Fréttablaðið - 06.06.2009, Page 30
30 6. júní 2009 LAUGARDAGUR
É
g fengi eflaust ekki
háfjallaveiki þótt ég
tæki lyftuna og færi
upp á þriðju hæð í
einum áfanga en það
er best að rölta upp
tröppurnar í rólegheitum,“ hugs-
ar blaðamaður með sér þegar hann
fer á fund Tómasar Guðbjartsson-
ar, hjarta- og lungnaskurðlæknis
og prófessors, á skrifstofu hans á
Landspítalanum. Launin fyrir rölt-
ið voru líka vegleg því við tröpp-
urnar sá hann málverk af frænda
sínum, Sigurði heitnum Samúels-
syni, prófessor emeritus, sem var
frá Bíldudal reyndar eins og Guð-
bjartur Kristófersson, faðir Tómas-
ar. Að íslenskum sið er því ættfræð-
in rakin þegar fundum Tómasar og
blaðamanns ber saman á skrifstofu
læknisins. En áður en þeir dvelja
um of við Arnarfjörðinn þar sem
rætur þeirra beggja liggja er stefn-
an tekin í suður og upp á við. Blaða-
mann langar að vita hvað fær þenn-
an rólega og yfirvegaða mann til að
fara upp á topp Kilimanjaro sem er
í 5.895 metra hæð. Hann vissi sem
var að Tómas varð veikur í þess-
ari ferð og hefur allar götur síðan
reynt, eins og sannur vísindamað-
ur, að auka þekkingu okkar á þess-
ari veiki.
Læknirinn með ólæknandi fjalla-
bakteríu
„Ég hef alla tíð verið með fjalla- og
útivistarbakteríu,“ segir Tómas.
„Það er að stórum hluta til komið
vegna þess að faðir minn, sem er
jarðfræðingur, fór löngum sem leið-
sögumaður með erlenda ferðamenn
í langar gönguferðir og við Hákon
bróðir minn vorum ekki ýkja háir
í loftinu þegar við fengum að fljóta
með. Svo þegar ég kom aftur til
landsins á mínum menntaskólaár-
um eftir árs fjarveru í Þýskalandi
var hörgull á fólki sem þekkti vel
til á landinu og gat farið með göngu-
hópa vítt og breitt.“ Tómas var vel
mælandi orðinn á þýska tungu og
fór að vinna sem leiðsögumaður,
fyrst fyrir Samvinnuferðir en síðan
Guðmund Jónasson. Fjallabakterí-
an ágerðist og átján ára gamall fór
hann ásamt bróður sínum og föður á
Mount Blanc. „Síðan þá má segja að
fjallabakterían hafi orðið illviðráð-
anleg ef ekki óviðráðanleg.“
Læknar í fíflagangi
Þegar Tómas snýr heim aftur eftir
ellefu ára námsdvöl erlendis og
hefur störf á Landspítalanum verð-
ur hann var við gríðarlegan áhuga
kollega sinna á fjallgöngum og úti-
veru. Þetta er honum mikið fagnað-
arefni og fóru þeir að skipuleggja
gönguferðir. „Um það leyti sem
ég er að koma var FÍFL stofnað,“
segir Tómas en blaðamaður biður
hann um að endurtaka því hann
taldi sig ekki hafa heyrt rétt. „FÍFL
eða Félag íslenskra fjallalækna. Við
ákváðum að hafa svolítinn húmor í
þessu og taka okkur ekki of alvar-
lega. Allavega líðst viss fíflagang-
ur í félaginu,“ segir Tómas og hlær
við. „Við reynum svo að halda okkar
ársfund á Eyjafjallajökli sumardag-
inn fyrsta en veðrið getur orðið þess
valdandi að stundum þarf að hnika
til dagsetningunni.“
En þótt fjallaveikin hefði borist
um starfsvettvang Tómasar gerði
hún lítt vart við sig hjá konu hans,
Dagnýju Heiðdal. Hún féllst þó á
það að fara haustið 2007 á Kiliman-
jaro með eiginmanni sínum og fjór-
um öðrum félagsmönnum og mökum
þeirra. Það er að segja tíu manna
hópur, þar af sex læknar.
Karlinn fær háfjallaveiki en kona
fjallaveiki
Tómas segir að mikið hafi verið
lagt í undirbúninginn. Fyrirtækið
sem bauð upp á ferðina var valið
af mikilli kostgæfni og eftir heilm-
ikla athugun. Læknarnir ætluðu
ekki að láta háfjallaveikina leggja
sig að velli svo áætlanir miðuðu að
því að sporna við einkennum henn-
ar. Til dæmis tóku sumir töflur til
að fyrirbyggja að einkennin gerðu
þeim lífið leitt en síðan voru þeir
tilbúnir með ráðstafanir þegar og
ef einkennin létu verulega á sér
kræla. Tómas lagði ríka áherslu á
að brýna þessar ráðstafanir fyrir
Dagnýju sem honum þótti mun lík-
legri en hann til að þurfa að grípa
til þeirra. „Við vorum flest í mjög
góðu ásigkomulagi. Þarna voru til
dæmis tveir maraþonhlauparar
og sjálfur var ég mikið að vasast
í skvassi og því í góðu formi. En
hvað sem því leið var einn okkar
farinn að finna fyrir einkennunum
strax á fyrstu dögunum og ákvað
hann að fara ekki upp á toppinn.
Þegar við erum svo komin í 4.500
til 5.000 metra hæð eru nokkr-
ir klárlega farnir að finna fyrir
háfjallaveiki en fyrstu einkenn-
in geta verið afar lúmsk. Þetta
voru þessi dæmigerðu einkenni
og byrjuðu oft með svefntruflun-
um og höfuðverk, jafnvel ógleði og
hraðri öndun. Vissulega vorum við
meðvituð um hættuna á þessu en
samt sem áður var okkur nokkuð
brugðið þegar til kom. Og það sem
kom okkur kannski mest á óvart
var að þeir sem voru í hvað besta
ásigkomulagi urðu veikastir. Það
kom til dæmis í hlut konu minnar
að stumra yfir mér, margreyndum
fjallamanninum og skvasskappan-
um. Hins vegar veiktist hún þarna
algjörlega af fjallabakteríunni en
það var bara hið besta mál. Nú þarf
ég ekki lengur að sannfæra hana
um að koma með mér á fjöll.“
Þjáning á toppnum
Þegar hópurinn er kominn í um
5.000 metra hæð fer Tómas að
finna fyrir ótuktinni. „Þegar ég
er síðan kominn á hinn svokall-
aða Gilmans Point, sem er í 5.681
metra hæð, þá kastaði ég upp og
var kominn með alveg klár ein-
kenni. Þegar þarna er komið sögu
var einn félagi minn farinn að
finna fyrir sundli og enn annar
fyrir alvarlegri einkennum. Þegar
við vorum að ná toppnum hrakaði
honum enn frekar enda þynnist
loftið hratt í þessari hæð. Hann átti
orðið erfitt með öndun og eftir að
hann náði toppnum varð að aðstoða
hann niður af fjallinu. Hann hafði
sem sagt fengið það sem kallað er
háfjallalungnabjúg. En allir náðu
sér fljótt eftir að við tókum leiðina
niður á við.“
Tómas segir að þeir hafi feng-
ið nokkrar ákúrur fyrir að hafa
stofnað sjálfum sér í slíka hættu
og þeim legið á hálsi fyrir að hafa
farið í óðagoti og án þess að vita
hvað við væri að etja. „Ég vísa
þessu algjörlega á bug þótt ég
geri ekki lítið úr því að vissulega
er það alvarlegt mál að einn okkar
skuli hafa lent í slíkri hættu. En
þetta var vel undirbúið og við stóð-
um eins vel að þessu og okkur var
unnt.“
Rannsóknarleiðangur í Monte Rosa
Einhver kynni að halda að læknir-
inn yrði að fara væna fjallabaks-
leið til að tengja tómstundina sem
fjallamennskan er við starf sitt
sem hjarta- og lungnaskurðlæknir.
En svo er ekki því spurningin sem
kviknaði á hæðum Kilimanjaro
var: hvað veldur því að einn veikist
af háfjallaveiki og annar ekki? Það
leiðir hugann að því hvernig menn
vinna úr súrefninu sem úr er að
tefla. Svör við slíkum spurningum
koma sér vel fyrir þann sem vinn-
ur á gjörgæslu þar sem öndunar-
vélar leysa öndunarfæri sjúkling-
anna af meðan þeir eru í aðgerð.
„Stundum getum við þurft að nota
hjarta- og lungnavél meðan þessi
líffæri eru að jafna sig og það er
misjafnt hvernig fólk þolir þetta.
Það er eins og með háfjallaveikina,
það er ekki endilega fólkið sem er
betur á sig komið sem þolir súrefn-
isskortinn betur.“
Í ágúst í fyrra fóru nokkrir félag-
ar úr FÍFL í rannsóknarleiðangur
á Monte Rosa í Ölpunum ásamt kol-
legum sínum frá háskólasjúkra-
húsinu í Lundi í Svíþjóð. Fjallið
er 4.634 metrar að hæð og slapp
Tómas við alla veiki en einn Sví-
anna fann nokkuð fyrir henni. Ekki
komu þeir þaðan með óyggjandi
svar við því hverjir séu líklegri
til að fá háfjallaveiki, en hverjar
voru helstu niðurstöður? „Það kom
í ljós að ensímið S-100, sem losnar
við súrefnisskort í heila- og tauga-
vef, hækkaði þegar upp er komið.
Einnig kom í ljós að hækkunin varð
ekki mest á tindinum heldur dag-
inn áður þegar mesta hækkunin í
metrum átti sér stað.“
Þeir félagar úr FÍFL hafa kynnt
helstu niðurstöður á ráðstefnum
hér á landi og erlendis og grein
frá þeim bíður birtingar í erlendu
vísindariti. Tómas hefur einnig
sagt frá þeim í fjölda erinda sem
hann hefur haldið um háfjallaveik-
ina þar sem hann segir einnig frá
reynslu sinni.
En stundum getur áhugamál
hans og starf sameinast með afar
skemmtilegum hætti. Það kemur
í ljós þegar hann er spurður um
það hvort hann hitti ekki fyrir
fyrrverandi sjúklinga við hinar
ýmsu aðstæður í þessu litla þjóð-
félagi. „Jú, jú. Reyndar er það oft-
ast svo að eitthvert okkar í hjart-
ateyminu tengist sjúklingnum á
einhvern hátt. Ég reyni nefnilega
að ræða við þá um aðra hluti en
sjúkdóma og slíkt og þá er aldrei
langt í þessa alíslensku spurningu:
hverra manna ert þú? Svo verður
maður þeirrar ánægju aðnjótandi
að sjá að sumum vegnar vel, eina
hef ég meira að segja hitt uppi á
fjöllum. Það er klárt merki um að
allt hafi farið á besta veg.“
Hins vegar virðist enginn jafna
sig á fjallabakteríunni þegar hann
hefur á annað borð fengið hana.
Ólæknandi fjallaveiki læknisins
EFTIR LANGAN FÍFLAGANG Hér eru félagar úr FÍFL á toppi Monte Rosa í rannsóknarleiðangri til að reyna að skilja meira um háfjallaveikina. Lengst til vinstri er Orri Einarsson,
þá Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson og svo Magnús Gottfreðsson.
TÓMAS GUÐBJARTSSON Það kæmi sér
vel bæði í leik og starfi að komast að
því hvernig stendur á því að sumir fá
háfjallaveiki en aðrir ekki.
Hvað veldur því að
sumir fá háfjallaveiki
í þúsundum metra
yfir sjávarmáli en ekki
aðrir? Þessi spurning
er Tómasi Guðbjarts-
syni, göngugarpi og
skurðlækni, hugleikin.
Hann sagði Jóni Sigurði
Eyjólfssyni frá því er
hann og félagar hans
glímdu við veikina á
Kilimanj aro og hvernig
vitneskja um veikina
getur nýst honum í
starfi og hvernig það
getur verið að hitta
fyrrverandi sjúklinga.
Hæðarveiki er samheiti yfir
sjúkdóma sem gera vart við sig í
mikilli hæð yfir sjávarmáli, oftast
þegar komið er yfir 3.000 metra
hæð. Aðallega er um þrjár gerðir
hæðarveiki að ræða; háfjallaveiki,
háfjallaheilabjúg og háfjalla-
lungnabjúg. Orsök hæðarveiki er
almennt talin vera súrefnisskortur
en meingerð sjúkdómanna er
flókið samspil margra þátta sem
til verða vegna viðbragða líkamans
við súrefnisskorti. Höfuðverkur er
algengastur en lystarleysi, ógleði og
svefntruflanir eru einnig algengar
kvartanir. Við hraða eða mikla
hækkun er hætta á bráðri háfjalla-
veiki en helstu einkenni hennar eru
svæsinn höfuðverkur sem svarar
illa verkjalyfjum, ógleði, uppköst og
mikil þreyta. Háfjallalungnabjúgur
og háfjallaheilabjúgur eru alvarleg-
ustu tegundir hæðarveiki. Hæðar-
veiki er helst hægt að fyrirbyggja
með því að hækka sig rólega og
stilla gönguhraða í hóf. Einnig má
draga úr einkennum með lyfjum.
Heimild: Úr grein Gunnars Guð-
mundssonar lungnalæknis og Tóm-
asar Guðbjartssonar „Hæðarveiki
- yfirlitsgrein“ birt í Læknablaðinu.
2009/95
Hvað er háfjallaveiki?
Vissulega vorum við meðvituð um hættuna á þessu en
samt sem áður var okkur nokkuð brugðið þegar til kom.
Og það sem kom okkur kannski mest á óvart var að þeir
sem voru í hvað besta ásigkomulagi urðu veikastir.