Vikan


Vikan - 28.09.1939, Blaðsíða 9

Vikan - 28.09.1939, Blaðsíða 9
Nr. 39, 1939 VIK A N 9 Dorothy Whipple: Frídagur. Undir eins og hún var búin að þurrka síðasta diskinn, þreif hún af sér skýluna og hristi lokkana. — Guði sé lof, nú er það búið! sagði hún. — Bless, ég er farin. — Góða skemmtun, sagði matsveinninn og horfði með aðdáun á granna fótlegg- ina, sem hurfu upp stigann. Þegar Irene var í hóteleldhúsinu, fannst honum lífið bærilegt, en þegar hún var þar ekki, var honum efst í huga að fara til sjós aftur. Uppi á loftskörinni nam Irene staðar, leysti af sér svuntuna og hlustaði. Var nokkur leið að ná könnu af heitu vatni úr baðherberginu ? I gegnum opna gluggana bárust raddir hótelgestanna neðan úr garðinum, og sjávarniðurinn, sem í dag var eins og mjúkur andardráttur. En inni í húsinu virtist engin hreyfing. Probert- hjónin voru uppi á herbergjum sínum og blunduðu eftir hádegisverðinn. Þau höfðu breytt húsi sínu við Shawn Bay í hótel, og gert það illa, fannst Irene. Þau reyndu að komast af með of fátt starfsfólk, að- eins einn við hvert starf, einn matsvein, eina herbergisstúlku, einn léttadreng og eina frammistöðustúlku, sem var Irene. Þau voru nízk á allt, jafnvel heitt vatn. En starfsfólkið fór í kringum þau, þeg- ar það gat, og Irene náði sér í heitt vatn. Hún lokaði hurðinni að svefnherberginu, sem þær höfðu saman gamla herbergis- stúlkan, Violet, og hún, og fór að hafa fataskipti, — hún átti frídag. Hún flýtti sér. I hvert skipti, sem hún átti frídag, flýtti hún sér eins og eitthvað mikið lægi við. Hún lét svarta kjólinn detta á gólfið, fletti af sér svörtu baðmullarsokk- unum, losaði sig við allt, sem hún bar utan á sér við starf sitt, nema undna gullarm- bandið ofan við vinstri olnbogann. Það tók hún aldrei af sér. Hún var frammistöðustúlka, en undir einkennisbúningi sínum bar hún gullarm- band. Hún var ekki öll sem hún sýndist. Armbandið breytti henni. I hvert skipti, sem hún snerti það, þar sem það lá hart og slétt undir erminni, vakti það hjá henni leynda, rómantíska unaðskennd; það tákn- aði fegurð, framtíðarmöguleika, von. Og á næturna, þegar hún lá með handlegginn ofan á sænginni, minnti það hana á, að hún væri ekki, mundi aldrei verða eins og Violet gamla í rúminu við hliðina á henni. Loft- laust herbergið, flónelsnáttfötin hennar, návist Violet, gerði ekkert til, armbandið var á handleggnum. Hún tók það aldrei af; það var dýrmætt tákn einhvers, sem hún ekki gat skýrt. Hún festi upp rauða lokkana með kambi og þvoði sér með sápu, sem angaði af rósa- ilmi. Hún fór í hvíta og græna skó, en enga sokka; smeygði sér í það, sem hún kallaði „sláið“ sitt — einskonar treyja úr jap- önsku silki og te-gulum knipplingum — og loks hvítt pils og grænt belti. Þegar Irene fór út, fór hún alltaf úr einkennis- búningnum, og þegar púður og varalitur var komið á sinn stað og lokkarnir leystir úr álögum, var ómögulegt að þekkja hana frá hótelgestunum, nema ef vera skyldi, að leggirnir voru of hvítir. Hún skoðaði sig í speglinum í krók og kring. Hún var tilbúin. Frídagur hennar var byrjaður. Um leið og hún fór fram hjá eldhús- glugganum, leit matsveinninn út, en hún gaf því engan gaum. Hún lét brosið deyja á andliti hans, án þess að virða það við- lits. Hún var vingjarnleg við hann, þegar hún var í eldhúsinu, en þegar hún átti frí- dag var öðru máli að gegna. Hún hristi lokkana, gekk á milli blárra lúpínuraðanna og ljósrauðu tamorind- runnanna, og inn á pósthúsið. Hótelið og pósthúsið voru einu mannabústaðirnir við Shawn Bay. — Einn pakka eins og venjulega, sagði Irene, vitandi af hótelgestunum fyrir fram- an bréfspjaldasöluna. — En hvað tíminn flýgur áfram, sagði afgreiðslustúlkan um leið og hún lagði sígarettupakkann á borðið. — Frídagur yðar er þegar kominn aftur? Irene leit illilega til hennar. Var ekki liðin heil vika síðan hún átti frí síðast? Henni gramdist að heyra minnst þannig á frídag sinn frammi fyrir svona mörgu fólki. Það tók ljómann af því, gerði úr því eitthvað, sem var tengt við starf hennar, eins og einkennisbúningurinn. Með þóttafullum svip kveikti hún sér í sígarettu og fór út. — Þetta er frammistöðustúlkan okkar, sagði einn af hótelgestunum. — Snotur! sagði annar með aðdáunar- hreim í röddinni. Irene heyrði, hvað þeir sögðu, en hún ^uiiiiiiiiii ■■■ ii 1111111111111111 ii iiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii n inii iii iiiiiiiin iiiiiiiinii,ii | • Smásaga. • I ’V/iiuiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiin'C* var ekki ánægð. Þeir voru ekki af því rétta sauðahúsi. Hún gekk niður stíginn, niður að sjón- um; hár hennar var logagyllt í sólinni og það glampaði á fagurgrænt beltið. Hún hafði sígarettuna í ódýru, löngu, grænu munnstykki. I limgirðingunni óx valerian, og hún kom auga á villt jarðarber, sem lá eins og hulinn gimsteinn í grasinu. Hún ætlaði að tína það seinna, þegar enginn væri nærri. Það var ekki viðeigandi að tína ber og borða, úr limgirðingunni svona und- ir eins og maður kom út. Hún merkti stað- inn og hélt svo áfram niður að ströndinni. Shawn Bay var ekki nema smávör inn á milli klettanna, eins og einhver stór hönd hefði af góðvild sinni búið til þetta skot handa einhverjum dvergvöxnum mannver- um, svo að þau gætu leikið sér og skvamp- að í fjöruborðinu og tyllt sér þar niður án þess að finna of mikið til hrikaleiks klettanna í samanburði vlð sína eigin smæð. Mr. Probert hafði hlaðið smástein- bryggju, en sjórinn hafði velt henni um koll og skolað steinunum fyrirlitlega upp í fjöruna aftur. Á þessum steinum sátu nokkrir hótel- gestir og böðuðu sig í sólinni. Bráðum myndu þeir aka af stað í eigin bílum eitt- hvað út í buskann. Þeir óku alltaf til ein- hverra staða í nágrenninu, þegar líða tók á daginn, og allt í einu datt Irene í hug, að ef til vill mundi einhver bjóða henni í bílferð með sér. Þetta kom yfir hana eins og elding, og hún stokkroðnaði við. Það yrði allt svo vandræðalega klaufalegt, og hún yrði að krefjast þess að fá að borga fyrir sig ... Það gæti jafnvel farið svo, að hún yrði að segja nei ... Hún gekk fram hjá gestunum án þess að líta á þá. Hún vildi ekki láta líta svo út, sem hún væri að gefa einhverjum undir fótinn. Hún vissi, að tízkuklædda konan var þárna; hún notaði ilmvötn með eggjandi angan, og Violet sagði, að á snyrtiborðinu hennar væri fullt af gulum, glerhúðuðum burstum og kömbum. Irene sá hana alltaf fyrir sér í huganum vera að borða kjúk- linga og drekka kampavín, eða stinga tán- um í ljósrauða silki-morgunskó, bryddaða með loðskinni, þegar hún fór fram úr á morgnana. Maðurinn hennar var miklu yngri en hún og virtist eyða mestu af tím- anum í að bruna áfram í nýjum, dýrum bíl. — Ungu, nýgiftu hjónin voru þar líka. Þau voru svo viðfeldin við matborðið, þeim var sama, hvað lengi þau biðu á milli réttanna. Irene vanrækti þau dálítið stundum til að geta sinnt þeim betur, sem vanstilltari voru, en hún var þeim þakklát fyrir það. Þarna var fallega stúlkan, sem gift var feita manninum með stóra bílinn, og ungi maðurinn sólbrenndi, sem var með þeim. Ennfremur tennis-stúlkurnar og báðir kvenlæknarnir. Þegar Irene var nærri komin fram hjá, leit hún upp og brosti lítið eitt til barn- fóstru óþekka stráksins. Þær áttu við sam-

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.