Heima er bezt - 01.09.1962, Blaðsíða 32
fastshestana, því þeir áttu til að vera dálítið viðsjár-
verðir. Þeir voru styggir og miklir með sig og vísir til
alls, ef út í það fór, meðal annars að hlaupa í burtu
frá prófastinum, þar sem hann var næturgestur, ef
þeirra var ekki gætt nógu rækilega. Var þeim til þess
trúandi að sæta lagi, er dyrnar voru opnaðar í granda-
leysi og ryðjast út ofan á mann, seta upp rassinn og
æða út í myrkrið. Var því allur varinn góður, sagði
prófastur.
Kristín leiddi maddömuna systur sína í bæinn.
Fylgdu þeir á eftir, prófastur og Brynjólfur. Fór
Kristín með þau inn í baðstofu og í hjónahúsið. Gerði
hún það bæði af því, að þar var hlýtt og notalegt, en
kalt í stofunni, enda þurfti að taka þar til og koma
ýmsu í lag. Þar átti að leggja á borð, því þar skyldu
þau snæða, prófastshjónin, og þar áttu þau að sjálf-
sögðu að sofa. Voru þau nú sezt niður í hjónahúsinu
og tók prófastur til máls:
„Já. Við ætluðum satt að segja að koma hingað fyrir
löngu, þó ekki væri nema til þess að húsvitja,“ og nú
brosti séra Ingimundur. „Ég er vanur að húsvitja unt
og upp úr veturnóttum, eins og þið vitið. En þetta
dróst nú að fara hingað. Satt að segja var ég að bíða
eftir því að stillti til. Þetta er svo langt. Maður verður
rennblautur, já, gagndrepa, ef rignir. Nú, þetta voru
stöðugir umhleypingar og votviðri fram yfir jól. En
í stillum og þessu góða færi er gaman og hressandi að
ríða hingað, finnst þér það ekki, Ragnhildur mín?“
Jú, Ragnhildi fannst það.
Svo var farið að ræða um almenna hluti, skepnuhöld,
heilsufar, ýmsa viðburði innan sveitar og jafnvel utan
sveitar. Þannig fékk Kristín fréttir af Guðnýju systur
sinni á Borgum, en af henni hafði hún ekki frétt frá
því í vor, að Guðný hafði komið í brúðkaup systur
sinnar. Annars var í raun og veru ekkert að frétta.
„Ekki einu sinni sveitarlimur hrokkið upp af,“ sagði
Brynjólfur og hermdi eftir Jóni ríka, því sagt var, að
hann væri vanur að komast svo að orði, er hann var
spurður frétta og kunni ekki frá tíðindum að segja.
Hlógu nú allir og gekk svo um hríð, að fólk ræddi
saman og skemmti sér.
Um þetta leyti var það, að þeir fjörumenn riðu í
hlað, svona, með fremur ótilhlýðilegum hraða. Vildi
þá svo til, að Sveinki var að vepjast fyrir utan dyrnar.
Hafði hann lokið við að láta reiðtýgin inn í skemmu
og hugðist ganga í bæinn. Hafði hann þó numið staðar
fyrst til þess að hlusta, hvort hann heyrði ekki til
þeirra félaga. Þóttist hann vita, ef hann heyrði ekki
til þeirra, þá væri sér óhætt að líta inn stundarkorn,
því að hljóðbært var í næturkyrrðinni. Þá ætlaði hann
að hleypa út hundunum, sem höfðu laumazt inn á eft-
ir gestunum. En ef þeir væru úti, myndu þeir vafalaust
gelta, ef þeir yrðu varir við mannaferð.
Sveinki hafði ekki hlustað lengi, er hann heyrir einn
eða tvo menn flengríða heim að bæ. Voru þeir ekki
langt undan og að vörmu spori grillir hann í þá. Og
áður en hann fengi tíma til að brjóta heilann um það,
hvað kynni að valda þessu reiðlagi, eða hvar þeir væru
dráttarhestarnir og sleðarnir, voru þeir Gvendur og
Steini komnir heim að dyrum. Er óþarft að taka það
fram, að þeim félögum var báðum svo mikið niðri fyr-
ir, að þeir veittu hvorki Sveinka eftirtekt, né heldur
því, sem óvanalegt var þó á rúmhelgum degi, að ljós
var í stofunni.
Þegar þeir félagar eða öllu heldur hestarnir höfðu
numið staðar, sneri Steini sér að Gvendi og sagði í
fremur óblíðum róm:
„Ertu orðinn vitlaus, Gvendur?“
„Þú ert vitlaus sjálfur,“ sagði Gvendur.
„Þú fælir undir mér hestinn,“ hélt Steini áfram og
hækkaði röddina, „og kemur svo á eftir mér með alla
anga út í loftið, lemjandi klárinn svo að smellirnir
heyrast langar leiðir. Hvað hefur þetta að þýða?“
„Og hvað hefur það að þýða hjá þér að reyna að
komast heim á undan mér og skilja mig einan eftir í
myrkrinu? Eða vorum við ekki sendir á fjöru saman,
kannske? Áttum við ekki að fylgjast að?“
Það var ekki siður í þá daga þar í Miklahreppi að
hafa glugga opna, sízt í kólgu. Hefði það þótt saga til
næsta bæjar, ef einhver hefði látið sér detta í hug, að
slíkt væri til heilsubótar. Voru baðstofugluggarnir á
Bökkunum engin undantekning frá almennri reglu um
þetta. Engu að síður heyrðist nú ómur af allháværum
röddum inn um gluggann á hjónahúsinu, og varð til
þess, að þau þar inni tóku að leggja við hlustirnar.
Duldist engum, hvorki húsbændunum né prófastshjón-
unum, að úti á stéttinni voru menn í allt annað en hóg-
værum samræðum og notuðu miður kristilegt orð-
bragð. Enda keyrði það svo langt úr hófi fram, að
jafnvel Sveinld auminginn, sem, samkvæmt yfirlýsingu
fyrrverandi húsbænda, hafði ekki nema gripsvit, sá þó,
að við svo búið mátti ekki standa, einkum og sér í lagi
með tilliti til gestanna. En með því að ákafinn var svo
mikill hjá þeim fjörumönnum að tala saman, sá Sveinki
sér ekki annað ráð vænna til þess að vekja athygli
þeirra á sinni ógöfugu persónu en að reka upp gól.
Hittist þá svo á, að hann var staddur rétt fyrir aftan
Gvend. Brá Gvendi svo við hljóð þetta, að hann rak
upp annað gól og sneri sér snöggt við. Varð hann þá
brátt áskynja, hvaðan gólið hafði komið og ætlaði að
fara að hella sér yfir Sveinka, en Sveinki varð fyrri til
að taka til máls og sagði eins hátíðlega og honum var
mögulegt:
„Prófasturinn er kominn.“
Datt nú allt í dúnalogn. Þeim félögum hefði ekki
orðið biltara, þótt þeim hefði verið tilkynnt, að eldur
væri uppi.
„Er prófasturinn kominn?“ sagði Steini.
„Já,“ sagði Sveinki.
Nú varð augnabliks þögn. Svo sagði Gvendur í fyr-
irlitningartón og leit til Steina:
„Hann Iýgur.“
Framhald.
324 Heima er bezt