Heima er bezt - 01.06.1964, Side 2
Lýðveldið 20 ára
I þessum mánuði minnumst vér þess, að 20 ár eru lið-
in frá stofnun lýðveldis á Islandi, en með því var skráð-
ur lokaþátturinn í rúmlega 100 ára frelsisbaráttu, enda
þótt fullur sigur í því máli væri að vísu unninn 1. des-
ember 1918.
Svo má kalla, að frelsisbarátta vor hefjist um 1830,
þegar Baldvin Einarsson tekur að rita um endurreisn
Alþingis, og íslenzkir Hafnarstúdentar kalla málfundi
sína Alþingi. Fyrsti sigurinn var endurreisn Alþingis
1843, þótt hvorki fengi það löggjafarvald né fjárráð.
Þá tekur við hin langa, viturlega og þrautseiga barátta
Jóns Sigurðssonar, og lokaþáttur hennar er Stjórnar-
skráin 1874, sem með öllum sínum göllum var þó „fast-
ari trappa til að standa á“, eins og Jón Sigurðsson komst
að orði.
Eftir þann sigur má kalla, að kyrrstaða verði í þess-
um málum í nær aldarfjórðung. Olli því annars vegar
afturhaldssöm stjórn Dana, og hins vegar baráttuaðferð
Islendinga sjálfra, sem nú hafði fengið annan svip en um
daga Jóns Sigurðssonar og einkenndist af samþykktum
en ekki samkomulagsumleitunum, ef einhverju mætti
þoka áleiðis.
Laust fyrir aldamótin tekur hnúturinn að rakna. Val-
tý Guðmundssyni tekst að fá dönsku stjórnina, til að
samþykkja sérstakan íslenzkan ráðherra með fullri
ábyrgð gagnvart Alþingi, þótt sá böggull fylgdi skamm-
rifi, að hann skyldi búsettur í Kaupmannahöfn. En með
þessu komst loks skriður á málið og fyrir atbeina Hann-
esar Hafstein fékkst ráðherrann inn í landið og full-
komin heimastjórn íslenzkra sérmála 1904. Með þeim
atburðum er séð, hversu fara mundi í framtíðinni, og
að ekki verði aftur snúið á braut til fullkomins sjálf-
stæðis, og raunverulega var Sambandslagauppkastið
1908 viðurkenning Dana á því, að ísland skyldi vera
sjálfstætt land. Þótt íslendingar höfnuðu Uppkastinu,
sem oss raunar hlýtur að ýmsu levti að undra, þegar
það er skoðað í Ijósi hlutlausrar athugunar, var það
samt stærsti stjórnmálasigurinn, sem vér fram að þeim
tíma höfðum unnið í deilunni við Dani, og ef til vill
stærsti sigurinn í allri sögu frelsisbaráttu vorrar. Þótt
fall Uppkastsins að vísu frestaði fullveldisviðurkenningu
landsins, mátti nú ganga að því vísu, að hún fengizt,
enda þótt heimsstyrjöld þyrfti fyrst að koma, til að
hrinda málinu áleiðis og koma því farsællega í höfn.
Enginn mun neita því, að samningslipurð og lagni
Jóns Magnússonar forsætisráðherra ætti drjúgan þátt í
úrslitunum 1918. En þó mun þar hafa miklu ráðið um
afstöðu Dana og hversu fúsir þeir reyndust til samninga
og leiðitamari við samningaborðið en 1908, að forystu-
menn þeirra gerðu sér ljóst, að þeim væri ekki lengur
stætt á að halda Islandi í viðjum, ef þeir ættu að endur-
heimta Suður-Jótland í lok heimsstyrjaldarinnar.
Eftir 1918 var ísland sjálfstætt ríki, enda þótt vér
hefðum sameiginlegan konung með Dönum, og Danir
færu með utanríkismál vor, sem hvort tveggja var skyn-
samlegt eins og enn stóðu sakir um mál vor. Engum
mun þó hafa dulizt, að hér væri einungis um bráða-
birgðaráðstöfun að ræða, eins og uppsagnarákvæði Sam-
bandslaganna ber ljósast vitni. Lýðveldið hlaut að koma
fyrr eða seinna og baráttulaust. Stofnun þess var rök-
rétt og óhjákvæmileg afleiðing þess sem gert var 1918.
Deilur þær, sem urðu við stofnun þess, voru aðeins
formlegs eðlis, hvort rætt skyldi við hinn aðilann eða
eigi. Úrslit málsins hefðu orðið hin sömu, þótt svo hefði
verið gert.
Þegar lýðveldið var stofnað, geisaði heimsstyrjöld, og
land vort var hersetið. En það gerði gæfumuninn, að
það var vinsamlegur her, landinu til vamar en ekki til
að þrúga undir sig landsfólkið. Fullvíst má telja, að her-
nám Breta og síðan hervernd Bandaríkjamanna hafi
forðað þjóðinni frá ósegjanlegum hörmungum, sem
leitt hefðu af þýzkri innrás í landið. En um leið og vér
æsktum herverndar Bandaríkjanna hurfum vér frá hinu
yfirlýsta hlutleysi frá 1918, sem reynslan hafði sýnt að
var haldlítil skjólflík, þegar til átaka kæmi. En um leið
tryggðum vér oss viðurkenningu Bandaríkjanna á vænt-
anlegu lýðveldi voru og stuðning þeirra, til að fá önn-
ur ríki til að gera hið sama. Atburðir þeirra ára sýndu
oss ljósast samstöðu vora með hinum vestrænu þjóðum,
og að menning vor, stjórnarhættir og hagsmunir skipa
oss í þeirra sveit og annars staðar ekki.
Tuttugu ár eru liðin af lýðveldi voru. Ar mikillar
sögu og viðburða. Framfarir og breytingar í þjóðlífi
voru hafa orðið með ævintýralegum hraða. Fólkinu hef-
ur fjölgað ört og velmegun aukizt, svo að þar erum vér
nú í fremstu röð meðal þjóðanna. Oss hefur lærzt í rík-
ara mæli en áður að hagnýta oss tækni og vísindi nútím-
ans, þótt margt sé ólært enn, enda tekur það meira en
20 ár að losast undan baslhagmennsku og brjóstviti og
taka upp vísindaleg vinnubrögð. Vér höfum tekið
margvíslegan þátt í samskiptum við aðrar þjóðir. En
minnisstæðast í þeim efnum verður þó sigur vor í land-
helgismálinu, sem vakti athygli vítt um heim.
206 Heima er bezt