Heima er bezt - 01.05.1964, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.05.1964, Blaðsíða 26
ist Þóri. Stúdentarnir voru kjarni hópsins. Þeir voru eins og skrautjurtir í beði. Þórir bað vin sinn að nema staðar. Hann vildi skyndi- lega ekki fylgja þessari fvlldngu eftir — fannst hann til- heyra annarri veröld. Hann horfði á eftir fólkinu. Reyndar sá hann Elínu — en aðeins skamma stund áður en hún hvarf fyrir húsin. Stúdínubúningurinn féll mjög vel að líkama hennar. Hve hann þráði heitt, að hún liti til baka! Hann logaði af þrá — var næstum búinn að hrópa nafn hennar. Hjartað hamaðist í brjósti hans og hann vó sig upp í stólnum, svo að hnúarnir hvítnuðu. En hún leit ekki til baka — og hvarf honum sýnum. Trumbuslögin fjarlægðust, og þeir voru tveir einir eft- ir. Nokkur börn hlupu fram hjá þeim í áttina á eftir fólkinu. Þeir áttu ekki samleið með neinum. Vinur hans sneri við stólnum. Það ískraði í hjólun- um. Síðan ók hann Þóri til baka. Flest bekkjarsystkini hans heimsóttu hann síðar um daginn — en Elín kom ekki. Allan tímann meðan á heimsókninni stóð hvörfluðu augun að dyrunum, í hvert sinn er þær opnuðust. Smám saman settist ein- hver þungi að í brjósti hans, og hann átti erfitt með að verjast honum. Og hann talaði hátt og reyndi að gæta þess, að röddin titraði ekki. Þaú færðu honum fallega myndabók frá Islandi og fleiri gjafir. Og þau lásu fyrir hann einkunnirnar sínar og voru dálítið feimnisleg, ef hann bað þau um að fá að skoða skírteinin. Sum voru dálítið óróleg og gátu naumast dulið þrá sína að komast aftur út í góða veðrið. Þórir var mjög glaður í viðmóti, og orð hans brutu sér leið, sem vaninn hafði skapað. Honum hlýnaði vissu- lega í brjósti, þegar hann fékk gjafirnar, einkum var honum kær gjöfin frá Ásgeiri og Felix — symfoníur Beethovens. Þeir brugðu plötu á fóninn, og tónarnir róuðu hann. Og svo tíndist fólkið í burtu. Sum voru vandræðaleg um leið og þau kvöddu. Þau vildu sýna honum hluttekningu, þrýstu hendur hans og voru mjög hátíðleg. Þetta kom illa við Þóri, og hann vissi, að þau myndu gleyma honum jafnskjótt og þau stæðu aftur úti á götunni. Og hann ásakaði þau ekki fyrir það — skildi þau. Loks voru þeir Ásgeir og Felix einir eftir. Þeir ætl- uðu í ferðalag að morgni — til hins bláa Miðjarðarhafs — til að yrkja og lifa, eins og skáldið orðaði það. Það var hik á þeim, er þeir bjuggust til að kveðja. Loks, eftir að þeir höfðu setið hljóðir um stund, sagði Ásgeir: „Elín kom ekki.“ „Nei, hún er búin að kveðja mig,“ sagði Þórir. „Þú veizt, að hún fer til Danmerkur í fyrramálið.“ Ásgeir kinkaði kolli, og svipur hans lýsti innri tog- :streitu. Hann langaði til að spyrja einhvers. Þórir las hugsanir hans. „Við komum okkur saman um að skilja. Það er bezt U Eftir að hurðin féll að stöfum á eftir þeim félögum, kom þunginn aftur fyrir brjóstið, og það var mjög erf- itt að verjast honum. Kveldið kom og hrannaði vesturloftið skýjum. En það voru þess konar ský, er boðuðu hlýju og góðviðri — það var engin hætta á regni. Sólin hvarf í þykkan feld skýjanna og það var nota- legt rökkur inni í sjúkrastofunni, er leið á kvöldið. Þór- ir lá vakandi og hugsaði um Elinu. Hún var á förum — flygi utan að morgni til að leita frelsis, losna við end- urminningamar, vinna bug á ást sinni — njóta nýrrar. Kannski svæfi hún lítið í nótt — kannski hugsaði hún til hans, en svo rynni morgunninn upp og tilhugsunin um ferðina yrði öllu yfirsterkari. Og svo bæri flugvél- in hana yfir hafið, og stórborgin breiddi loks móti henni gráan faðminn — bjóðandi gleymsku og fögnuð. Hún yrði einmana og ragluð fyrst í stað, unz hún sam- lagaðist umhverfinu. Og svo færi hún að vinna — og um helgar færi hún út á baðströndina — og þar léki vindur og sól um líkama hennar, og sál hennar fylltist nýju lífi — mynd hans strykist út og hyrfi eins og ryk. Þórir varð naumast var við, að dyrnar lukust upp — en hann þekkti fótatakið. Var þetta draumur? Hann sneri höfðinu og sá, hvar Elín gekk til móts við hann. Þau horfðust í augu meðan hún nálgaðist hann, og hann hóf sig upp og beið hennar eins og ekkert hefði í skor- izt. Hún settist og greip hönd hans, og þau voru þögul — og þau horfðu lengi hvort á annað, alvarleg. Skyndi- lega hallaði hún sér upp að brjósti hans og hann kyssti hár hennar. Hún sagði: „Ég varð að koma.“ Hann hristi af sér draummókið og spurði: „Hefurðu skírteinið?“ Hún brosti dauft og fann það í veski sínu. Hann blístraði, þegar hann leit yfir blaðið. „Þú hefur verið með þeim allra hæstu.“ „Ég varð fjórða í röðinni." „Ertu ekki ánægð? Ertu ekki alveg að springa úr monti?“ Hann talaði mikið um einkunnirnar, en hún svaraði fáu, og loks lagði hann skírteinið í kjöltu hennar. „Þú ferð í fyrramálið?“ „Já,“ sagði hún lágt og fitlaði í ákafa við sængur- hornið. „Ertu ekki spennt?“ „Jú, dálítið — kvíði líka fyrir.“ Enn varð þögn, unz hann sagði hressilega: „Ætlarðu ekki niður í bæ að dansa?“ Hún hristi höfuðið. „Þú ætlar vestur?“ spurði hún á móti. „Sagði Árni þér frá því? “ „Já, í gær.“ „Við förum sem sagt sitt í hvora áttina — annað í austur, hitt í vestur,“ sagði Þórir og reyndi að brosa. Hún svaraði ekki — horfði á skýin, sem nú voru tek- ;194 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.