Náttúrufræðingurinn - 1957, Page 17
UM PLÖNTUSVIFIÐ í SJÓNUM
11
sjónum af ólífrænum efnum, hve mikið er af svifi og svo framvegis.
Á vissu dýpi er birtan svo lítil, að plönturnar geta ekki byggt meira
af lífrænu efni, eu þær eyða jafnóðum við öndunina. Þetta dýpi,
þar sem jafnvægi er á milli þess, sem plantan byggir upp, og þess
sem hún eyðir jafnóðum, hefur verið kallað jafnvægisdýpið, og
liggur það mjög misjafnlega djúpt, jafnvel á sömu breiddargráðu
á sama tíma árs. Við vesturströnd Skotlands hefur jafnvægisdýpið
reynst vera á um það bil 30 m að sumri til, og á 60° n. br. í Noregs-
hafinu á 50 m. Lítið er kunnugt hvar jafnvægisdýpið liggur við
strendur íslands. Það eina, sem gert liefur verið af slíkum rann-
sóknum hér við land var framkvæmt af Dananum Steemann Niel-
sen. Samkvæmt mælingum hans reyndist jafnvægisdýpið í maí í
Faxaflóa, rétt fyrir utan Keflavík, vera um það bil á 9 m. En ætla má,
að þetta dýpi sé mjög breytilegt yfir íslenzka landgrunninu eftir
því, á hvaða stað það er mælt.
Af því, sem sagt hefur verið um ljósið, er sýnilegt, að hin raun-
verulega framleiðsla af lífrænu efni fer fram í tiltölulega rnjög
þunnu sjávarlagi.
Þegar bóndinn vill bæta uppskeruna, bætir hann jarðveginn fyrst
og fremst með kalí, fosfór og köfnunarefni, þar eð þessi efni eru
af skornum skammti í jarðveginum, en alveg nauðsynleg plöntun-
um í uppbyggingarstarfi þeirra. Þessi sömu efni eru jafn nauðsyn-
leg plöntunum í sjónum. Það er gnægð af uppleystum kalísöltum
í sjónum, svo að plöntur hafsins skortir þau aldrei. Aftur á móti
er tiltölulega lítið af köfnunarefnis- og fosfórsamböndum í yfir-
borðslögunum, og það sem fyrir hendi er hverju sinni, eyðist fljót-
lega við starfsemi plantnanna, svo að á vissum tímum árs verður
alger þurrð. Má segja, að mælikvarði á það, hve mikil plöntufram-
leiðsla geti orðið á hverjum stað, sé magn það af fosfötum og
nitrötum, sem berst til hafsvæðisins. Hringrás þessarra efna í sjón-
um hefur því mikla þýðingu fyrir útbreiðslu plöntusvifsins og
magn þess á hverjum stað, og skulum við því athuga það samhengi
nokkru nánar.
Það er algengast hér í Norðurhöfum, að fosföt og nítröt berist
til yfirborðslaganna með hinum lóðréttu straumum, sem orsakast
af vetrarkólnuninni. Á vetrum, þegar yfirborðslögin kólna, verða
þau þyngri en lögin undir og sökkva, en upp kemur hlýrri
sjór. Við þetta myndast lóðréttir straumar, sem smám saman ná