Heima er bezt - 01.07.1963, Síða 21

Heima er bezt - 01.07.1963, Síða 21
vorbjarta dag á göngunni frá Snorrastöðum að Litla- Hrauni. Og löngun mín til skólagöngu mun hafa kvikn- að þennan dag og logað innra með mér, þar til tæki- færi gafst til skólagöngu fimm árum síðar, er ég var 18 ára að aldri.----- Ég vík þá að minningum mínum frá því að ég var á smalaþúfunni, og smala-ævintýrum mínum. Frá því að ég var 8—10 ára gamall og þar til að ég fór í skóla 18 ára, mátti segja að ég fengist við smala- störf allt árið, einkum þó fram að fermingu. Á sumrin var hjásetan, en vetur, vor og haust sífelld smölun. Sjáv- arhætta fyrir sauðfé er á Snorrastöðum og jók það á ábyrgð og erfiði smalans. Stundum var ég einn við hjásetu og smalamennsku, en miklu oftar vorum við saman tveir bræður, og stundum jafnvel þrír, ef smala- mennskan var erfið. Frá þessum smalaárum á ég margar góðar minning- ar og yfirleitt hef ég gleymt flestu frá þessum smala- árum, sem erfitt var og mótdrægt, en ánægjulegu at- burðimir eru mér lifandi í minni. Sérstaklega er mér minnisstætt frá þessum áram, er ég var svo lánsamur að finna lifandi og geta bjargað úr lífsháska kindum, er fallið höfðu í hraungjótudý eða pytti. Ég mun nú hér á eftir segja frá nokkrum minnis- stæðum viðburðum frá þessum smalaárum. Fyrsta sagan heitir: Lambið í pyttinum. Þetta gerðist fyrstu dagana í október. Veður var kyrrt og hlýtt. Þokuslæðingur til fjalla, en úrkomu- laust. Ég fór ríðandi að heiman til að líta eftir sjónum. Ég átti að gæta þess, að hvergi stæðu kindur eftir á skerjum eða þang-flúðum, því að komið var hörku- aðfall. Ég fór sömu leið með sjónum, og við Helgi Hjörvar höfðum farið á sólríkum vordegi tveimur ár- um áður. Til þess að fullvissa mig um það, að hvergi leyndust kindur á skerjum eða flúðum, fór ég alla leið út að Þrælindisgötu. Rétt þar hjá, sem götuslóðinn liggur út í hraunið, er dálítil tjörn, sem sjór fellur upp í um stórflóð. Að tjöminni liggja fitjabakkar, en for- djúpir skurðir eru víða í bökkunum, sem vatn og sjór hafa grafið í sameiningu. Þeir eru yfirleitt mjóir og sums staðar á þeim jarðbrýr. En sjávarföllin hafa graf- ið út undir skurðbakkana, svo að þar er mjög holbekkt. Þegar ég nálgaðist tjörnina og ætlaði að fara að stugga við kindum, sem voru þarna í hraunjaðrinum, sá ég á höfuð á gimbrarlambi, sem stóð þarna upp úr þröng- um pytti, sem myndazt hafði í skurðbakkanum, en hol- bekkt var undir bakkann. Lambið hafði einhvern veg- inn stungizt á höfuðið ofan í skurðinn, farið á bólakaf, en reldð svo höfuðið upp um gat eða pytt, sem flóð- aldan hafði holað í bakkann. Ég ætlaði strax að kippa lambinu upp úr, en þá var þetta op í bakkann svo þröngt, að mér virtist ómögulegt að ná lambinu þar upp. — Nú voru góð ráð dýr. Ég þorði ekki að ýta lambinu niður í skurðinn, því að ég hélt að það myndi þá ef til vill drukkna í höndunum á mér. Ég hafði ekk- ert í höndunum, nema kollótt prik, og var það einskis nýtt, til að víkka með því holuna. Ég fór þá að reyna að rífa úr börmunum með höndunum, en gat lítið á unnið. Ef ég riði heim, til að sækja skóflu, yrði lambið líklegast dautt, þegar ég kæmi aftur. Þarna var úr vöndu að ráða. Mér fannst þetta fallega gimbrarlamb mæna á mig vonaraugum. Það treysti því víst áreiðan- lega, að ég gæti bjargað. Einhver ofsaleg æsing greip mig. Ég smeygði höndunum niður með hálsinum á lambinu, náði taki í hálsinn og bógana, og togaði af öllum kröftum. Eftir mikil átök og strit tókst mér loks að toga lambið upp um þetta þrönga op. Ég var alveg örmagna eftir átökin og lambið lá eins og lamað á tjarnarbakkanum. Ég náði mér þó fljótlega og fór að nudda fætur lambsins, en það virtist alveg líflaust og ég var dauðhræddur um að það hefði ofreynst við þessi átök. Ég var á þægri og ófælinni hryssu, sem var kölluð Mósa gamla og ég var í hnakk, sem þó var ekki venjulegast í smalamennsku. Nú var ekki um annað að gera, en reyna að koma lambinu upp í hnakkinn og reiða það heim. Lambið var frekar létt, grannvaxið og smávaxið, en þó fullaldra. Ekki síðgotungur. Mósa gamla reyndist stöðug eins og bjarg, og mér tókst að hnoða lambinu upp í hnakkinn. Þá var bjöminn unn- inn. Ég komst upp í hnakkinn og tók svo rennblautt lambið fyrir framan mig á hnakk-kúluna og reið af stað heim. Ég reyndi að fara eins hratt og ég gat, bæði af því að mér varð strax kalt, þar sem ég varð mittis- votur að framan af rennblautu lambinu, og svo var ég enn dauðhræddur um að Iambið dræpist í höndunum á mér, því að það bærði varla á sér. — Þegar heim kom var farið með lambið inn að eldavélinni í eldhúsinu og lagt þar á tvöfaldan þykkan strigapoka. Síðan var lambið þvegið um fætur, kvið og bringu upp úr volgu vatni, og fæturnir síðan nuddaðir. Jafnframt voru hlýir ullarflókar lagðir í nárana og aftan undir bógana. Líka var hellt ofan í það heitu mjólkurblandi. Ekki leið á löngu, þar til lambið fór að hressast. Það fór að teygja úr sér og lyfta höfðinu og að lokum reis það á fætur. Ég varð ákaflega glaður, er ég sá að ekkert var að lamb- inu, en eitthvað fannst mér þó göngulagið einkenni- legt. Pabbi og mamma sögðu, að bezt væri að ég ætti lambið, úr því að ég hefði verið svona lánsamur að bjarga lífi þess. Lambið var síðan tekið á gjöf og látið á auðan bás í fjósinu, og þar var það alið á mat og skrúðgrænu heyi. Það braggaðist fljótt, og þegar lömb- in voru að fullu tekin á gjöf í desember, þá var litla Pytta, en svo var gimbrin kölluð, feit og fönguleg á velli og vænni en hin lömbin. Hún reyndist síðar happa- sæl og ltynsæl ær, dálítið léttræk og bar höfuðið hátt. En alltaf var eins og hún skeiðaði, þegar hún hreyfði sig og var mér stundum strítt með því, að ég hiefði hálf slitið lambið í sundur, þegar ég dró það upp úr pyttinum. Næsta saga heitir: Ærin í Steinholtsdýinu. í flestum sveitum er því þannig farið sunnanfjalls á Snæfellsnesi, að sauðfé sækir til fjalls á vorin, einkum, þegar vindur blæs á norðaustan, og er þá sagt, að það Heima er bezt 245

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.