Vikan - 12.10.1939, Blaðsíða 4
4
V IK A N
Nr. 41, 1939
Eitt blaktandi puntstrá á heidi..
Enn einu sinni sígur höfgi myrkurs
og langra nátta yfir norðurhvel jarð-
ar, — og enn einu sinni horfa mann-
anna börn í gaupnir sér og skjálfa fyrir
sínum skapadómi — eins og blaktandi punt-
strá á heiði. Hinir hugdjörfu horfa ugg-
andi fram á veginn, sem enginn veit, hvert
liggur né hvar endar. Starfsþrek sumars-
ins er mjög rénað og margir eru þurfandi
fyrir stundar hvíld.
Úti í heimi berast öndvegisþjóðir _ á
banaspjót og brenna borgir og eyða
löndum. — Sá grimmilegi hildarleikur
ætti að vera okkur óviðkomandi, því að
ekki höfum við að honum stuðlað. En svo
fáum við að reyna það hvern dag, að okk-
ur vantar þetta og hitt, og fáum það
ekki, — vegna styrjaldarinnar.
Kafbátar, herskip og hernaðarflugvélar
eru á sífelldu sveimi í kringum landið okk-
ar til að sitja um skip óvinanna og sökkva
þeim í hafið. Svo ömurleg eru verk sumra
manna og svo dýru verði eru sumar syndir
goldnar. Allir eru krafðir skattsoggreiðslu,
og í sinni sölnandi, dreymnu ró er haustið
sá tími ársins, sem mestra fórna krefur
á friðartímum jafnt sem ófriðar. Nátt-
úran krefst sinna gjalda og tekur þau.
Gróðurinn söLnar, blöðin fjúka af trján-
um og farfuglarnir hverfa til fjarlægra
landa, ef þeir komast þangað. Mannfólkið
fer að dæmi móður náttúru og heimtar
skatt og skuldaskil af skuldunautum sín-
um. Hjarðir merkurinnar eru reknar til
blóðvallanna og allt selt og keypt, því að
nú ætla allir að vera forsjálir og safna í
komhlöður.
Allir straumar hins daglega lífs virðast
hníga að þessu takmarki. Ef við skrúfum
frá viðtæki okkar heyrum við tilkynningu
um það, að nú sé einhver hluti einhverra
útsvara fallinn í gjalddaga, og verði hann
ekki greiddur í dag, eða á morgun, falla á
dráttarvextir. Útvarpið tilkynnir, að við-
tæki, sem ekki sé greitt eftir afnotagjald
einhvern ákveðinn dag, verði innsiglað á
kostnað eigandans. Tollstjórinn minnir
fólk á að greiða tekju- og eignaskatt, líka
þá, sem hafa rýrar tekjur og eiga ekkert.
Lögtaksmenn og stefnuvottar slíta götum
borgarinnar. Þetta er nú þeirra starf,
þeirra hangandi hálmstrá. Heilar skips-
hafnir rukkara ganga fyrir hvers manns
dyr og biðja um peninga fyrir reiknings-
eyðublöð. Tvítugt fólk er rukkað um
kirkjugarðsgjald, eins og því beri einhver
sérstök skylda til að hvíla í kirkjugarði.
I flestum bönkum falla margir víxlar á
dag og hrópa ógn og skelfingu yfir sam-
þykkjendur og ábyrgðarmenn, — en þó
kváðu aldrei falla eins margir víxlar og á
haustin. Á sama tíma er hvert sæti skipað
í biðstofum bankastjóranna. Nýr víxill til
að bjarga þeim gamla á réttan kjöl ? Vinnu-
lúnar konur, sem annars eru fáskiptar um
bankamál, standa framan við glerþil gjald-
keranna, veifandi sparifjárbókum barna
sinna, til að hefja 15 krónur fyrir slátri,
sem einhver keypti svo frá þeim, meðan
þær skunduðu eftir aurunum. í haust hafa
sláturhúsin í Reykjavík ekki haft undan
að slátra ofan í fólkið, sem er að búa sig
undir veturinn.
Skólaskyld börn flykkjast í smáhópum
til skólanna, sem búa þau undir hina
kröfuhörðu lífsbaráttu.
Piltur og stúlka, sem hafa þekkzt hæfi-
lega stutt til að unnast hugástum, skoða
nýtízku íbúð í nýtízku húsi með tilliti til
væntanlegs hjónabands. Hún á að kosta 150
krónur á mánuði, en það er fullur helm-
ingur af tekjum hins unga, bjartsýna
manns. Sínar kornhlöður ætlar hann að
fylla með hamingju hjónabandsins. Þannig
endurspeglast stundum gróandi vorsins í
fölva haustsins.
Bændur smala dilkum sínum í slát-
urhúsin til greiðslu á gömlum skuldum.
Nauðsynjavörur eru teknar út gegn veði
í lömbum framtíðarinnar.
Síðan landið byggðist hefir haust-
ið svæft að mestu allar jákvæðar at-
hafnir þjóðarinnar. En því lengra sem
okkur ber inn í land hraðans og
bættra vinnuskilyrða, því greinilegar kem-
ur það í ljós, að íslenzkt atvinnulíf fær
ekki borið sig með því, að ekki sé unnið
að beinni framleiðslu nema 4—5 mánuði
ársins, en sú hefir raunin verið á með báða
aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Þess vegna
skuldum við, þess vegna erum við fátækir.
Það getur verið hollt og gott að hvetja
fólk til hófsemi og sparnaðar, en hitt er
Kvöld.
I kvöld meðan eldurinn kulnar
og klakinn á glugganum þykknar
og grasið á enginu gulnar
— gulnar og bliknar.
Um huga minn hljóðlega flýgur
sem hverfandi fugl af strönd
eitthvað, sem angurvært minnir
á ylhlýja vinar hönd.
Sá draumur um fegri daga,
er dylst í því handartaki,
er huggun þess hrjáða og snauða,
sem hamingjan sneri við baki.
Óskar Þórðarson
frá Haga.
enn þýðingarmeira, að allir leggist á eitt
um að vinna og vinna að jákvæðum störf-
um allan ársins hring, að svo miklu leyti
sem þess er nokkur kostur. Það er sú
hernaðarráðstöfun, sem mest mundi duga
okkur og bezt getur tryggt öryggi vopn-
lausrar þjóðar á ófriðartímum. Islending-
ar hafa aldrei verið betur menntaðir en
þeir eru nú, og þrátt fyrir miklar skuldir,
aldrei verið eins góðum efnum búnir. En
aukin menntun gerir kröfur til meiri
starfa, því má enginn gleyma.
Ég þekki einn mann, sem alltaf vinnur.
Flestir Reykvíkingar þekkja hann líka.
Það er Bensi gamh í Skólavörðuholtinu.
Á nokkrum árum hefir hann rutt öllu
grjóti úr vestanverðu Skólavörðuholtinu,
en þar er fyrirhugað, að reistur verði
skemmtigarður fyrir Austurbæinn. I þeim
garði ættu Reykvíkingar að reisa þessum
sanna brautryðjanda holtsins minnisvarða,
og gæti sú mynd um leið verið tákn um
elju og dugnað einyrkjanna frá fyrstu tíð
í þessu landi.
Fyrir nokkrum dögum kom ég að máli
við Benedikt. Þá var húðarigning og slag-
veður, en svo var gamli maðurinn sveitt-
ur við erfiði sitt, að svitastraumarnir
runnu undan hattkúfnum hans og hvít
gufa steig undan kápuhálsmálinu, er hann
laut fram og lét sleggjuna bylja á stór-
um blágrýtishnullungi. Hann barði nokkur
högg án sýnilegs árangurs. Síðan rétti
hann úr sér, greip annarri hendi til spjald-
hryggjarins, en studdi sig við sleggju-
skaftið með hinni, um leið og hann mælti:
— Það er erfitt verk að mylja grjót,
svona gigtveikur eins og ég er, góði minn,
en það er þó betra en að gera ekki neitt,
því að ég get nefnilega ekki sofið á nótt-
unni, ef ég hefi ekki eitthvað fyrir stafni
á daginn. Það gerir vaninn. Og ég trúi því
og treysti, að einhvern tíma kaupi bærinn
af mér grjótið, eins og verið hefir; þá fæ
ég kannske 1200 krónur. Og svo hefi ég
nú tekið mér fyrir hendur að ryðja holtið,
og enn hefi ég von um, að mér endist ald-
ur til þess.
Svo hélt Bensi áfram að berja. Ef við
kynnum að gefa gaum að orðum þessa fá-
brotna manns, og okkur mætti lærast að
leggja sama skilning í gildi vinnunnar og
hann, myndu færri rukka skuldir, taka
lögtök og fjalla um fallna vixla. Við meg-
um ekki gefa okkur tíma til að falla í
þunglyndismók og værukærð hins seið-
magna hauströkkurs, sem ekkert puntstrá
fær falið sig fyrir og engin sál fær um-
flúið. Svipa tímans blaktir hverja stund
yfir höfðum okkar, og því aðeins njótum
við drauma og hvíldar, að við höfum gold-
ið hverjum sitt, og fyrst sjálfum okkur.
En sjálfum okkur skuldum við alla jafnan
mest. S. B.