lífeyrissjóð-
irnir stærstir. Ríkið mun þar
af leiðandi fara í samkeppni
við banka um sparnað al-
mennings með útgáfu ríkis-
skuldabréfa.
Á það hefur verið bent að
ríkið getur prentað peninga
til að standa við innlendar
skuldbindingar. Í þeim efnum
eru hendur ríkisstjórnarinnar
einnig bundnar. Helst óttast
sérfræðingar að aukin pen-
ingaprentun leki út á gjald-
eyrismarkaðinn og veiki krón-
una. Eitt meginmarkmið
samningsins við Alþjóðagjald-
eyrissjóðinn var einmitt að
styrkja krónuna gagnvart er-
lendum gjaldmiðlum.
Vegna þessara aðstæðna er
nauðsynlegt að skera niður
ríkisútgjöld og forgangsraða
verkefnum. Gæluverkefnin og
góðærið er búið hjá stjórn-
málamönnum eins og öðrum.
Góðærið er búið hjá
stjórnmálamönnum}Fjármögnun skulda
Það þokast írétta átt,
svaraði Gro
Lindstad spurð
hvort margt hafi
breyst þau rúmu
30 ár sem UNI-
FEM, þróunarsjóður Samein-
uðu þjóðanna í þágu kvenna,
hefur starfað. Samtökin fund-
uðu á Hótel Holti í gær undir
formerkjunum: Líf án ofbeld-
is er réttur allra. Sextán daga
átak gegn kynbundu ofbeldi
hófst á sunnudag í 17. sinn.
Lindstad, sem er hátt sett hjá
UNIFEM, segir afar mikil-
vægt að virkja karlmenn bet-
ur í baráttunni gegn kyn-
bundnu ofbeldi. Það hefur
einmitt gefist vel hér á landi,
en síðustu ár hefur til dæmis
karlahópur Femínistafélags-
ins barist gegn kynbundnu of-
beldi. Baráttan hefur vakið
athygli.
Það er með þessi mál sem
önnur sem þjóðin tekst á við
núna að mikilvægt er að bæði
kynin komi að lausn þeirra.
Þannig næst besti árang-
urinn. Bæði kynin geta leiðst
út í vændi, orðið
fyrir kynferðis-
legu ofbeldi og
heimilisofbeldi.
Hins vegar vitum
við að konur eru í
meirihluta þeirra
sem verða fyrir slíku.
Nú á haustmánuðum
breyttist Ísland. Margir eiga í
fjárhagserfiðleikum, missa
vinnuna. Afleiðingarnar koma
smátt og smátt í ljós. Efna-
hagskreppa rífur í. Fjárhags-
áhyggjurnar og atvinnuleysið
auka álagið á heimilin. Á
svona tímum ríður á að bar-
áttunni gegn kynbundnu of-
beldi fari ekki aftur heldur
verði hún efld.
Ár er síðan UNIFEM
hleypti af stokkunum átakinu
„Segjum NEI við ofbeldi.“
Milljónir hafa skrifað undir
listann á heimasíðum samtak-
anna. Yfir 10 þúsund hér. Af
síðustu 20 skráningunum eru
tveir þriðju konur. Stöndum
vörð gegn kynbundnu ofbeldi.
Segjum nei við auknu ofbeldi
almennt og komum í veg fyrir
það. Öll.
Segjum nei
við auknu ofbeldi
og komum í veg
fyrir það}
Kynin saman gegn ofbeldi
É
g hrökk hálfpartinn í kút í fyrra-
dag þegar hátt settur banka-
maður sagði við mig að rof hefði
verið á milli stjórnmála og við-
skipta undanfarin ár. Það væri
hluti skýringarinnar að svo fór sem fór í ís-
lensku efnahagslífi. Bankahrun og stórfelldar
skuldir hins opinbera. Hann sagði að það
þyrfti að vera meiri tenging þarna á milli.
Ástæðan fyrir því að ég hrökk í kút er þessi:
Þegar ég var 23 ára stóð ég frammi fyrir
þeirri ákvörðun að skrá mig í stjórnmálaflokk.
Ég leit á mig sem frjálshyggjumann og barð-
ist gegn yfirgangi ríkisins á öllum sviðum.
Hvers vegna átti ég þá að taka þátt í starfi
stjórnmálaflokks sem hefði það markmið að
komast til valda og stjórna ríkinu sem ég í
raun fyrirleit?
Þegar ég íhugaði þetta betur sá ég að einu stjórnmála-
samtökin sem ég gat tekið þátt í voru Heimdallur, félag
ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í raun má segja að
tilgangur félagsins hafi verið að gera sjálft sig óþarft.
Það var draumsýnin sem við unnum að.
Nokkru síðar komst ég að því að þetta var ekkert ólíkt
heimspeki sem Ayn Rand setti fram um miðja síðustu
öld. Hún sagðist vera áhugasöm um stjórnmál af einni
ástæðu. Til að upplifa þann dag að hún þyrfti ekki að
hugsa um stjórnmál og gæti unnið að hugðarefnum sín-
um og markmiðum í þeirri vissu að afskipti ríkisins
myndu ekki eyðileggja þau áform. Líf hennar, vinna og
framtíð myndi ekki stjórnast af vilja ríkisins
eða þeirra sem stjórnuðu því.
Ég hélt satt að segja að við værum að kom-
ast nær því markmiði. Bankamaðurinn hafði
getað unnið að markmiðum sínum án þess að
þurfa að íhuga pólitík mikið. Hann var ekki
hluti af klíkuveldinu sem Jón Baldvin Hanni-
balsson sagði í Morgunblaðinu í gær að hefði
lengst af viðgengist í venslum stjórnmála og
viðskipta á lýðveldistímanum. Jón Baldvin
vill hreinsa kerfið og betrumbæta. Ég tel
heillavænlegra að draga úr umsvifum þess og
takmarka.
Greinilegt er að hugsjón mín um fullan að-
skilnað stjórnmála og viðskipta hefur orðið
undir um sinn. Ríkið hefur aftur tögl og
hagldir í viðskiptalífinu og mörg fyrirtæki
eiga líf sitt undir ákvörðun pólitískra umboðsmanna. Um
leið er almenningur skuldsettur í gegnum hið opinbera.
Ástæðan er ekki sú að frjálshyggjan hafi tapað.
Ástæðan er pilsfaldakapítalisminn, sem á uppruna sinn í
sósíaldemókratískum flokkum, í ætt við þá sem Jón
Baldvin stýrði. Þetta eru flokkar sem vildu sameina „það
besta“ úr kapítalisma og sósíalisma. Gefa kapítalistunum
lausan tauminn en setja þeim skorður með flóknu reglu-
verki. Fyrir vikið er meðal annars búið að skuldbinda al-
menning til að ábyrgjast skuldir annarra.
Með þessum rökum einum er hægt að segja að nauð-
synlegt sé að rof verði á milli viðskipta og stjórnmála.
Bankamaðurinn hafði því rangt fyrir sér.
Björgvin
Guðmundsson
Pistill
Rof milli viðskipta og stjórnmála
Verða bílar brátt
að útflutningsvöru?
FRÉTTASKÝRING
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur
sia@mbl.is
M
eð afgreiðslu laga um
endurgreiðslu virð-
isaukaskatts og
vörugjalda á bifreið-
um opnast fólki leið
til að selja bíla sína úr landi á hag-
kvæmari hátt en áður. Í þeim til-
fellum sem lán hvílir á bílnum þurfa
skuldarar þó að semja við lánar-
drottin um framkvæmd útflutnings-
ins. Viðmælendur Morgunblaðsins
eru sammála um að markaður er-
lendis sé farinn að þrengjast og frum-
varpið megi þess vegna ekki seinna
vera.
Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður
Árna M. Mathiesen fjármálaráð-
herra, sem leggur fram frumvarpið,
segir að í kostnaðarmati fjármála-
ráðuneytisins sé gert ráð fyrir að um
5.000 bílar verði seldir úr landi í kjöl-
far þess að frumvarpið hefur verið
samþykkt. Mælt var fyrir frumvarp-
inu á Alþingi í gær. „Með því er fólki
gert kleift að flytja út bifreiðar, hugs-
anlega með einhverri hagnaðarvon,“
segir Böðvar.
Þröstur Ríkharðsson, yfirmaður
lögfræðisviðs hjá Avant, segir að Av-
ant reyni af fremsta megni að koma á
móts við skuldunauta sína, ekki síst í
því augnamiði að sitja ekki uppi með
fjölda bíla. Hann segir þó ekki hafa
reynt á þá möguleika sem frumvarpið
veitir, þar sem það hefur enn ekki
verið samþykkt. „Við munum skoða
hvert mál með viðkomandi aðila eins
og við höfum gert hingað til,“ segir
Magnús.
Í frumvarpinu segir m.a.: „Fjár-
hæð endurgreiðslu skal miða við það
vörugjald sem greitt var við innflutn-
ing ökutækisins. Sú fjárhæð skal
lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan
mánuð eftir það þar til 100% fyrningu
er náð.“
Kjartan Georg Gunnarson, fram-
kvæmdastjóri SP fjármögnunar,
bendir sérstaklega á að fyrirtækið
hafi boðið fólki að frysta lán sín löngu
áður en ríkisstjórnin fór fram á það
og undanfarna mánuði hafi SP fjár-
mögnum samið við þúsundir skuld-
ara. „Við erum að semja við fólk á
hverjum einasta degi um að aðstoða
það og koma til móts við það,“ segir
Kjartan Georg. Hann segir frum-
varpið að einhverju leyti gagnast
skuldunautum SP fjármögnunar, en
telur virði bílsins þó vera afskrifað
fullhratt eða um 24% á ársgömlum
bíl. Frumvarpið segir hann þó vera
jákvætt, það stækki markað fyrir ís-
lenska bíla úr 300 þúsund manns í
300 milljónir.
Ingólfur Þorsteinsson, inn-
heimtustjóri hjá Lýsingu, segir að
þegar frumvarpið verður gengið í
gegn verði skoðað hvaða leiðir eru
færar fólki sem skuldar bílalán og vill
losna við það. „Við erum í þeirri vinnu
akkúrat þessa dagana. Þetta felur þó
alltaf í sér að samningur við Lýsingu
sé gerður upp,“ segir hann. Öll mál
verði þó skoðuð í samvinnu við skuld-
ara.
Runólfur Ólafsson, framkvæmda-
stjóri Félags íslenskra bifreiðaeig-
enda, bendir á að frumvarpið sé
þannig úr garði gert að það eigi ein-
ungis við um yngri bíla. Með frum-
varpinu sé tryggt að hægt sé að koma
eignum landsmanna í verð að ein-
hverju leyti og fá tekjur til baka í
gjaldeyri. „Í stað þess að láta eign-
irnar glata verðgildi sínu með því að
grotna hér niður. Þetta getur hjálpað
fólki og fyrirtækjum sem eru með
bíla, af því að það er mjög treg bíla-
sala á markaði hér núna,“ segir Run-
ólfur. Hann bendir þó á að ákveðin
atriði þurfi að skýra betur, eins og í
þeim tilfellum sem lán hvílir á bíln-
um. Runólfur hefur heyrt það á skot-
spónum að fagaðilar hyggi á þjónustu
við almenning í formi umboðssölu.
Morgunblaðið/RAX
Óseldir bílar Mjög margir bílar eru á hvern Íslending, eða um 600 á hverja
þúsund íbúa. Brátt verður hagkvæmara að selja þá úr landi.
VIÐMÆLENDUR Morgunblaðsins
bentu á að frumvarpið mætti ekki
seinna vera þar sem markaður
erlendis er farinn að þrengjast.
Tíminn vinnur ekki með Íslend-
ingum.
Gríðarlegur áhugi virðist þó
vera á bílum frá Íslandi ef marka
má reynslu markaðsfyrirtækisins
Nordic eMarketing sem fékk það
verkefni frá bílasölunni Heklu í
byrjun október að markaðssetja
þá hugmynd að selja alla upp-
ítökubíla úr landi. „Ljóst var á
þeim tíma að íslenski markaður-
inn var algjörlega frosinn,“ segir
Haraldur Friðgeirsson, verk-
efnastjóri hjá Nordic eMarketing.
Vefsíðan www.nordiccarsale.is
var opnuð og fréttatilkynningum
var dreift á netinu. Viðbrögðin
voru mjög sterk, heimsóknir á
vefsíðuna skiptu þúsundum, fyr-
irspurnir í gegnum síma skiptu
hundruðum. Mestur var áhuginn
á Norðurlöndunum og Finnar
voru þar fremstir í flokki.
MIKILL
ÁHUGI
››