Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.02.2000, Blaðsíða 31

Skinfaxi - 01.02.2000, Blaðsíða 31
LÆRIHJA ÞEIM BESTU! „Það var nú bara hlegið að mér fyrst þegar ég mætti að aðalhliðinu hjá Real Madrid og sagðist vilja hitta framkvæmdastjóra félagsins," sagði Aðalsteinn Örnólfsson, þjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni, þegar blaðamaður spurði hann út í þessa spennandi heimsókn hans til eins frægasta knattspyrnufélags heims. „KSÍ hafði lengi reynt að fá leyfi fyrir mig að fylgjast með æfingum hjá Real Madrid en aldrei fengið svar." Aðalsteinn gafst hins vegar ekki upp og mætti á svæðið með blaðið í höndunum sem KSÍ hefði reynt að senda til klúbbsins. „Yfirmaður skrifstofunnar tók á móti mér og hann var mjög vingjarnlegur og vildi allt fyrir mig gera. Hann talaði litla ensku en á skrifstofunni náði hann í samstarfsmann sinn sem talaði betri ensku og ég útskýrði fyrir honum tilgang ferðar minnar." Aðalsteinn hafði áhuga á að kynna sér þjálfunaraðferðir þeirra Madrid manna og næstu daga fylgdist hann með leikmönnum eins og Roberto Carlos og Steve McManaman leika listir sínar. En hvernig voru æfingarnar hjá Real Madrid? „Fyrsta daginn minn var aðalliðið ekki að æfa svo ég fylgdist með efnilegum strákum í unglingaliðinu. Daginn eftir sá ég A-, B- og unglingaliðið æfa. Það var mikið umstang í kringum æfinguna og fjölmiðlamenn í hverju horni enda hafði félagið nýlega rekið þjálfara sinn, John Toshak. Það kom mér mest á óvart hversu létt var yfir öllum æfingunum og menn virtust virkilega hafa gaman af því sem þeir voru að gera," sagði Aðalsteinn að lokum. Það verður svo bara að koma í ljós hvort leikstíll yngri flokka Stjörnunnar í sumar minni eitthvað á leikstíl Real Madrid. Seedorf og Carlos á æfingu hjá Real Madrid. Aðalsteinn fylgdist með öllu sem þeir gerðu. Það er ekki oft sem íslenskir þjálfarar yngri flokka fá að kynna sér starfsemi stærstu atvinnumannaklúbba heims. Aðalsteinn Örnólfsson, þjálfari hjá Ungmennafélagi Stjörnunnar í Garðabæ, ferðaðist víða um Evrópu í vetur og kynnti sér þjálfunaraðferðir hjá ekki minni liðum en Real Madrid og Benfica. Blaðamaður Skinfaxa spurði Aðalstein út í ferðalag hans og þá aðallega heimsóknina til Real Madrid.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.