Heima er bezt - 01.02.1962, Qupperneq 12
angan af lyngi og víði og fann löðun gróandi framtíðar
í reisn lagðprúðra sauðkinda, tiginna gangvara og móð-
legra og mjúkeygðra kúa, hafi nær sextugur gengið
tvíelleftur að verki við heyskap og jarðabætur og hirð-
ingu sívaxandi hjarðar og horft ungur í augum yfir
safagrænar sáðsléttur, dimmrauð flög, sem vænta sín á
vori komanda, og sinubleikt stórþýfi, þar sem hver
þúfa hefur um langar nauðaldir lumað á þeim eina
gjaldeyri, sem aldrei verður í verði felldur, meðan sól
himins gengur sína braut, hækkar og lækkar á lofti og
skiptir árstíðum á íslandi? N
Hólakotið er nú ekki lengur kot. Nú er það land-
námsjörð, óðal og stórbýli, svo sem var bújörð Hall-
kels, hálfbróður Ketilbjarnar Ketilssonar ins gamla úr
Naumudal. Og þar eð geistlegt vald svipti hið forna
landnámssetur nafni sínu, þótti Albert hæfa, að kotið
hæfi það á ný til heiðurs, og heitir nú kotið Hallkels-
hólar. Þar hefur hann reist íbúðarhús við hæfi, fjárhús,
sem rúma hálft fjórða hundrað fjár og fjós handa 24
nautgripum, og ekki mun fjarri því, að fleiri höfuð
komist ekki á garða í fjárhúsinu, en þar fiðra nú mjúkri
snoppu við græna ilmtöðu — og brátt munu fullskip-
aðir básarnir í fjósinu, enda hafa þegar verið ræktaðir
þrír tugir hektara. Þá hafa risið hús nokkru austar í
túninu. Þar er snoturt íbúðarhús, en einnig er þar byggt
yfir fiðraðan bústofn og akfeitar og rýtandi gyltur og
galta, og er allt þarna eign ungu hjónanna. Þau ganga
annars að störfum með þeim rosknu, þá er þess gerist
helzt þörf, en þegar því er ekki til að dreifa, stundar
Gísli iðn sína af kappi og verður vel til um verkefni.
Svo er þess að geta, að ekki hefur Albert afrækt reið-
hesta sína. Hann á þróttmikla, gangprúða og fjöruga
vekringa og bregður sér á bak, þegar tækifæri gefast til.
VII.
Svo sem getur í upphafi þessa greinarkorns, urðu
kynni og viðskipti okkar Alberts Finnbogasonar með
þeim hætti, að með okkur tókst ekki einungis góður
kunningsskapur, heldur varanleg vinátta — og kynni
fjölskyldna okkar hafa orðið á sama veg. Og þó að
mér þætti það stórum miður, að hann taldi sig knúinn
til að láta af stjórn útgáfufélagsins Norðra, var síður
en svo, að það varpaði skugga á vináttu okkar eða ég
hefði á honum minni mætur eftir en áður. Hann er
einn af þeim fágætu mönnum, sem eru það raunheilir
og svo mikillar gerðar, að það smækkar þá ekki við
nein þau störf, er þeir takast á hendur, þótt lífið fleygi
ekki án tafar í fang þeim tækifæri til að gera kæran
æskudraum sinn að veruleika, en láta þó ekki draum-
inn verða að órafjarlægri hillingu, heldur bíða þess
staðfastir, að þeim gefist færi á að gera hann að veru-
leika og leggja sig síðan alla fram, þegar það færi
gefst, reynast þá búa yfir ótrúlegu þreki, þoli og þraut-
seigju — og kunna ráð við hartnær öllum erfiðleikum,
sem á veginum verða. Slíkir menn eru mildir gæfu-
menn og gætu virzt hennar óskabörn, en sannarlega á
það þó við um Albert Finnbogason, að hver er sinnar
gæfu smiður.
Enginn skyldi nú ætla, að hinn fyrrverandi fram-
kvæmdastjóri umfangsmikils fyrirtækis einangraði sig
á sinni glæsilegu landámsjörð og fyndi sig ekki eiga
samleið með hinum nýju sveitungum sínum. Síður en
svo. Hann er orðinn góðkunningi margra þeirra, og
þeir koma gjarnan og mæla hann máli. Hann hefur og
manna gleggstan skilning á því, að þótt það sé enn
satt að fár lofi einbýlið sem vert sé, eru samtök og
samvinna bændum holl og hagkvæm um margt. Hann
telur til dæmis, að bændur eigi mjög að miða einkaeign
sína á vélum við fjárhag og bústærð, en nota sér þó
alla þá véltækni, sem vélræn veröld hafi íslenzkum land-
búnaði upp á að bjóða, og skuli þar koma til samvinna,
sem getu einstaklingsins þrýtur. Hann hefur fengið í
félag með sér þrjá sveitunga sína, Magnús Björgvinsson
í Klausturhólum, Guðmund Guðmundsson á Efri-Brú
og Pál Diðriksson á Búrfelli, um kaup á sláttutætara,
sem gerir allt í senn: slá, saxa og blása heyinu á vagna.
Þeir félagar hafa og keypt í samlögum mjög stórvirkan
áburðardreifara. Þessar vélar vinna til skiptis á býlum
fjórmenninganna, og reynist bezta samkomulag um
notkun þeirra. Fleira og fleiri munu á eftir koma, og
sporum Alberts á samtaka- og framfaravegi ræktunar
og búsýslu mun fjölga því meir, sem honum endist
lengur heilsa og líf. Og sú gæfa hans mun ekki reynast
veigaminnst, að geta í einhverju eflt gæfu og gengi
annarra. En einmitt það varðar okkur mest til menn-
ingar og velfarnaðar — litla þjóð, gædda góðum gáfum,
en frumbýling í tækniheimi nútímans og hálfáttavillta
á hinum vandráðnu krossgötum, sem gatan úr fásinn-
inu og fárra kosta völ liggur að — að við, hvað sem
öðru líður, komum auga á og tileinkum okkur þau
sannindi, að hagur heildar og einstaklings, — einstaklings
og heildar — fer saman í hvívetna, ef vítt er séð og
djúpt skyggnzt.
Ljósmyndirnar með greininni tók Þorvaldur Ágústsson.
HUGSAÐ TIL
SÉRA BENJAMÍNS KRISTJÁNSSONAR
á sextugsafmæli hans 11. júní 1961.
Sem valurinn frái mér virðist þú
í víðernum loftsins hranna,
er sældrðu andlega björg í bú
til bjarmalands minninganna,
sem helguð er vonum, trausti, trú
og tignun hins eilífsanna;
en flýgur jafnan að hreiðri heim
með happafeng betri en gull og seim.
Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.
48 Heima er bezt