Heima er bezt - 01.07.1959, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.07.1959, Blaðsíða 15
Og einhvern veginn fannst honum samt sem áður, að þetta kæmi sér svo sáralítið við. Hann fann enda ekki til neins saknaðar, og hugurinn var að engu leyti neitt bundinn við þessar jarðnesku umbúðir, sem til- heyrðu honum heldur ekki lengur. Þess skal getið í sambandi við draum þennan, að Sandar eru í Langholtssókn, þar sem Jón dvaldist frá fimm ára aldri til tvítugs, eins og áður er frá skýrt. SVEFNGÖNGUR JÓNS Þegar Jón var unglingur, á aldrinum 11—14 ára, bar töluvert á því, að hann gengi í svefni og sérstaklega á eftir dansleikum. Þá átti hann heima á Söndum í Meðallandi. A þeim árum fór hann þá stundum á skemmtisamkomur þar í sveitinni með félaga sínum, sem var þá eitthvað á svip- uðu reki. Heimasætan á Söndum, Guðbjörg Guðmundsdóttir, var vön að líta eftir Jóni undir svona kringumstæðum, ef hún varð þess vör að hann færi út úr bænum, þegar hann var heima. Þá var það eitt sinn sem oftar, að Guðbjörg verður þess vör, að Jón er á ferli, og fer hún þegar út á eftir honum. Sér hún þá, að hann er á hlaupum kringum bæinn og kallar til hans. Hann kemur þá til hennar heim á hlaðið en stendur þó ekki við, heldur heldur hann áfram inn í bæ. Dettur Jóni þá það í hug, að nú skuli hann fela sig fyrir Guð- björgu með því að standa í skoti þar í ganginum, sem er lítið eitt til vinstri, þegar gengið er inn í baðstofu. Þar við þilið hinum megin var gestastofan, sem venju- lega var læst, þegar ekki voru gestir, og eins var í þetta sinn. Óskar Jón þess þá innilega í huganum, að gaman væri nú að vera kominn inn í gestastofu. í sömu svifum opnast þilið í fullri hæð við hann, og bregður hann sér þá þegar í gegnum dyr þessar, en kippir um leið mjög snöggt að sér hendinni, því að þilið var að lokast aftur með sama hraða og það opn- aðist, en þó algerlega hljóðlaust. En þá er að segja frá Guðbjörgu. Hún fór þegar strax á eftir Jóni inn í bæinn og leitaði í baðstofu, fjósi og öðrum hugsanlegum stöðum. Dettur henni þá í hug að fara út og leita kringum bæinn, ef ske kynni að hann hefði laumazt út aftur, á meðan hún var að leita í fjósinu. Gengur hún nú í kringum allan bæinn og gætir greini- lega að öllu, án þess að verða nokkurs vísari. En um leið og hún gengur fram hjá glugganum á gestastofunni, verður henni af hendingu litið inn, og sér hún þá, sér til mikillar undrunar, að Jón stendur þar inni á miðju gólfi, því að henni var kunnugt um það, að stofan var harðlæst, og Jón gat ekki undir neinum kringumstæð- um náð í lykilinn. Þegar Jón vaknaði úr ástandi þessu, komu þau sér saman um það, hann og Guðbjörg, að segja engum manni frá atburði þessum, því að enginn myndi trúa svo ótrúlegri frásögn. Og svo var það í annað sinn, er Jón kom af dansleik á þessum árum, er áður um getur, að hann lagði sig í Lágakoti í Meðallandi. Bjuggu þar þá hjón, er hétu Sigurður og Kristín, foreldrar Einars, uppeldisbróður Jóns. Skömmu eftir það að Jón er sofnaður, verður Kristín húsfreyja þess vör, að Jón er kominn á kreik, og er hann þá að basla við að opna fataskáp, er stóð þar í baðstofunni. Kristínu dettur þá í hug að Jón hafi ætlað út til sinna erinda, en villzt á skápnum og bað- stofuhurðinni og bendir honum á dyrnar, en sinnir því svo ekki meir. Þegar Jón var kominn út, heldur hann áfram norð- austur frá bænum og út í mýri, sem þar var. Einar Sig- finnsson, heimilismaður þarna á bænum, sér þá hvar drengurinn hleypur, og veitir hann honum þegar eftir- för. En þegar Jón sér manninn koma á eftir sér, kennir hann nokkurs ótta og herðir á hlaupunum, þar til hann kom að síki nokkru allstóru. Gizkaði hann á, að það myndi alltaf vera frá 12—15 m á breidd. En ekki hikaði hann samt, heldur stakk hann sér þegar samstundis í kaf út í síkið með hendurnar fram undan sér, eins og þegar sundmenn stinga sér til sunds, og renndi sér svo gegnum vatnið á svipstundu. Hinum megin var grasi gróinn holbakki, og náði Jón því fljótt handfestu í graslubbanum og gat þannig krafsað sig upp úr síkinu. En þá fyrst sýpur hann hveljur, og virtist honum það valda sér óþæginda um stund. Heldur hann þó áfram en breytir um stefnu, og stefnir þá á bæinn, Háakot. Þá er að segja frá Einari og manni þeim, er með hon- um var. Þeir ályktuðu svo, að Jóni myndi tefjast við síkið, og þar gætu þeir náð honum. Urðu þeir ekki lítið hissa, er þeir sáu, að Jón var þegar kominn yfir síkið og hélt áfram ferð sinni, eins og allt væri sléttar grundir. Ekki tafði girðingarhliðið í Háakoti heldur fyrir honum, þótt það næði honum í öxl. Hann teygði sig þar upp og sveiflaði sér á höndunum yfir girðinguna, eins og ekkert væri, og heldur hann svo áfram suðvest- ur mýrina, sem er á milli bæjanna Háakots og Lágakots. Kallar þá Einar hlýlega til Jóns og biður hann að bíða eftir sér, og gerir Jón það. En þegar Einar hafði náð Jóni, ætlaði hann að leiða hann það, sem eftir var leiðar, því að hann taldi víst, að Jón væri kominn til fullrar meðvitundar eftir þetta allt og væri orðinn þreyttur. Hann varð því mjög undrandi, þegar Jón hleypur á- fram, og kraftar hans eru það miklir, að Einar átti fullt í fangi með að standa á fótunum og fylgja honum eftir heim að Lágakoti. En um leið og Jón kemur heim á bæjarhlaðið, verður hann laus við þetta svefngönguástand og skynjar hlut- ina á venjulegan hátt. Að síðustu skal þess getið, að eftir að þessi atburður átti sér stað, komu Jón og félagi hans seinna að Nýjabæ Framhald á bls. 254. Heima er bezt 235

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.