Heima er bezt - 01.06.1957, Blaðsíða 16
PÆTTIR ÚR VESTURVEGI
eftir Steindór Steindórsson frá Hlö&um
í LANDI MORMÓNANNA, UTAH.
Móti sumri og sól.
VY eðrið hafði leikið við mig fram að þessu, en
' laugardaginn, sem ég kvaddi Winnipeg, var
komin norðanátt, hálfköld, að mér þótti, og
var nú auðsætt, að áliðið var hausts; þótti mér
því gott að leita nú til suðlægari landa og hlýrri. Þeir
Björn Sigurbjörnsson og Haraldur Bessason fylgdu
mér á flugvöllinn, en þangað kom einnig Grettir Jó-
hannsson ræðismaður til að kveðja mig. Óskuðu þeir
mér allra heilla, og gerðu íslendingarnir í Winnipeg
þannig ekki endasleppt við mig. En þótt ég væri nú að
kveðja íslendinga, þá var förinni heitið beint á fund
annarra landa vorra suður í mormónalandinu Utah.
Vélin hefur sig til flugs, og nú er flogið í áttina
móti sól og sumri. Örstutt dvöl var í Grand Forks til
vegabréfsskoðunar. Richard Beck kom út á flugvöll
og rabbaði við mig örlitla stund, og svo var flogið
áfram á ný. Á leiðinni suður yfir slétturnar brá mér í
brún við að sjá breytinguna, sem orðið hafði síðan ég
flaug norður um. Þá loguðu öll tré og runnar í rauð-
um og gullnum litum, en nú höfðu haustnæðingarnir
verið að verki, laufið var fallið, trjálundar og skógar-
belti stóðu grá og nakin í lit síðhaustsins, og grænu
blettimir á ökrunum höfðu einnig sölnað og gránað.
Fegurð haustsins á þessum slóðum er glæst en skamm-
vinn.
Skipt var um flugvél í Minneapolis, varð þar um
tveggja stunda bið. Ekki fór ég samt inn til borgar-
innar, en dvaldist úti í flughöfninni, enda var þar hægt
að láta fara vel um sig, lesa í bók og fá sér hressingu.
Ég hafði hlakkað til þessarar flugferðar, en hún varð
mér nokkur vonbrigði. Meðan beðið var í Minneapolis,
hafði syrt í lofti, svo að flogið var ofar skýjum mest-
allan þann tíma, sem bjart var af degi. Og þegar fjöllin
tóku að nálgast og létti í lofti, var komið myrkur.
Flugferðin var því fremur tilbreytingarlaus og þreyt-
andi. Ég dottaði, eins og flestir föranautar mínir, og
vissi lítt hvað tíma leið, þangað til ég vaknaði við það,
að flugfreyjan ýtti við mér og spurði, hvort ég vildi
ekki kampavínsglas á undan matnum. Ég tók boðinu
með þökkum. Er ekki að orðlengja það, að United
Airlines sparaði hvorki kampavín né mat við gesti sína.
Var hvorttvegja sem í hinni ágætustu veizlu. Aðeins
eitt þótti mér á vanta, og það var að hafa einhvem
góðvin til að skála við og njóta með mér hinna ágætu
rétta. Við vorum nú yfir Klettafjöllunum. Tungl skein
í heiði, og lengst neðan undir okkur sáust sundurtætt
fjöll, með hvössum tindum og hymum, sem vörpuðu
draugalegum skuggum yfir dali og gljúfur, sem tungl-
skinið gerði enn draugalegri en ella. Á stöku stað sáust
ljós, sem vitni um mannabústaði, eða bíla á ferð. Langt
virtist þó á milli byggðra bóla. En loks er Ijóshaf
mikið fram undan. Vélin lækkar flugið, og vér lend-
um í Salt Lake City, Saltvatnsborginni.
Richard Beck hafði skrifað dr. Júlíusi Bearnson, hag-
fræðiprófessor í Salt Lake City, og beðið hann að
greiða þar götur mína. Hafði hann gert ráð fyrir að
mæta mér þegar á flugvellinum. En sá var Ijóður á,
að hvorugur þekkti annan. Þegar ég hafði heimt far-
angur minn, tók ég að svipast um. Jú, þarna var aldr-
aður maður, ljós yfirlitum, og svo líkur íslenzkum
bónda, að varla gat verið um annað en íslending að
ræða. Ég gekk beint til hans og heilsaði honum. Mér
hafði ekki brugðist íslendingssvipurinn, þetta var Beam-
son prófessor, og aldrei hefir mér verið hjartanlegar
fagnað af bráðókunnugum manni. Ók hann mér heim
á Hótel Temple Square, og hét að sækja mig til þess að
sýna mér borgina kl. 10 að morgni.
Enn var ég ltominn í ókunnan stað og í góðra manna
hendur.
Ögn um Mormóna.
Mormónar eru sértrúarflokkur, eins og kunnugt er.
Upphaf hans var, að ungur maður, Jóseph Smith að
nafni, taldi sig fá vitranir frá öðrum heimi, og að hann
væri kallaður af guði að vera spámaður hans. Þetta var
1823. Honum voru birtar gullnar töflur, sem á vom
skráðar guðlegar opinberanir og saga fyrirrennara Mor-
móna. Voru honum kennd ráð til að þýða letur tafln-
anna, og gerði hann það, og er það hin svonefnda
Mormónsbók, kennd við engilinn Mormón. Söfnuð
sinn stofnaði Joseph Smith 1830. Heitir hann réttu
nafni Jesú Krists kirkja hinna síðustu daga heilögu.
Biblían er höfuðtrúarrit þeirra, en við hlið hennar er
Mormóns bók og tvö önnur helgirit. Brátt festist Mor-
mónanafnið við söfnuðinn, og létu þeir sér það vel
líka. í öndverðu sættu Mormónar mildum ofsóknum.
Lágu til þess ýmsar orsakir, sem ekki verða raktar hér,
en sennilega hefir mestu um valdið, að þeir fóra sínar
eigin leiðir og beygðu sig ekki fyrir almenningsálitinu.
Hrökklaðist flokkur þeirra stað úr stað, og leituðu sí-
fellt lengra vestur á bóginn. Spámaðurinn, Joseph
208 Heima er bezt