Heima er bezt - 01.09.1963, Síða 6
ekki bregðast trausti gamla mannsins og sleppti því
ekki nokkru orði úr. Efni þeirra bóka sem lesnar voru
var oft mjög til umræðu, og gætti stundum nokkurra
áhrifa frá persónum sagnanna í viðbrögðum hins dag-
lega lífs. í því sambandi er mér eitt atvik minnisstætt
frá æskuárunum. Þá voru ísaár og lá hafís oft lengi við
land. Vegna grynninga úti fyrir Köllafirði, kom sjald-
an hafís þar inn, en aftur lagði fjörðinn fljótt og var þá
stundum í gljáandi svelli og því hinn bezti leikvangur.
En ekki þurfti að fara lengra en austur fyrir Bæjarnes-
ið, til þess að komast í kynni við hafísinn. Fannst okk-
ur strákunum tilvalið að fara þangað og „kanna þar
lönd og álfur“, eins og við höfðum hlerað eftir í ýmsu
því sem lesið var.
Kvöld eitt í ljósaskiptunum fórum við einir saman
en vissum þó hver um annan. Allt í einu hverfur einn
sjónum hinna. Þar sem vitað var hvert leita skyldi
fannst strákur fljótlega og kom þá í ljós, að hann hafði
runnið út af jaka og ofan í vök, en hafði handfestu á
skörinni, en náði ekki að hafa sig upp úr. Það fyrsta,
sem hann sagði var: „Ekki er Stanley dauður enn.“ Við
drógum félaga okkar upp úr vökinni og héldum svo
skömmu síðar heim, eins og ekkert hefði ískorizt.
En að Stanley var þarna á ferð, kom til af því, að út
var að koma í Þjóðólfi lýsing á ferðum hans í Afríku.
Sennilega hefur hann ekki þurft að riðlast þar á hafís-
jökum, en hann var landkönnuður allt að einu. Mér er
enn í dag minnisstætt með hvílíkri ró drengurinn sagði
þessi orð, á þeirri sömu stund, sem ekki var annað sýnna
en honum væri bráður bani búinn.
Var ekki mikið um slysfarir á þessum árum?
Undarlega lítið, miðað við allar aðstæður. Hörkur og
mikil veður á vetrum, samgöngur erfiðar jafnt á sjó og
landi, og menn oftast illa útbúnir á ferðum sínum. Þó
var eitt slys árið áður en ég fæddist. Slys þetta hvíldi
sem þungur skuggi á sveitinni, en ekki sízt á Brodda-
nesheimilinu, enda átti það um sárt að binda, því þar
fórst Þorsteinn sonur Jóns á Broddanesi, ásamt konu
sinni, mági sínum og fjórða manni, sem Bjami hét.
Þetta fólk var allt frá Skriðnesenni, yzta bæ í norðan-
verðri Bitru. Þetta var átakanlegt slys og mjög óvænt
eftir því sem ég heyrði síðar. Undir rökkur, að kvöldi
hins 1. desember, höfðu þau farið á báti sex saman í
leit að rekavið. Hægviðri var á en báturinn drekkhlað-
irm á heimleið og rakst á sker skammt undan landi. Tal-
ið er að bæði rökkrið og hleðslan á bátnum hafi átt
sinn þátt í því að skerið sást ekki. Einn mannanna, sem
á bátnum var fór upp á skerið til að ýta honum frá, en
um leið og hann losnaði og pilturinn hljóp upp í hann,
kom mikill slynkur á bátinn og honum hvolfdi. Fólkið
komst allt á kjöl, en báturinn venti þá aftur og við það
losnaði allt fólkið frá honum nema tvennt, vinnukona
og vinnumaður á Skriðnesenni, þau bárust með bátn-
um til lands. Sum líkin fundust ekki fyrr en löngu síð-
ar. Þetta þótti átakanleg blóðtaka á einu heimili, að
báðir bændurnir skyldu farast, ásamt konu annars
þeirra. Allt fólk á bezta aldri, og einstætt efnis- og
myndarfólk að talið var. Mágur Þorsteins Jónssonar, er
þarna fórst, hét Matthías, og var ég látinn heita eftir
honum.
Annað sviplegt sjóslys varð á Ströndum norður í
uppvexti mínum. Það varð í aprílbyrjun 1894, er tein-
æringur með 10 mönnum fórst í hákarlaróðri. Skip
þetta var frá Hellu í Steingrímsfirði. Afspyrnurok af
vestri brast á mjög óvænt, og sást það síðast til skips-
ins, að þar var undið upp segl og stefnt í norður og
upp undir Strandir. Nokkru seinna fann annað skip
teinæringinn á hvolfi og lík tveggja skipverjanna á
floti. Lík hinna fundust aldrei. Seinna birtist formaður
skipsins manni nokkrum í draumi og kvað:
Ei var fyrir ógætni
að eg dauðann þoldi.
Blakkarfatið bilaði
báran fyllti og hvolfdi.
Eftir öðrum slysum á Ströndum man ég ekki í upp-
vexti mínum. En bæði þessi slys slógu eins konar skugga
á umhverfið árum saman á eftir, enda guldu sveitirnar
við þau mikið afhroð.
Þú segist hafa verið um 14 ára skeið á Broddanesi.
Já, og leið þar vel eftir öllum aðstæðum. En þegar
ég fór að stálpast, fann ég til munaðarleysisins, og að
ég var fátækur og umkomulaus. I Broddanesi var sam-
komustaður hreppsins. Ég var stundum viðstaddur
manntalsþing og hreppsfundi, og þá var ég næmur
fyrir því, ef minnst var á hreppsómaga eða fátæklinga:
Það brenndi sig inn í sál mína og mér fannst ég vera
einn í hópi þessa lítilsvirta mannfólks, sem einu nafni
var nefnt hreppsómagar. Þessi vanmáttartilfinning mun
hafa haft lamandi áhrif á sál mína, þótt húsbændurnir
í Broddanesi, og heimilisfólkið yfirleitt, væri gott við
mig. Þótt móðir mín vissi mig í góðra manna höndum
þar sem Broddanesfjölskyldan var, féll henni þungt að
geta ekki sjálf annast mig. Sagði hún mér það löngu
seinna, eftir að ég var úr grasi vaxinn og tekinn að
kynnast henni nánar, að oft hafi hún beðið til guðs að
ég þyrfti ekki að gjalda munaðarleysis míns. En móðir
mín var mikilhæf kona og trúuð mjög. Hún varð líka
svo gæfusöm að geta sýnt hug sinn í verki, eftir að hún
komst í nokkur efni, þegar hún hafði gifzt í annað sinn,
þá Skúla Guðmundssyni bónda á Þambárvöllum, að
rétta þeim hjálparhönd sem lágt voru settir. Á heimih
þeirra hjóna áttu munaðarlaus fósturbörn athvarf um
árabil.
Þótt ég hafi ekki átt þess kost að vera samvistum við
móður mína, né njóta umönnunar hennar og líknar-
handa, nema skamma stund ævinnar, á ég ekki nema
ljúfa minningu um hana, má líkja þeirri minningu við
bjarta stjörnu, sem lýsir vegfaranda og beinir honum á
rétta braut. Hún var vitinn á lífsbraut æskuára minna.
Önnur sú kona, sem ég ber meiri þakkarhug til en
flestra annarra óvandabundinna manna, sem ég hef hitt
á lífsleiðinni, var alsystir húsfreyjunnar í Broddanesi,
302 Heima er bezt