Fréttablaðið - 17.10.2009, Side 22

Fréttablaðið - 17.10.2009, Side 22
22 17. október 2009 LAUGARDAGUR UMRÆÐAN Óskar Bergsson skrifar um borgarmál Sex mánaða uppgjör Reykja-víkurborgar birtir tvær mis- munandi niðurstöður í efnahags- umhverfi borgarinnar. Annars vegar er það rekstur Reykjavík- urborgar þar sem tekist hefur að ná frábærum árangri við erfiðar aðstæður og hins vegar ytra umhverfi, gengisfall krónunnar og áhrif þess á eiginfjárhlutfall B-hluta fyrirtækjanna. Jákvæða niðurstaðan er án efa rekstur borg- arinnar sjálfrar. Rekstarniðurstaðan var nær 227 milljónum króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Halli á rekstrinum fyrstu sex mánuði ársins kemur fyrst og fremst fram í Eignasjóði borgar- innar þar sem gengisáhrifin koma fram auk þess sem sala á byggingarrétti hefur dregist mikið saman. Strax um mitt síðasta ár var ljóst að yfir- standandi rekstrarár yrði erfitt, þó að engan óraði þá fyrir því hversu erfitt það yrði í raun. Í fjár- hagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2009 var því strax ráðist í að minnka kostnað og auka rekstrar- aðhald. Laun yfirstjórnenda og kjörinna fulltrúa voru lækkuð um 10%, yfirvinna hundraða borg- arstarfsmanna var skert og aksturssamningar yfirfarnir. Lagst var í umfangsmikla vinnu við að finna leiðir til sparnaðar og aðhalds á öllum svið- um. Ein leið af mörgum var að leita til starfsfólks borgarinnar eftir hugmyndum til sparnaðar. Það tókst svo vel að Reykjavíkurborg hefur verið til- nefnd til verðlauna fyrir nýsköpun við gerð fjár- hagsáætlunar af samtökum evrópskra höfuðborga. Allt var þetta gert í því skyni að standa vörð um grunnþjónustu, vernda störf fastráðinna starfs- manna, hækka ekki gjaldskrár og leggja fjármagn í atvinnuskapandi verkefni. Allt hefur þetta gengið eftir. Þessu til viðbótar var eftirlit með rekstrin- um aukið og eru rekstaryfirlit nú yfirfarin mán- aðarlega í borgarráði. Áherslan er skýr: Rekstrar- áætlun borgarinnar er metnaðarfull og við ætlum að standa við hana. Minnihlutinn gagnrýndi fram- lagða fjárhagsáætlun á sínum tíma fyrir það að vera ekki raunhæf. Sex mánaða uppgjörið sannar að svo var ekki og er það mikill sigur fyrir meiri- hlutann í borginni og allt það starfsfólk sem lagt hefur mikið á sig til að ná þessum árangri. Neikvæða niðurstaðan í sex mánaða uppgjörinu er hins vegar heildarniðurstaða samstæðu Reykja- víkurborgar og þeirra 11 fyrirtækja sem eru í eigu borgarinnar. Helsta stærðin í því er erlendar skuldir Orkuveitu Reykjavíkur. Það er hins vegar mjög mikilvægt að horfa til þess að langstærsti hluti skuldsetningarinnar er vegna framkvæmda sem gefa tekjur í erlendri mynt. Erfiðleikarnir eru fyrst og fremst óhagstæð gjaldeyrisskráning á framkvæmdatímanum og lokun fjármagnsmark- aða til Íslands eftir hrun. Niðurstaða sex mánaða uppgjörs Reykjavíkur- borgar er skýr: Áætlanir sem snúa að þeim hluta rekstursins sem borgaryfirvöld hafa tök á að stýra er á áætlun og því ber að fagna. Hins vegar og því miður eru þeir þættir sem snúa að ytri þátt- um eins og stjórnun efnahagsmála ríkisins ekki að ganga upp og í því liggur vandi Reykjavíkur- borgar, rétt eins og heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Höfundur er formaður Borgarráðs. UMRÆÐAN Helgi Haf- steinn Helga- son skrifar um brjósta- krabbamein Brjósta-krabbamein er algengasta krabbamein hjá konum og geta um 10% kvenna átt von á að fá brjóstakrabbamein einhverntíma á lífsleiðinni. Horf- ur þessara kvenna er þó betri en við greiningu flestra annarra ill- kynja sjúkdóma og jafnvel betri en ýmissa hjarta- og lungnasjúk- dóma. Þannig eru líkur á lækn- ingu eftir greiningu á staðbundn- um sjúkdómi einna hæstar á Íslandi eða um 85% og 5 ára horf- ur betri en 90%. Nýgengi brjósta- krabbameins hefur aukist undan- farna áratugi og þó orsakir þess séu ekki að fullu ljósar hafa far- aldsfræðilegar rannsóknir sýnt að fyrir utan erfðafræðilega þætti hafa umhverfi og lífsstíll veruleg áhrif. Helstu orsaka- og áhættuþætt- ir brjóstakrabbameins eru kyn- hormónatengdir, þ.e. að vera kvenkyns, ungur aldur við fyrstu tíðir, hár aldur við fyrsta barns- burð, styttri brjóstagjöf og hár aldur við tíðahvörf. Einnig er þekkt að löng notkun hormóna- lyfja (tíðahvarfa- og getnaðar- varnahormón) eykur áhættuna verulega. Aðrir þættir eru m.a. aldur, þyngd og að einhverju leyti kynþáttur. Þó ekki meira en það að ef asísk kona flytur til Vest- urlanda eykst hætta hennar á brjóstakrabbameini og verður svipuð og þarlendra en nýgengi á Íslandi er þrisvar sinnum meira en í Asíu. Lífsstíll og umhverfi hefur þannig einnig mikil áhrif og þá einna helst þyngd, hreyfingar- leysi, notkun hormónalyfja, fæðu- samsetning og áfengisnotkun. Baráttuna við brjóstakrabba- mein er mikilvægt að heyja á öllum mögulegum vígstöðvum. Helstu leiðir til að tryggja áfram- haldandi góðan árangur á Íslandi eru þrjár: 1) forvarnir, 2) snemm- greining með hjálp skimunar og 3) hágæða heilbrigðisþjónusta sem sérsníður eins og hægt er nauðsynlegar meðferðir að hverri konu fyrir sig. Framfarir undanfarin ár hafa verið á öllum sviðum nútíma heilbrigðisþjónustu, þ.e. við sjúkdómsgreiningu og stigun krabbameina auk nýjunga á sviði skurðaðgerða, geisla- og krabba- meinslyfjameðferða. Framundan er von á byltingu í aðgreiningu undirgerða ýmissa krabbameina og þróun nýrra hnitmiðaðra krabbameinslyfja. Framfarirn- ar hafa þó ekki eingöngu verið til þess að bæta árangur slíkra með- ferða heldur einnig til að fækka aukaverkunum og fylgikvillum. Skimun fyrir brjóstakrabba- meini er vel skipulögð á Íslandi en slík leit er lykillinn að snemm- greiningu brjóstakrabbameins, þ.e. þegar meinið er lítið og ekki enn finnanlegt með þreifingu, en horfur eru í beinu hlutfalli við stærð og útbreiðslu krabba- meinsins í upphafi. Þrátt fyrir ofanskráð felst besti árangurinn í því að lækka nýgengi brjóstakrabbameina og fækka tilfellum með breyttu lífs- mynstri en algengustu dánaror- sakir vegna hjarta- og æðasjúk- dóma og ýmissa krabbameina eru beintengd vestrænum lífsstíl. Þar er þá helst átt við reykingar, umhverfismengun, offitu, hreyf- ingarleysi, fæðusamsetningu og áfengisnotkun. Mikilvægast til að ná árangri í forvörnum er að einstaklingar sjálfir taki ábyrgð á eigin heilsu með heilbrigðum lífsstíl. Það er svo hlutverk yfir- valda að aðstoða með mótun sam- félagsins og að skapa umgjörð fyrir heilbrigt líferni. Leiðbeiningar frá heilbrigðis- yfirvöldum eru einfaldar; haltu kjörþyngd, stundaðu líkamsrækt reglulega, forðastu orkuríkt fæði og sykraða drykkjarvöru, tak- markaðu kjötneyslu og þá sér- staklega rautt kjöt og unna kjöt- vöru, neyttu jurtafæðu, neyttu fjölbreyttrar fæðu og ekki fæðu- bótaefna, reyktu ekki og neyttu áfengis í hófi. Einnig telja margir að mikil saltneysla og ákveðnar geymslu- og matreiðsluaðferðir eins og reyking, grill og steiking séu varasamar. Við vitum að konur sem hafa læknast af brjóstakrabbameini eru fjórfalt líklegri til að fá slíkt mein aftur miðað við aðrar konur. Vegna þessa er regluleg sjálfs- koðun, eftirlit læknis og mynda- taka ráðlögð. Konur geta einnig haft áhrif og minnkað hættuna. Nýlega birtust rannsóknarnið- urstöður i virtu vísindatímariti „Journal of Clinical Oncology“ sem sýna að hjá konum sem hafa læknast af brjóstakrabba- meini veldur offita (BMI 30 eða hærri) um 50% meiri hættu á nýju brjóstakrabbameini. Einn- ig var sýnt fram á að töluverð (7 eða fleiri drykkir á viku) áfengis- notkun eykur áhættuna um 200% og allar reykingar um rúmlega 200% en áður hafa reykingar ekki verið taldar mikilvægur áhættu- þáttur fyrir brjóstakrabbamein. Að ofangreindu er ljóst að konur verða að taka sjálfar ábyrgð á eigin heilbrigði. Vitn- eskjan er fyrir hendi en það vant- ar töluvert upp á að við lifum eftir henni. Höfundur er lyf- og krabbameinslæknir. Lífsstíll og brjósta- krabbamein HELGI HAFSTEINN HELGASON ÓSKAR BERGSSON Góður árangur við erfiðar aðstæður Minnihlutinn gagnrýndi framlagða fjárhags- áætlun á sínum tíma fyrir það að vera ekki raunhæf. Sex mánaða uppgjörið sannar að svo var ekki og er það mikill sigur fyrir meirihlut- ann í borginni. UMRÆÐAN Jakobína Ólafsdóttir skrifar um lánatökur ríkisins Sett voru á gjaldeyrishöft til þess að verja krónuna frekari falli eftir hrun bankanna. Helsta ógnin við gjaldmiðilinn var óþolinmótt fé jöklabréfaeigenda. Erlendar fjármálastofnanir gáfu út jöklabréf sem seld voru aðilum, íslenskum eða erlendum. Kaupend- ur jöklabréfa veðjuðu á krónuna á sama tíma og bankarnir og erlend- ir vogunarsjóðir tóku stöðu gegn henni. Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett lokaðist fjármagn jökla- bréfaeigenda inni. Þeir hafa því átt einan þann kost að endurfjár- festa fjármuni sína á Íslandi. Staða jöklabréfa og erlendra krónueigna er talin vera 400 til 600 milljarðar ISK en sumir telja að fjárhæðin sé um 620 milljarðar. Viðskipti með jöklabréf eru íslenska ríkinu óviðkomandi. Þetta voru viðskipti á milli erlendra fjár- festingarbanka og viðskiptavina þeirra með verðbréf í íslenskum krónum. Eitt af áhyggjuefnum Seðlabank- ans er að ekki sé unnt að aflétta gjaldeyrishöftunum samkvæmt áætlun AGS. Fyrirhugað er að taka lán upp á 620 milljarða ISK til þess að styrkja gjaldeyrisforð- ann sem er 490 milljarðar en þar af eru 210 millj- arðar hrein eign. Til samanburð- ar þá var gjald- eyrisforðinn 163 milljarðar árið 2007 og 67 milljarðar árið 2005. Já, segir kannski einhver „en það sýndi sig að þetta var allt of lítill vara- forði“. Jú, rétt er það en við gjör- ólíkar aðstæður. Bankarnir voru risavaxnir og Seðlabankinn átti að geta staðið undir lánum til þrauta- vara. Í greinargerð Seðlabankans til forsætisráðherra, 6. október síð- astliðinn, segir m.a. um mikilvægi rausnarlegs gjaldeyrisforða „Það eflir getu Seðlabankans til þess að mæta hugsanlegu útstreymi og dregur um leið úr líkum á því að til þess komi.“ Sérstaka athygli vekur að Seðlabankinn telur að gjaldeyr- isforðinn (risalánið) dragi úr líkum á útstreymi en litlar líkur eru á því að þessi kenning standist enda verð- ur traust á íslensku efnahagskerfi ekki reist á einni nóttu heldur er það langtímaverkefni. Öllu líklegra er að aðilar sjái risalánið sem farseðil úr landi. Að hræðsla muni ráða för. Það er ávallt áhugavert þegar hagfræðingar setja sig í spor sál- fræðinga og telja sig sjá fyrir um hegðun fólks. Er trúverðugt að álykta að einstakir fjárfestar kynni sér efnahagsstefnu yfirvalda eða hvað þá heldur túlki trúverðugleika hennar þegar þeir taka ákvörðun um það hvar þeir telji fjármunum sínum borgið? Gleymum því ekki að þetta eru aðilar sem tóku stöðu með krónunni þegar aðrir veðjuðu gegn henni. Stjórnvöld segja að geyma eigi risalánið og greiða af því 20 millj- arða á ári í vaxtamun. En sam- kvæmt ofangreindri tilvitnun í greinargerð Seðlabankans virðist eiga að grípa til þessa varasjóðs þegar gjaldeyrishöft verða afnum- in. Gríðarleg áhætta fylgir þess- ari fyrirætlun. Líklegt er að jökla- bréfaeigendur rjúki með fjármuni úr landi en að Íslendingar sitji uppi með að greiða fulla vexti af risalán- inu í stað vaxtamunar, þ.e. vextir af innistæðum hverfa en vextirnir ekki. Það mun síðan lenda á kom- andi kynslóðum að endurgreiða þessa skuld. Þetta vekur spurningar um áform AGS um að „bjarga“ fjármagnseig- endum sem vilja koma fé úr landi með því að taka risalán sem lendir á íslenskum skattgreiðendum. Fagfjárfestar höfðu alla burði til þess að taka upplýsta ákvörð- un um áhættuna sem fylgdi því að fjárfesta í jöklabréfum. Það er fullkomlega réttmæt spurning að spyrja hvort íslenskur almenning- ur eigi að bera tapið af hruninu, en auk þess að fjármagna bætur til fagfjárfesta. Þessi viðskipti með jöklabréf komu íslenskum almenn- ingi ekkert við. Lögð hefur verið ríkuleg áhersla á að spyrða Alþjóðagjaldeyrissjóð- inn við hugtakið traust en í grein- argerð Seðlabankans til forsætis- ráðherra segir „litið er á aðkomu sjóðsins sem heilbrigðisvottorð fyrir þá efnahagsstefnu sem mótuð hefur verið“. Þetta er í mótsögn við niðurstöðu Center of economic pol- icy research. CEPR segir um spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í löndum þar sem hann hefur haft aðkomu... að þær feli í sér munstur mistaka sem veki spurningar um hlutleysi sjóðsins. Höfundur er stjórnsýslufræðing- ur. Lengri útgáfu greinarinnar má lesa á Vísi. Óþolinmótt fé JAKOBÍNA ÓLAFSDÓTTIR Ingibjörg Gummi Talya Örn Anouk reykjavík til a ð st unda yoga Þú þarft e kki að geta þetta Heilbrigður lífstíll Byrjendanámskeið að hefjast 19.október og 3. nóvember Heitt yoga á morgnanna með Lönu Einkatímar Yoga á vinnustöðum Frír prufutími Ashtanga vinyasa yoga Yogaflæði Hatha yoga - rólegir tímar Opnir tímar www.yogashala.is sími 553 0203 LEIÐIN TIL ÞÍNANTO N & B E R G U R

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.