Heima er bezt - 01.07.1959, Page 33
„Þetta er aldeilis ágætt,“ sagði Kristján uppveðraður.
„Ég finn það á lyktinni að kaffið er gott. Það er eins
og hver annar ljótur vani að vera að bera brauð með
kaffi.“
„Hvað er svo að frétta af konunni þinni. Er hún
alltaf dauðans herfang?“ spurði húsfreyjan.
„Þakka þér fyrir,“ sagði Kristján. „Hún er nú óðum
að hressast. Líklega komin til móður sinnar. Hún hefur
alltaf verið á spítala.“
„Mikið er það lán ef hún kemst til einhverrar heilsu
aftur,“ andvarpaði konan.
„Var þetta ekki bölvuð tæringin, sem að henni var?“
sagði bóndinn. „Það er lítil von til að þú sért fólksæll
ef hún er í bænum hjá þér.“
„Það hefur aldrei verið nokkur tæring á mínu heim-
ili,“ flýtti Kristján sér að segja, „þetta var bara eins
og hvert annað fleipur, sem gekk um sveitina. Það var
allt annað sem að Rósu gekk, en drengurinn var stál-
hraustur. Konuna langaði bara til að hafa hann nálægt
sér, þess vegna fór hann með henni.“
„Hefurðu þá von um að hún fari að koma heim?“
spurði konan.
„Já, vonað getur maður alltaf,“ sagði Kristján.
„Þú mátt vera rólegur,“ sagði Asdís. „Ég skal vera
hjá þér þangað til hún kemur heim.“
„Það er nú ágætt loforð,“ sagði Kristján.
„Svona eru þá ástæðurnar hjá þér,“ sagði konan. „Það
er ekki hægt að kalla þær álitlegar og ekki undrar mig
það að móðir mín birtist þér. Hún var nefnilega svo-
leiðis manneskja að hún mátti ekkert aumt sjá svo hún
revndi ekki að hjálpa því á einhvern hátt. Og vel gæti
ég trúað því að forlögin hefðu hér hönd í bagga. En
hvernig hefur þú dóttir góð hugsað þér að komast út
að Hofi? Mér finnst þú nokkuð fyrirferðarmikil til að
sitja á hnakknefinu hjá honum, eða ertu kannske að
hugsa um að hlaupa með hesti hans alla leið?“
„Kannske tengdamóðir mín heitin hafi sagt honum
að koma með hest handa henni,“ skaut húsbóndi inn í
sínum kaldhæðnislega tón.
„Ekki gerði hún það,“ sagði Kristján. „Það tók ég
upp hjá sjálfum mér. Það meira að segja reiðhestinn
hennar Rósu og söðulinn. Og nú er bezt fyrir okkur
að fara að síga af stað ef Ásdís er tilbúin."
„Ég er tilbúin,“ sagði Ásdís.
Kristján kvaddi hjónin vingjarnlega, þakkaði kon-
unni fyrir kaffið, sagði að það hefði hresst sig ákaflega
vel, en sannleikurinn var sá, að hann hafði átt bágt með
að koma því niður svo hræðilegt hafði honum fundizt
hlóðabragðið að því.
„Já, skárri er það nú vitrunin,“ sagði konan þegar
gesturinn og dóttir hennar voru horfin út í þreifandi
náttmyrkrið. „Það er víst óhætt að segja, að engin
ráði sínum næturstað. Mér þykir mikið ef hann finnur
bæinn í þessu þreifandi myrkri. Og mamma að fara að
vísa honum hingað. Það boðar eitthvað, eins og ég er
búin að segja áður.“
Enn hnussaði í þeim óþjála húsbónda: „Það er ekki
ótrúlegt að það boði eitthvað. Hann hefur líklega logið
því, séð og heyrt að þið mæðgur væruð nógu heimskar
til að gleypa það. Þá myndi erindið ganga betur. Hann
er víst vís til alls, þessi kauði. Mér heyrist hann ekki
vera mjög vinsæll þarna út á Ströndinni. Og ekki hefði
mér dottið í hug að láta Ásdísi fara með honum, ef ég
hefði haft nokkuð með hana að gera hér heima, en þar
sem heyið er allt komið heim á tún, er okkur engin vor-
kunn að koma því í tóft.“
„Ja, heyri ég nú eitthvað. Hún hefði líklega farið
hvað sem þú hefðir „múðrað“. Hún er vön að fara það
sem hún ætlar sér stúlkan sú. En að hann hafi logið
upp draumnum á ég bágt með að trúa. Manni var nú
kennt hvað við lagi, ef maður gerði það.“
„Hann hefur nú líklega lært aðra pistla en þú. Svo
er líklega bezt að vera ekki að ræða um þetta meira.
Hún hefur líklega einurð á að gefa honum „langt nef“
og hafa sig heim aftur, ef henni fellur ekki alls kostar
við hann,“ tautaði hann hálfsofandi.
„Já, ég get nú samt ekki annað en hugleitt hvað þetta
er líkt orðum hennar móður minnar sálugu,“ sagði
hún. „Ég held það geti svo sem skeð að Rósa komi
aldrei til hans aftur og þá er ég nú ekki hrædd um að
Ásdís reyni ekki að standa í sinni stöðu. Við sjáum
nú til.“
Ásdís vaknaði við það að sólin skein inn um glugg-
ann. Allir voru komnir á fætur nema hún. Það var
aldrei að hún stæði sig sem húsmóðir, að steinsofa þegar
allir aðrir voru komnir til verks. Hún sá út um glugg-
ann að Kristján var af dreifa úr sátunum suður á tún-
inu. Hún flýtti sér í fötin og þaut suður eftir til hans og
gekk rösklega að verki.
„Ertu búin að fá þér morgunhressingu,“ spurði hann.
„Nei, ég sá engan frammi og skammaðist mín svo
mikið þegar ég sá þig vera farinn að dreifa, að ég hugs-
aði ekki um neitt annað.“
„Þær hafa verið í fjósinu að mjólka, en kaffið er á
eldavélinni, en það er ekki von að þú vissir það, alveg
ókunnug,“ sagði hann.
„Þurfa þær báðar að mjólka kýrnar, eru þær svo
margar,“ sagði Ásdís. „Mér finnst að vinnukonan hefði
getað dreift með þér. Náttúrlega má ég ekkert segja,
sem steinsvaf inni í rúmi en það verður varla oftar, sem
það sést til mín.“
„Geirlaug mjólkar ekki nema eina kúna. Hún er
vesalingur til heilsunnar síðan í vor,“ sagði hann.
„Það heyrðist að hún færi að Þúfum, þegar hún yrði
flutningsfær. Það hefur verið ein sanna sagan,“ sagði
Ásdís.
„Ég reyni nú sjálfsagt að halda í hana meðan ég get.
Hún er soddan prýðis manneskja við eldamennskuna,“
sagði hann.
Þá kom Bogga hlaupandi heiman frá bænum.
„Geirlaug vill endilega að þessi nýja vinnukona fái
morgunkaffið," sagði hún.
Framhald.
Heima er bezt 253