Vikan

Tölublað

Vikan - 03.05.1973, Blaðsíða 7

Vikan - 03.05.1973, Blaðsíða 7
MIG DREYMDI TRÚLOFUN Kæri draumráðandi! Mig langar að biðja þig að ráða fyrir mig draum, sem mig dreyrrtdi nýlega. Mér fannst ég vera stödd heima í herberginu mínu. Þá kemur til mín strákur, sem ég er mjög hrifin af. Hann bað mín og setti trúlofunarhring á hægri höndina á mér. Ég hef aldrei séð svona fallegan hring og var mjög ánægð. Svo fannst mér ég fara og segja við stelpu, sem ég þekki lítillega: „Sjáðu, ég er trúlofuð“. Þá segir hún: „Já, ég líka“. Hún var hvítklædd í draumn- um. — Með fyrirfram þakklæti. Ljósbjörg. Engin rós er án þyrna. Þú skalt muna það, þegar stúlkan sem þú sást í draumnum fer að telja úr þér við sameigin- legt starf eða nám ykkar og reyna að fá þig til þess að hætta því. Ef þú verður nógu staðföst og lætur ekki óvið- komandi aðila hafa áhrif á ákvarðanir þinar áttu bjarta framtíð fyrir höndum. SENNA Kæri draumráðandi! Mig langar að biðja þig að ráða fyrir mig eftirfarandi draum. Mér fannst ég og tvær vinkonur mínar vera að vinna þar sem við sóttum nýlega um vinnu. Við lentum í rifrildi og stóðum ég og X saman á móti Y. Y reiddist mikið, réðst á fótinn á mér og sleit hann af. Ég hef lengi verið veik í fætinum. Þegar Y hefur slitið af mér fótinn, veltur hún niður stiga og hleypur síðan út. X hjálpaði mér niður stigann og út á eftir henni, en þá hleypur hún á undan okkur og veifar fætinum. En þá vaknaði ég. Didda. Y er sú eina ykkar, sem fær vinnuna og við það verðið þið nátengdari hvor annarri. En þú skalt samt gæta þess að halda vináttu þinni við Y, því að hún á eftir að verða þér ómetanleg hjálp, ef þú hrekur hana ekki frá þér með þótta þínum. GAMALL VINUR Kæra Vika! Mig langar að biðja um draumráðningu. Ég þóttist vera við vinnu mína að kvöldlagi og fannst mér gamall vinur minn vera kominn í heimsókn. Þegar ég svo hafði smá- stund frá starfinu, ætlaði ég að tala við hann og sá hann þá liggja í uppbúnu hjónarúmi í svefnherberginu mínu, en þar er ekkert hjónarúm. Hann var eins og heima hjá sér og las i blaði á meðan hann beið eftir mér. Ég fór svo aftur til starfa og verður þá litið út um gluggann og sé bílinn hans standa fyrir framan húsið. Þessi bíll líktist þó ekki bílnum hans, heldur var hann alveg eins og bíll fyrr- verandi eiginmanns míns, en ég er skilin fyrir nokkrum árum. Lengri var draumurinn ekki. Með fyrirfram þakklæti. S.Á. Þessi draumur er margslungnari en í fljótu bragði virð- ist. Þú munt innan skamms kynnast manni, sem þér fellur vel við og þið munuð hefja sambúð. Þið verðið bæði ham- ingjusöm og ánægð, en því aðcins að þú gætir þess að þessi gamli vinur þinn verði þess ekki valdandi að samband þitt og mannsins spillist. Það þarf ekki að vera vilji hans, en slys eða aðrir erfiðleikar, sem hann verður fyrir orsaka það að hann krefst þess að þú sinnir honum meira en góðu hófi gegnir. KETTLINGAR Kæri draumráðandi! Mig langar til að biðja þig að ráða þennan draum fyrir mig. Mér fannst ég og skólasystir mín vera staddar heima hjá mér á jólunum. Stofan hafði breytzt og leit út eins og hlaða. Hún var mjög fábúin húsgögnum. Samt var þar dökkblár sófi, sem margt fólk sat í. Ég spurði fólkið, hvort það ætlaði ekki að fara að fara, en það sagðist ætla að vera heima á jólunum. Mér sárnaði þetta og bað skóla- systur mína að koma fram í eldhús. Við fórum þangað og það leit út eins og það er, nema á einum skápnum var smágat. Tveir litlir kettlingar komu út um þetta gat, þeir voru á stærð við mýs. Við tókum þá í fangið, en þeir sluppu og fóru aftur inn um gatið. E.S. Einhverjir erfiðleikar, sem þú átt erfitt með að sætta þig við, steðja að þér og fjöískyldu þinni. Liklega verðið þið fyrir miklu umtali, en þú skalt ekki taka þér það nærri. Þú átt á hættu að missa góðan vin, ef þú gætir þín ekki í samskiptum við hann. í KJÓLAVERZLUN Kæri draumráðandi! Viltu reyna að ráða þennan draum fyrir mig, ef þú getur? Ég var stödd í kjólaverzlun og ætlaði mér að kaupa kjól til þess að nota í fermingarveizlu. Afgreiðslustúlkan kom með síðan kjól, sem ég mátaði og fór hann mér mjög vel. Mér þótti hann vera marglitur. Afgreiðslustúlkan segir mér að það sé mikill kostur við kjólinn að ég geti notað hann á tvo vegu. Hún snýr kjólnum svo við og lætur mig fara í hann aftur. Þá er hann orðinn að buxnakjól, sem var eins og sniðinn á mig og datt mér strax í hug, hve vel hann færi við skó, sem ég á. Kona, sem ég þekki var líka að afgreiða þarna og fannst henni, að ég ætti endilega að kaupa kjólinn og sérstaklega vegna þess að ég gæti notað hann á tvo vegu. K.B. Ekki er það nú trúlegt að þessi draumur merki nein stórtiðindi fyrir þig. Það eru engin þau tákn í draumnum, sem eru svo skýr að af honurn megi ráða neitt ákveðið. Nafn konunnar, sem afgreiddi í búðinni, getur þó bent til þess að náttúruhamfarimar i Vestmannaeyjum eigi eftir að snerta þig persónulega, án þess þó að skaða þig nokkuð. Á SJÚKRAHÚSI Kæri draumráðandí! Mig langar til að biðja þig að ráða þennan draum fyrir mig. Mig dreymdi að ég kom að stórri hæð, þar sem stóð nýbyggt sjúkrahús og átti ég að gangast þar undir upp- skurð. Ég vissi að ég átti að fá blóðgjöf áður en ég yrði skorin upp. Allt í einu finnst mér ég vera komin i náttföt, sem sjúkrahúsið átti. í þeim stend ég á breiðum gangi og verð- ur mér litið inn í setustofuna. Þar situr eldri kona í sams konar klæðnaði. Ég þekki þessa konu ekki neitt, en móðir mín er kunnug henni. í heimsókn hjá konunni var amma mín og sonur hennar. Ég varð hissa á því að sjá þau þarna, en ég talaði ekkert við þau og þau ekki við mig. Lengri varð draumurinn ekki. B.S.G. Þú ert í giítingarhugleiðingum og munt innan skamms ganga í hjónaband. Þessi gifting þín veldur nokkrum úlfa- þyt í fjölskyldunni og þú lendir í nokkrum erfiðleikum þess vegna. Það kemur ekki fram í draumnum, hve lengi þessir erfiðleikar standa né hvernig þeir leysast, en trú- lega raknar úr þeim með tímanum eins og öðru.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.