Sjómannablaðið Víkingur - 01.08.1956, Blaðsíða 10
lega grein fyrir þeim aðstæðum, sem hér við Djúp eru
í þessum efnum, og láti sig því litlu skipta hvort rækju-
veiðum verði haldið áfram hér með ólöglegu veiðarfæri
á friðunarsvæðinu.
En víst hefði mátt vænta þess, að aðgerðir og álykt-
anir fiskideilda hér á Vestfjörðum hefðu mátt vera á-
kveðnari og á annan veg en raun ber vitni.
Almenn ánægja mun ríkja alls staðar á landi voru
með útvíkkun landhelginnar og friðun hennar fyrir veið-
um með dragnót og botnvörpu á friðunarsvæðinu, þótt
betur hefði mátt gera gagnvart okkur Vestfirðingum.
Geri ég ráð fyrir, að til dæmis Húsvíkingar, sem með-
al annarra fullyrða að afli hafi þegar glæðzt mjög sið-
an friðunin komst á, mundu bregðast illa við, ef leyfð-
ar væru nú aftur með undanþágu veiðar með dragnót
eða botnvörpu á Skjálfandaflóa.
Um það, að fela fiskimálastjóra að afla sem gleggstra
upplýsinga og að leita álits sérfróðra manna um hvort
rækju- og humarveiðar spilli öðrum aflamöguleikum, er
ekki nema allt gott að segja. Fjarri fer því, að ég vilji
gera lítið úr áliti sérfræðinga og þvi rétt að leita álits
þeirra. Hinu má ekki gleyma, að reynzlan í þessum
efnum, sem öðrum, er alltaf ólýgnust og í þessu tilfelli
því ekki rétt að skjóta skollaeyrum við því, sem reynd-
ir og eftirtektarsamir sjómenn leggja til málanna.
Ég er þess fullviss, að það, sem hér að framan er
sagt, styðst við álit meginhluta allra sjómanna hér í
héraðinu, sem sjá fram á algerða fiskiþurrð hér á inn-
miðum ísafjarðardjúps, verði ekki undinn bráður bug-
ur að því að hefta þá rányrkju, sem á sér stað á fiski-
miðunum, með rækjuveiðum eins og þær eru nú reknar.
Aður en farið var að veiða rækjur á fiskimiðunum
hér í Mið-Djúpinu var að sumrinu mikið af smáfiski
upp á grunnmiðunum beggja megin Djúpsins kringum
boða og sker, svo að segja með landi fram. Nú síðustu
árin hefur gjörsamlega tekið fyrir smáfiskaveiði á þess-
um stöðum, sem efalaust má kenna rækjuveiðunum í
Djúpinu. Ömurlegt er að hugsa til þess, að ísafjarðar-
djúp verði innan fárra ára jafn rúið nytjafiskum vor-
um og Hestfjörður uppvaxandi fiskseiðum. Þessu má
vissulega búast við, verði rækjuveiðum haldið hér
áfram.
Mér og öðrum, sem hafa sömu skoðun og ég á máli
þessu, er ljóst, að rækjuveiðarnar hér við Djúp hafa
veitt mörgum íbúum ísafjarðarkaupstaðar talsverða at-
vinnu undanfarin ár. Hitt ætti að vera ljóst öllum, að
viðarhluta mikið er, að spilla með veiðum þessum allri
fiskigengd í hið veiðisæla ísafjarðardjúp og möguleik-
um til þess að eftirleiðis, sem hingað til, geti fiskiveið-
ar hér verið iyftistöng velmegunar í héraðinu. — Að
rækjuveiðar geti nokkurn tíma verið það, er útilokað.
Það sýnist hart að gengið, að banna öllum þeim, sem
stunduðu veiðar með dragnót með góðum árangri kring-
um allt landið, áður en friðunarsvæðið var ákveðið. En
víðsýni sjómannastéttarinnar var þar að verki og mögl
frá sjómönnum var hvergi að heyra yfir þeim ráðstöf-
unum. Hafi þær ráðstafanir verið réttar og nauðsynleg-
ar, sem enginn efast nú um, því skyldi þá ekki vera
ástæða til að banna með öllu rækjuveiðar örfáum mönn-
um, sem þessa atvinnu stunda, enda þótt veiðar þessar
kunni að gefa nokkurn arð af sér um stundarsakir.
Megi svo fara, að ráðamenn sjávarútvegsmálanna
sjái, sem fyrst, að hér þarf að stemma á að ósi og hefta
þá rányrkju, sem átt hefur sér stað í ísafjarðardjúpi
undanfarin ár, svo að þeir, sem hér búa, geti vænzt þess
að afli glæðist að sama skapi hér, sem annars staðar
kringum landið, þar sem friðun fiskimiðanna á sér stað
fyrir eyðileggingaröflum botnvörpunnar.
Vigur, 1. maí 1956.
Bjarni Sigurösson.
£ £ £
— Smœlki —
í skólanum.
Litill drengur kom í fyrsta sinn í skólann og kenn-
arinn lagði fyrir hann eftirfarandi spurningar:
Kennarinn: — Hvað heitir þú?
Drengurinn: — Hans Pétur.
Kennarinn: — Hvað gamall ertu?
Drengurinn: — Veit það ekki.
Kennarinn: — Hvenær ertu fæddur?
Drengurinn: — Ég er ekki fæddur, ég er tökubarn.
*
Synd.
Ung kaþólsk stúlka var að skrifta fyrir presti sínum.
Stúlkan: — Faðir, ég er trúlofuð.
Presturinn: — Ekki er það synd, barnið mitt.
Stúlkan: — Hann hefur svo gaman að strjúka á mér
fæturna.
Presturinn: — Ekki er það synd. Hve hátt strýkur
hann annars?
Stúlkan: — Upp að sokkabandi.
Presturinn: — Það er allt í lagi, en hærra má hann
ekki strjúka. Hvað ertu annars með um hálsinn, barnið
mitt?
Stúlkan: — Sokkabandið mitt.
142
VIKINGUR