Fréttablaðið - 17.09.2009, Side 12
12 17. september 2009 FIMMTUDAGUR
Mikið reynir á gjaldþrota-
lögin um þessar mundir, en
stór og viðamikil fyrirtæki
og eignarhaldsfélög hafa
mörg hver farið illa út úr
kreppunni. Lögin hafa verið
gagnrýnd; þau eigi ekki við
það ástand sem nú er uppi.
Þá sé hagsmuna stærsta
kröfuhafans, þjóðarinnar,
ekki alltaf gætt.
Sennilega hefur aldrei reynt eins
mikið á gegnsæi og gagnvirkni
gjaldþrotalaga og um þessar mund-
ir. Vissulega hafa fyrirtæki orðið
hér gjaldþrota í gegnum tíðina, en
trauðla í jafnmiklum mæli og eftir
hrun bankakerfisins. Og það sem
meira er, samsetning og eignasafn
þeirra fyrirtækja sem fara í gjald-
þrot hefur aldrei verið jafn flókið og
nú. Þar af leiðir að vald þeirra sem
um þrotabúin véla er mikið. Þegar
við bætist að ríkið − og þar með
þjóðin − er orðið óbeinn eigandi að
mörgum fyrirtækjanna verða hags-
munirnir enn flóknari.
Lögfræðingar skipta búi
Þegar fyrirtæki er tekið til gjald-
þrotaskipta er skipaður skiptastjóri
yfir þrotabúið. Ferlið er þannig að
annaðhvort eigendur sjálfir eða
kröfuhafar óska eftir úrskurði um
gjaldþrot hjá héraðsdómi. Þeirri
beiðni þurfa að fylgja gögn sem sýna
fram á að ekki sé hægt að standa við
fjárhagslegar skuldbindingar.
Sé beiðnin samþykkt skipar hér-
aðsdómari skiptastjóra. Sá skal vera
með embættispróf í lögum og eru
héraðsdómarar með lista yfir þá lög-
menn sem hafa sérhæft sig í slíkum
málum. Sé gjaldþrotið umfangsmik-
ið er heimild fyrir því að ráða tvo
skiptastjóra. Það gerðist á dögun-
um við gjaldþrot Baugs, en þó ekki
fyrr en eftir nokkrar umræður þar
um. Séu tveir bústjórar getur annar
verið endurskoðandi.
Skiptastjórar eru á tímakaupi og
leggja reikninga fram fyrir vinnu
sinni. Þeir reikningar fá stöðu for-
gangskrafna í búinu. Skiptastjór-
arnir geta ráðið sér fólk til aðstoð-
ar og þekkist það til dæmis þegar
eignir eru seldar úr búinu. Þeim er
þó í sjálfsvald sett hvernig þeir haga
vinnu sinni og í raun stýra þeir sjálf-
ir umfangi vinnu sinnar. Það er þó
kröfuhafanna að sýna skiptastjóran-
um aðhald og hann verður að standa
skil á reikningum gagnvart þeim.
Hagsmunir kröfuhafa
Skiptastjórar eru skipaðir til að gæta
hagsmuna kröfuhafa. Þeir hagsmun-
ir geta hins vegar verið mjög mis-
munandi og aðstaða kröfuhafanna
mismunandi til að fylgja kröfunum
eftir. Það þarf engum blöðum um
það að fletta að aðstaða stórs við-
skiptabanka til að fylgja eftir kröf-
um sínum er allt önnur en lítils
vélaverkstæðis, svo dæmi sé tekið.
Skiptastjórinn á samkvæmt lögum
hins vegar að gæta allra hagsmuna
jafnt, enda getur lítil krafa skipt
smáfyrirtæki meira máli en háar
upphæðir banka.
Eftir að skiptastjóri hefur verið
skipaður lýsir hann eftir kröfum
í þrotabúið. Kröfur eru flokkaðar
eftir forgangi. Séu eignir í búinu
sem sannað er að aðrir eigi eru þær
afhentar réttum eigendum, sem og
ágóði af sölu á slíkum eignum sé
hann fyrir hendi. Næstar slíkum
kröfum eru til dæmis kostnaður
af skiptunum sjálfum, kröfur sem
orðið hafa til eftir uppkvaðningu
úrskurðar um gjaldþrotaskipti og
kröfur sem orðið hafa til eftir frest-
dag, en það er sá dagur þegar beiðni
um greiðslustöðvun barst dómara.
Þar næst koma kröfur sem njóta
veðréttar eða annarra tryggingar-
réttinda í eign búsins. Þar á eftir
koma til dæmis launakröfur, bætur
vegna slita á vinnusamningi, orlofs-
fé, lífeyrissjóðsgjöld og ýmislegt er
lýtur að réttindum launamanna.
Breyttar aðstæður
Gjaldþrot er vissulega alltaf erfitt
og sársaukafullt fyrir þá sem í því
lenda, hvort sem það er stórt eða
smátt, og það er harmleikur fyrir
þá sem í hlut eiga. Lögin um gjald-
þrot gera ráð fyrir eðlilegu árferði,
ef svo má að orði komast. Efnahags-
ástandið hefur orðið til þess að álag-
ið á það kerfi sem er um gjaldþrot
og þrotabú er orðið gríðarlega mikið.
Síðan lögin voru sett, árið 1991, hafa
fyrirtæki þróast og eignatengsl eru
orðin flóknari.
Það á ekki síst við um eignarhalds-
félögin, en að baki núverandi stöðu
þeirra getur verið flókinn kaupferill,
oftar en ekki á milli skyldra aðila.
Þannig eru dæmi um eignarhalds-
félög sem eiga mjög skuldsett dótt-
urfélög. Móðurfélagið, eða jafnvel
nýtt félag stofnað eingöngu í þeim
tilgangi, kaupir síðan eignirnar frá
dótturfélaginu, en skilur skuldirn-
ar eftir. Eftir stendur skel utan um
skuldir og engar eignir upp í.
Í slíkum tilfellum getur verið flók-
ið ferli að meta hver er raunveruleg-
ur eigandi og hvort einhverjir gjörn-
ingar gangi til baka. Þegar kemur
að sölu eignanna úr slíku gjaldþroti
verða skiptastjórar að vera öllum
hnútum kunnugir og þekkja til
raunverulegra verðmæta og hvern-
ig hægt er að hámarka gróða af söl-
unni. Skiptastjórinn sjálfur ræður
því hvort sala eigna úr búinu er
opin eða ekki. Hann þarf þó að skýra
ákvörðun sína fyrir kröfuhöfum.
Þá koma aðrir hagsmunir inn í,
svo sem samkeppnissjónarmið. Síð-
astir, en fráleitt sístir, eru svo hags-
munir almennings.
FRÉTTASKÝRING: Gjaldþrot - fyrirtæki
Úrelt lög við núverandi aðstæður
„Mörg þeirra félaga sem orðið hafa gjaldþrota á
síðustu mánuðum eða stefna í gjaldþrot eru
mun stærri og flóknari en verið hefur áður.
Þeim fylgja flókin reikningsskil og málefni þeim
tengd. Ég tel að lögfræðingar búi almennt ekki
yfir nægri þekkingu á þeim málum. Það mundi
styrkja afgreiðslu gjaldþrotamála ef skipaðir
væru bústjórar sem hefðu sérþekkingu í reikn-
ingsskilum. Mér finnst eðlilegt að tveir bústjórar
séu skipaðir í stórum og flóknum fyrirtækjum,
lögfræðingur og endurskoðandi,” segir Alexand-
er Eðvarðsson, endurskoðandi hjá KPMG.
Alexander segir undir hælinn lagt hvort
bústjórar leiti aðstoðar endurskoðenda. Hann
þekki bæði til að lögmenn sendi heilu spurningarlist ana
um stöðu fyrirtækja, en einnig að þeir hafi ekkert
samband til að afla upplýsinga um fjárhagsleg mál-
efni þeirra. Þá sé staðan stundum þannig að þekking
endurskoðanda á innviðum og fjárhag félaga sem hann
hefur jafnvel starfað fyrir í áratugi fari í súginn þar sem
skiptastjóri setur sig ekki í samband við hann. Þannig
tapist verðmæti.
Alexander segir stærstu kröfuhafana, sem yfirleitt hafa
bestu tryggingar fyrir sínum lánum, hafi mest
áhrif við skiptin. Þeirra hagsmunir kunna þó
ekki alltaf að vera þeir sömu og hjá almenn-
um kröfuhöfum. Þeir kunna að þrýsta á um
sölu á eignum, sem þeir hafa veð í, og eru að
sjálfsögðu sáttir ef söluandvirði þeirra nægir fyrir
veðkröfum.
Bankarnir eru nú að eignast fyrirtæki og aðrar
eignir. Gríðarlega mikið vald er með þessu
komið inn í bankana. „Ég veit ekki hvort þeir
sem eru í stjórnunarstöðum í bönkunum gera
sér grein fyrir því hve ofboðslega mikil völd þeir
hafa. Slíku valdi fylgir mikil ábyrgð. Tryggja þarf
að sem hæst verð fáist fyrir þessar eignir þegar þær eru
seldar. Það er því mikilvægt að hafa sölu eigna í sem
opnustu ferli þar sem allt er uppi á borðinu. Ef slíkt er
ekki gert er hætt við því að tortryggni og ásakanir komi
fram um að annarleg sjónarmið kunni að hafa ráðið.
Slík staða er óheppileg fyrir alla, sérstaklega þá sem
taka ákvarðanir og ekki er sanngjarnt að setja menn í þá
stöðu.”
HAFA ALLT UPPI Á BORÐINU
Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðingur og
kennari við Háskólann í Reykjavík, segir að aldrei
hafi verið mikilvægara en nú að gæta að því að
skiptastjórar séu lausir við öll hagsmunatengsl
og vinni eingöngu að hagsmunum kröfuhafanna.
Sigurður segir kröfuhafana sjálfa þurfa að vera vel
á varðbergi og gæta hagsmuna sinna vel.
„Það verður að hafa í huga að þrotabúin eru
á forræði kröfuhafanna, þeir hafa æðsta vald í
málefnum búsins og eignum er ráðstafað í þágu
þeirra. Það eru hagsmunir kröfuhafanna að það
fáist sem best verð fyrir eignirnar.“
Sigurður segir almenning eiga ríkra hagsmuna
að gæta. „Það er mjög mikilvægt að hagsmuna
almennings sé gætt sem og samkeppnissjónarmiða. Við
fjöldagjaldþrot eins og við búum við nú, þá riðlast allt í
þjóðfélaginu. Þær venjulegu aðstæður sem við þekkjum
með dreifðri eignaraðild riðlast. Því er mjög mik-
ilvægt að samkeppnisyfirvöld fylgist með því sem
kemur út úr sölu þrotabúa.“
Sigurður minnir á að oft séu skiptastjórar í
þeirri stöðu að það sé brýnt að koma verðmæt-
um mjög hratt í verð. Það eigi sérstaklega við um
fyrirtæki í rekstri, miklir hagsmunir geti tapast
hratt af því að stöðva rekstur.
Spurður hvort rétt sé að sala úr þrotabúum sé
alltaf opin segir Sigurður það æskilegt, sé hægt
að koma því við vegna tímapressu. Oft geti verið
brýnt að koma starfsemi í rekstur sem fyrst og
einnig geti sú staða komið upp að aðeins fáir
aðilar komi til greina sem kaupendur. Best sé þó
að beita öllum eðlilegum viðskiptaháttum og útbúa sölu-
gögn sem áhugasamir fái. Þannig sé samkeppni best tryggð
og að sem best verð fáist.
ÞROTABÚ ER Á FORRÆÐI KRÖFUHAFANNA
FRÉTTASKÝRING
KOLBEINN
ÓTTARSSON PROPPÉ
kolbeinn@frettabladid.is
SIGURÐUR TÓMAS
MAGNÚSSON
ALEXANDER
EÐVARÐSSON
AUÐ HVERFI Fjöldi fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota að undanförnu, ekki síst í byggingariðnaðinum. Það eru hins vegar fyrirtæki
með flókin eignatengsl sem erfiðust eru þegar kemur að uppskiptingu búa. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Ferlið þegar fyrirtæki kemst í greiðsluvandræði
Greiðslustöðvun
Reynt að koma nýrri skipan
á fjármál með aðstoð lög-
manns eða endurskoðenda.
Ef endurskipulagning tekst
lýkur ferlinu og fyrirtækið
starfar áfram
■ Skipaður skiptastjóri
■ Hann lýsir eftir kröfum í búið
■ Fundur kröfuhafa
■ Reynt að koma eignum í verð
Búið gert uppGjaldþrot (að eigin ósk eða kröfuhafa)
Nauðasamningar
Kröfuhafar sem ósáttir eru
geta kvartað við kröfuhafa-
fund eða farið með málið til
dómstólaHluti krafna greiddur, kemur í veg fyrir gjaldþrot