Heima er bezt - 01.07.1959, Page 17

Heima er bezt - 01.07.1959, Page 17
svarið, og lét þó Hjálmar sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hélt ég svo suður Breiðarflóann og upp hjá Breiðargerði, og lagði svo á flóann vestan Tunguháls, því þar vissi ég að væri jafnfæri, en krapakafhlaup í hverjum skorningi, ef farið væri upp á melunum, sunn- an flóans. Ég óð skeljaðan krapaelginn yfir allan flóann, og var dýpið alltaf í sokkaband og hné á mér. Þegar ég komst af flóanum varð færið nokkru léttara, og hvíldi ég mig þá á hestunum, að mestu, inn að Goð- dölum, en þangað þurfti ég að skila meðölunr. Fór ég svo þaðan beint niður að brúnni á Jökulsá, og hélt ég að ég mundi hálsbrjóta hestana í móaskonsunum, niður frá Goðdölum, sem allar stóðu fullar af krapi, og sýnd- ist því allt slétt. Frá brúnni á Jökulsá og heim að Bjarna- staðahlíð fékk ég allgott færi, eftir melabörðum, og kom þangað ríðandi, um kl. 9. — Var svo vel tekið á móti mér, að betur gat ekki verið, enda var ég orðinn talsvert slæptur og hvergi á mér þur þráður. Helga dó kl. 4 um nóttina, en vænt þótti mér um að hafa komið meðölunum þangað heim í tæka tíð, — þó ég viti nú að meðöl höfðu þarna enga þýðingu. Ég var liðlega 17 ára, þegar þetta var, og var fljótur að jafna mig eftir volkið. 2. Yfir Jökulsá í Laugarhvammi. Ég hygg það hafi verið vorið 1903, sem ég fór þessa glæfraför. Ég hafði verið um hálfan mánuð í vor- vinnu, hjá Helgu Hjálmarsdóttur í Bakkakoti í Vestur- dal í Skagafirði, og átti eftir að vera þar um það bil vikutíma. Helga var ekkja eftir Jón Jónasson, bróður séra Jónasar á Hrafnagili, og bjó hún þarna með börn- um sínum. — Ég átti rauðan hest ungan, er ég nefndi Blæ, gott hestefni. Hann hafði nú „skotið mér ref fyrir rass“, blessaður folinn minn, og strokið frá mér yfir á Kjálka og langaði mig að ná í hann aftur, til að bera mig á milli vinnustaða, því ég var nú, í þá daga, ekki „við eina fjölina felldur“. — Hafði ég nú fengið lán- aðan, hjá Helgu, brúnsokkóttan áburðarhest, til að fara á yfir á Kjálka, að sækja folann. — Þetta var á Hvítasunnudag. Ég var að leggja hnakkinn á Sokka, á hlaðinu í Bakkakoti, en í þeim svifum riðu í hlaðið, Tómas Pálsson bóndi á Bústöðum, ásamt Önnu móður sinni og Önnu Sveinsdóttur, fósturdóttur sinni. Voru þau á leið til Goðdalakirkju. — Er við höfðum heilsast, segir Tómas: „Ertu með til kirkjunnar?“ „Ónei, ég ætla yfir á Kjálka,“ svaraði ég. „Og hvaða leið hugs- arðu þér að fara þangað?“ spyr Tómas. „Beinustu leið, hérna yfir í Laugarhvamminum,“ svaraði ég. „Ég vil fastlega ráða þér til að hætta við þetta, því ég hef varla séð meira flóð í Austari-Jökulsá en nú,“ sagði Tómas. „Ég fer nú samt, ég er búinn að ákveða það,“ svaraði ég með þrákelkni. — Tómas horfði á mig um stund, og sá víst, að ég var ósveigjanlegur í mínum heimsku- lega einstrengingshætti, og segir svo: „Þá er bezt að ég láni þér Gráskjóna, ef hann ekki skilar þér yfirum, þá gera þeir það ekki, margir klárarnir. „Það tek ég mér til þakka,“ svaraði ég, og voru nú höfð reiðtygjaskifti á hestunum. Eitthvað meira var reynt, til að fá-mig til að hætta við áform mitt, en án árangurs. — Steig ég svo á bak Gráskjóna, kvaddi fólkið, og reið sem leið lá út í „Sporðinn“, en það er nyrzti raninn á milli Jökuls- ánna, (eystri og vestri). Er ég kom þar, sá ég að Tómas hafði ekkert ýkt. Áin var í öskrandi stórflóði. Þegar hún er vel reið, (svona á miðja síðu), þá er stór grjót- eyri að austanverðu við ána, og norðarlega á þeirri eyri er allstór steinn, er mun um 70—80 cm á hæð. Nú sá hvergi fyrir eyrinni, en annað slagið sást votta fyrir flúð, þar sem steinninn var. Ekki hvarflaði það í hug mér að hætta við förina. Alveg hiklaust fór ég af baki, og teymdi hestinn niður snarbratta lausagrjóts-skriðu, niður að ánni, og svo dálítinn spöl suður með henni, (til að hafa meira rúm, þó að hrekti), girti svo dálítið fastara, spretti beizliskeðjunni, og fór á bak. Á meðan ég var að þessu, tók ég eftir því, að Gráskjóni reisti sig og leit djarflega til árinnar, og yfir í Laugarhvamminn. Honum var víst vel Ijóst, hvað framundan var. Tregðu- laust lagði hann svo blessaður klárinn út í straumkastið, og var hrokasund um leið og hann var kominn lengd sína út í. Eftir nokkur sundtök kom hesturinn upp úr, svo vatnið var um það bil á miðjar síður, og fann ég að hesturinn sparn harkalega í með afturfótunum, og tók hann þá nær því kafdýfu, svo vatnið féll mér að geirvörtum sem snöggvast, en brátt kom allt upp, og synti nú Gráskjóni hraustlega, skáhallt austur vfir og hrakti furðu lítið og skilaði vel. — En svo fór hann að höggva niður á hnullungum i botninum, og lagðist þá um leið meira í strauminn. Lagðist þá straumþunginn á mig með miklu meira afli, og straummegin upp fyrir mitti, svo litlu munaði að straumurinn drægi mig niður með hestinum, og varð ég að beita allri orku til að halda mér á honum. Brátt fór að grynna og við Grá- skjóni innan skamms á þurru landi. Svo stóð á því, þegar Gráskjóni kom upp úr á sundinu, að þar eru tveir stórir steinar í ánni, og var það haft til marks um að áin væri reið, ef aðeins vætlaði yfir steinana, þegar ég var smádrengur á Stekkjarflötum. — Er ég hafði undið það mesta úr fötum mínum, fór ég uPP að Keldulandi, því að þar bjó þá faðir minn, en þangað hefði ég ekki átt að koma, því pabbi skamm- aði mig fyrir glannaskapinn — og raunar átti ég það margfaldlega skilið, — en ég sagði að það sæti nú ekki vel á honum að vanda um slíkt við mig, því að sjálfur væri hann annar vatnaglanninn frá. Blær minn var á sínum folaldsstöðvum (sbr. bernsku- stöðvum), inn á Bakkadal. Reið ég svo inn á. Ábæjar- vöð. Skilaði svo Gráskjóna, heim að Bústöðum, daginn eftir. Sagði ég Tómasi, að sennilega ætti ég honum og Gráskjóna líf að launa, — næst guði, — og er það sann- færing mín. Þetta var bandvitlaus glæfraför, nema þá í bráðri lífs- nauðsyn. — En svona eru stífir og óráðþægnir strákaglannar. — Heima er bezt 237

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.