Fréttablaðið - 12.08.2009, Síða 14
14 12. ágúst 2009 MIÐVIKUDAGUR
greinar@frettabladid.is
FRÁ DEGI TIL DAGS
FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is
MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRI: Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is
og Sólveig Gísladóttir solveig@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is
N
ýleg grein Anne Sibert, hagfræðiprófessors og full-
trúa í peningastefnunefnd Seðlabankans, hefur vakið
talsverða athygli. Þar lýsir enska fræðikonan þeirri
skoðun sinni að íslenska þjóðin sé of fámenn til að
standa undir efnahagslega sjálfstæðu samfélagi.
Í sjálfu sér koma sjónarmið sem þessi ekki á óvart úr þessari
átt. Það er gömul saga og ný að íbúar ríkja sem telja tugmilljón-
ir eiga bágt með að skilja hvernig mun fámennari þjóðríki geta
þrifist. Þannig er það algengt viðkvæði á Bretlandi að tómt mál
sé að tala um sjálfstætt Skotland, þar sem fimm milljón manna
ríki eigi enga möguleika á að standa á eigin fótum.
Ef horft er til sögunnar sést að takmörkuð innistæða er fyrir
þeirri hugmynd að stórum ríkjum hljóti að farnast betur en
smáum. Raunar er saga Íslands á tuttugustu öld eitt gleggsta
dæmið um hvernig fámennar þjóðir geta byggt upp samfélög
hagsældar á skjótan hátt. Það er því ekki að undra þótt ýmsum
sárni vangaveltur hagfræðingsins.
Það er þó kaldhæðnislegt að uppleggið í grein Anne Sibert
felur einmitt í sér stærðarfordóma sem fjölmargir Íslendingar
eru vísir að. Af lestrinum má ljóst vera að Sibert telur enga
glóru í að íbúar Grænlands haldi úti sjálfstæðu ríki með sextíu
þúsund sálum, þrátt fyrir auðugar náttúruauðlindir.
Því miður heyrast sjónarmið sem þessi oft meðal Íslendinga,
þegar talið berst að nágrönnum okkar Færeyingum og Græn-
lendingum. Við látum okkur illa líka þegar íbúar milljónasam-
félaganna hnýta í fámennið hér, en erum svo engu skárri gagn-
vart okkar bestu vinaþjóðum.
Þannig er það nánast fastur liður í fréttaflutningi af sjálf-
stæðisáformum Grænlendinga að hnýtt sé við athugasemdum
um landlægan drykkjuskap og tíðni félagslegra vandamála þar
í landi, líkt og þjóðinni sé ekki treystandi til að bera ábyrgð á
eigin málum. Varðandi Færeyjar er það sömuleiðis hvimleitt
að sjá því ítrekað haldið fram að efnahagskreppan þar í landi
í upphafi tíunda áratugarins hafi orðið vegna óráðsíu heima-
manna sem tæmt hafi ríkiskassann og safnað skuldum, ekki
hvað síst með metnaðarfullri jarðgangagerð. Er þar litið fram-
hjá þeirri staðreynd að samgöngumannvirki þessi voru ekki
greidd úr landsjóði Færeyja heldur af danska ríkinu.
Það eru engin rök fyrir því að mörkin fyrir sjálfbærni sam-
félaga liggi á milli sextíu þúsund íbúa og þrjú hundruð þús-
und. Íslendingar voru til að mynda rétt um níutíu þúsund þegar
þjóðin öðlaðist stjórnmálalegt sjálfstæði árið 1918. Færa má
fyrir því rök að með hærra menntunarstigi og auknu aðgengi
að upplýsingum fari þau fólksfjöldamörk heldur lækkandi sem
samfélög þurfi að ná til að teljast lífvænleg. Okkur ber þess
vegna að fagna nýfengnum sigri Grænlendinga í sjálfstæðisbar-
áttu sinni, enda koma sífellt í ljós nýjar upplýsingar um skugga-
hliðar dönsku valdstjórnarinnar þar í landi.
Hagfræðingur telur Ísland of fámennt:
Smátt er fagurt
STEFÁN PÁLSSON SKRIFAR
Þeir sem hafa tekið þátt í deil-unum um Icesave undanfarna
mánuði hafa beitt ýmsum rökum;
lögfræðilegum, pólitískum og sið-
ferðilegum, eins og sjálfsagt er.
Menn hafa einnig bent á liðna tíð
máli sínu til stuðnings og aftur
virðist liggja í augum uppi að það
eigi við. Sagan á að sanna eitt og
afsanna annað, vera víti til varn-
aðar eða lýsandi dæmi um dyggð-
ir sem nú þurfi að halda í heiðri.
En hér er þó ekki alltaf allt sem
sýnist.
Byrjum á seinni heimsstyrj-
öldinni. Því hefur verið haldið á
lofti á Íslandi að þjóðin hafi þolað
miklar fórnir til að færa Bretum
björg í bú í stríðinu. Íslenskir sjó-
menn (báðir afar mínir þeirra á
meðal) sigldu með fisk héðan þrátt
fyrir þá hættu sem stafaði frá
kafbátum og flugvélum Þjóðverja
og guldu þeir sumir fyrir með
lífi sínu. Þessi hluti sögunnar má
vissulega ekki gleymast.
Hlutfallslega létust nær jafn-
margir Íslendingar í stríðinu og
Bandaríkjamenn og því má líka
vel halda til haga. Á hinn bóg-
inn hefur sá misskilningur einnig
heyrst að jafnmargir Íslending-
ar hafi fallið og Bretar. Það eru
ýkjur og reyndar mætti allt eins
nota tölur um mannfall í stríð-
inu til að sýna hvað Bandaríkin
og Ísland fóru vel út úr hildar-
leiknum, miðað við flest önnur
ríki. Þrátt fyrir ógnir á höfunum
hafði líklega engin þjóð í Evr-
ópu það eins þolanlegt í stríðinu
og Íslendingar. Mannfall var nær
hvergi eins lítið, og efnahagur-
inn blómstraði. Það gerði hann
ekki síst vegna þess að Ísland
stórgræddi á fisksölunni til Bret-
lands. „Græðgi þeirra á sér engin
takmörk,“ sagði einn breskur
embættismaður eftir stríð þegar
hann rifjaði upp afstöðu Íslend-
inga. Að sögn bresks sendiherra
viðurkenndi einn ráðherrann hér
líka í tveggja manna tali að hann
hálfskammaðist sín þegar Íslend-
ingar stærðu sig af frammistöð-
unni í stríðinu. Eflaust hugsuðu
fleiri á þann hátt og við ættum því
kannski að fara varlega í að mikla
okkur af fórnum í seinni heims-
styrjöldinni.
Þá eru það þorskastríðin. Lítum
fyrst á þau í ljósi kröfunnar um
lausn Icesave fyrir alþjóðlegum
dómstól. Sókn Íslands í landhelg-
ismálum hófst fyrir alvöru eftir
þann úrskurð Alþjóðadómstóls-
ins í Haag árið 1951 að Norðmenn
mættu draga sína fjögurra mílna
landhelgi þvert yfir mynni flóa
og fjarða. Ári síðar lýstu Íslend-
ingar yfir fiskveiðilögsögu eftir
sömu reglum (í stað þriggja mílna
landhelgi sem hlykkjaðist eftir
strandlengjunni). Þá bar hins
vegar svo við að Bretar neituðu að
viðurkenna útfærsluna og reyndu
að kúga Íslendinga til eftirgjafar.
Íslensk stjórnvöld buðu málskot
til Haag en því var hafnað í Lond-
on. Sér var nú hver virðingin fyrir
alþjóðalögum í það skiptið. Valdið
átti að ráða, ekki lögin.
Síðan höfðu menn sætaskipti,
ef svo má segja. Árið 1958 færði
vinstri stjórn á Íslandi fiskveiði-
lögsöguna í 12 mílur og fyrsta
þorskastríðið hófst. Þremur árum
síðar samdi ný ríkisstjórn, Við-
reisnarstjórn Alþýðuflokks og
Sjálfstæðisflokks, um lyktir þess
og lofaði breskum stjórnvöldum að
risi enn ágreiningur um útfærslu
lögsögunnar mætti skjóta honum
til Alþjóðadómstólsins. Leið svo
og beið í tíu ár en þá komst önnur
vinstri stjórn til valda og færði
lögsöguna síðan út í 50 mílur.
Bretar (og Vestur-Þjóðverjar)
mótmæltu, vísuðu til fyrri samn-
inga og skutu deilunni til Haag.
Nú var komið að íslenskum stjórn-
völdum að hunsa alþjóðlegan dóm-
stól og reyndar einnig fullgildan
milliríkjasamning. Svona getur
sagan því geymt ólík fordæmi.
Menn verða heldur betur að velja
og hafna, ætli þeir að nota liðna
tíð sem vopn í Icesave-deilunni.
Menn skyldu líka varast að lofa
dug og þor íslenskra ráðamanna í
þorskastríðunum án þess að leiða
hugann að því að samningsstaða
þeirra var yfirleitt betri en nú um
stundir. Í þorskastríðunum gátu
íslenskir valdhafar barið í borð-
ið og haft í hótunum. Alþjóða-
lög voru að þróast þeim í hag og
alþjóðasamfélagið hafði yfirleitt
samúð með „litla Íslandi“. Svo
skipti hernaðarmikilvægi landsins
jafnvel sköpum en ætli það yrði
ekki bara hlegið núna ef íslenskir
ráðamenn berðu í borð og hótuðu
að segja upp varnarsamningn-
um við Bandaríkin eða ganga úr
NATO?
Og reynum svo líka að hætta að
kalla þorskastríðin „einu stríð-
in sem Bretar hafa tapað“. Þrátt
fyrir hættustundir á miðunum
voru þorskastríðin alls ekki stríð í
hefðbundnum skilningi. Styrjaldir
eru gjarnan skilgreindar sem átök
þar sem minnst nokkur hundruð
eða þúsund manns láta lífið og öfl-
ugum skotvopnum er beitt. Þjóð-
remba á kannski heima á íþrótta-
völlum og í Eurovision, en ekki í
söguskoðun og stjórnmálum.
Höfundur er sagnfræðingur.
Icesave og sagan
GUÐNI TH. JÓHANNESSON
Í DAG | Icesave
Genfarsamningarnir 60 ára
UMRÆÐAN
Anna Stefánsdóttir skrifar
um Genfarsamningana
Í dag eru liðin sextíu ár frá því að Genfarsamningarnir fjórir
voru undirritaðir. Samningarn-
ir veita mönnum vernd í vopn-
uðum átökum og þeir eru enn í
dag hornsteinninn í alþjóðleg-
um mannúðarrétti. Samningarn-
ir hafa bjargað ótöldum manns-
lífum, bætt aðstæður þúsunda
stríðsfanga og leitt til þess að milljónir sundraðra
fjölskyldna hafa sameinast.
Enda þótt ógnir stríðsátaka taki stöðugum breyt-
ingum halda Genfarsamningarnir gildi sínu og eru
áfram grundvöllur þess hjálparstarfs sem fram fer
á vígvöllum um víða veröld. Í samningunum eru
ákvæði sem veita Rauða krossinum víðtækt hlut-
verk við að vernda og aðstoða fórnarlömb stríðsá-
taka. Rauði krossinn fræðir stríðandi fylkingar um
Genfarsamningana og fylgist með því að þeir séu
virtir.
Í tilefni dagsins hafa Rauða kross félögin í Evr-
ópu beint þeim tilmælum til forsætisráðherra
sinna að stjórnvöld sinni eftirfarandi viðfangs-
efnum:
• Útbreiðsla: Breiða þarf út þekkingu á alþjóð-
legum mannúðarlögum, bæði meðal hermanna og
meðal almennings svo að hann viti um þá vernd
sem honum ber.
• Framkvæmd: Stöðugt þarf að leggja áherslu á
að fullgilda samninga um alþjóðlegan mannúðar-
rétt og tryggja framkvæmd þeirra.
• Málsvarastarf í þágu mannúðar: Evrópuríkin
þurfa að beita sér fyrir því að óháð og sjálfstæð
mannúðaraðstoð geti farið óhindrað þar sem vopn-
uð átök geisa.
• Ábyrgð: Refsa ber þeim sem gerast sekir um
glæpi í vopnuðum átökum. Hina brotlegu á að
draga til ábyrgðar fyrir brot sín. Ríki þurfa að
tryggja að landslög heimili að sótt sé til saka fyrir
slík brot.
Stríðsátök skapa enn í dag ómælda mannlega
neyð, en þrátt fyrir það er rétt að minnast Genfar-
samninganna, sem hafa síðustu sextíu árin komið í
veg fyrir eða linað miklar mannlegar þjáningar.
Höfundur er formaður Rauða kross Íslands.
ANNA
STEFÁNSDÓTTIR
Eiginlega alveg öruggt
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í
stjórnmálafræði, sagði í fréttum RÚV
í fyrradag „eiginlega alveg öruggt“ að
aldrei á lýðveldistímanum hefði jafn
stór hluti af ríkisstjórn verið á móti
stefnu ríkisstjórnarinnar í nokkru máli
og í Icesave-málinu. Skemmst er þó
að minnast að einn ráðherra og fjórir
stjórnarþingmenn greiddu atkvæði
gegn þingsályktunartil-
lögu um aðildarum-
sókn að ESB. Þá má
rifja upp að árið 1974
sprakk vinstri stjórn
eftir að þingmenn
Samtaka frjálslyndra og
vinstri manna settu sig
gegn efnahagsfrumvarpi
Ólafs Jóhannessonar
forsætisráðherra.
Hækkun í hafi
Þá var lítil ánægja innan ríkisstjórnar
Gunnars Thoroddsen með þá afstöðu
Hjörleifs Guttormssonar, þáverandi
iðnaðarráðherra, að rannsaka ætti þá
staðreynd að súrálið var mun dýrara
þegar því var skipað upp í Straumsvík
en þegar það fór í skip ytra. Þetta var
nefnt „hækkun í hafi“ og var talið að
Alusuisse hefði snuðað þjóðina
um töluvert fé með þessu.
Viðsnúningur
Íslensk stjórnmál eru
óneitanlega dálítið sér-
stök um þessar mundir.
Stjórnarþingmenn lýsa
því yfir að stjórnarsam-
starfið hangi á
bláþræði vegna
Icesave-
samninganna. Þingmenn í stjórnar-
andstöðu mótmæla þessu og kalla
slíkar fréttir hræðsluáróður. Þvert á
móti sé engin hætta á að ríkisstjórn-
in springi, hún myndi alveg þola að
verða undir í langstærsta átakamál-
inu á þingi.
Yfirleitt er þessu öfugt farið: stjórn-
arliðar verjast fréttum um að það
hrikti í stoðum samstarfsins meðan
andstæðingarnir fullyrða að stjórnin
sé í lamasessi og ekki á vetur
setjandi. Það er sumsé komin upp
fágæt staða í íslenskum stjórnmál-
um: Stjórnarandstaðan vill allt til
vinna að Icesave-samningarnir
verði ekki samþykktir en um leið
fyrir alla muni forðast að „lenda í“
ríkisstjórn, fái hún vilja sínum
framgengt.
bergsteinn@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Ingibjörg S. Pálmadóttir FORSTJÓRI OG ÚTGÁFUSTJÓRI: Ari Edwald
RITSTJÓRI: Jón Kaldal jk@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is
Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt
að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu
formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871