Heima er bezt - 01.06.1964, Side 20
GUNNAR MAGNÚSSON FRÁ REYNISDAL:
Jón Þorsteinsson frá Reynisdal
Mér fannst gott og gagnlegt að lesa og læra
ljóð Steingríms Thorsteinssonar, þá er ég var
drengur í barnaskóla. Ég heyrði eitthvað tal-
að um það af eldra fólkinu, að hann hefði
verið ættaður úr Mýrdal, og að þar ætti hann frændfólk.
Þetta staðfestist síðar, þá er ég eltist og fór að kynna
mér ættir og uppruna sveitunga minna.
Einn var sá maður, er mér varð ærið hugleikinn, ekki
sízt vegna ættar hans, og einnig það, að hann hafði bú-
ið á undan föður mínum Magnúsi Finnbogasyni á æsku-
heimili mínu Reynisdal. Maður þessi var Jón Þorsteins-
son í Vík, áður kenndur sem bóndi við Reynisdal í
Mýrdal.
Árið 1755, 25. september, lögðu bræður tveir upp í
ferð norður í Skagafirði, og var ferðinni heitið suður
á land allt austur í Mýrdal. Bræður þessir voru Jón
Steingrímsson, síðar prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu,
og Þorsteinn Steingrímsson, síðar bóndi í Kerlingardal
og lögréttumaður.
Ferð þeirra bræðra greiddist sæmilega, eftir því er
Jón Steingrímsson lýsir í ævisögu sinni. Þó mun þeim
hafa þótt sums staðar nokkuð skorta á móttökurnar og
fyrirgreiðsluna. Þeir bræður munu hafa verið harðfeng-
ir og duglegir ferðamenn og eigi látið smámuni aftra sér
frá að ná settu marki. Á Sólheimum í Mýrdal gistu þeir
til dæmis í kirkjunni sína fyrstu nótt í Mýrdal, en för-
inni var heitið að Hellum, og þar skyldi um veturinn
setið, hvað og varð.
Einar bóndi í Hellum fékk þeim til íveru „skemmu-
stofu“ vestan bæjardyra, svo sem síra Jón segir frá. Var
það hellir höggvinn inn í sandberg. Telur prófastur að
þeir hafi átt þar ágætt og rólegt líf um veturinn. En um
vorið fóru þeir aftur norður að sækja búslóð sína. Þor-
steinn Steingrímsson varð svo bóndi í Kerlingardal og
lögréttumaður, svo sem að framan greinir.
Jón Þorsteinsson var fæddur 9. ágúst 1864. Faðir hans
var Þorsteinn Einarsson bóndi í Suður-Hvammi í Mýr-
dal og síðar í Reynisdal, fæddur 17. janúar 1834, Ein-
arssonar Þorsteinssonar Steingrímssonar bónda í Kerl-
ingardal. Var Jón Þorsteinsson þannig 4. maður frá og
með Þorsteini lögréttumanni í Kerlingardal frá Frosta-
stöðum í Skagafirði.
Bróðir Einars Þorsteinssonar í Kerlingardal var Bjarni
amtmaður Þorsteinsson á Amarstapa, faðir Steingríms
skálds og rektors Thorsteinssonar.
Jón Þorsteinsson var því í beinan karllegg, eins og
Steingrímur skáld, kominn frá Steingrími bónda á
Frostastöðum í Skagafirði. Eru þær ættir raktar fram
til Finnboga lögmanns í Ási og Jóns Arasonar, biskups
á Hólum, og skal þar eigi fleira um sagt, þar sem um
svo kunnar ættir er að ræða.
Þorsteinn Einarsson bjó í Suður-Hvammi og Reynis-
dal. Með honum ólst Jón sonur hans upp og tók síðar
við búi af honum á síðarnefndri jörð. Þorsteinn þótti
bóndi góður á þess tíma mælikvarða, að því er ég
heyrði frá sagt. Túnaslétta var eigi upptekin um hans
daga, svo að talizt gæti. En það sýndi framfarahug Þor-
steins að hann hlóð túngarða á téðri jörð, mikla að vöxt-
um. Kom það í minn hlut að bylta þeim löngu síðar, þá
er „færðar voru út kvíarnar“ af föður mínum. Þorsteinn
jók við tún sitt með útfærslu. Það stykki skírði hann
Mosdal. Var það flötur um einn hektari að stærð. Þar
hafði hann kvíar sínar og stekk.
Þessi framkvæmd Þorsteins þótti eigi vel né rétt ráð-
in af umsitjendum, því að þama var um óskipt sam-
eignarland að ræða. Þorsteinn hélt þó því, er hann hafði
numið, og svo fór, að jörðin hækkaði í landverði, frá
því er hið forna mat kvað á um jarðarverð Reynishverf-
inga, og mun ýmsum hafa þótt gengin úr skorðum sú
hefð, er þar var á höfð.
Jón sonur hans tók svo við þessari jörð síðar, þá er
Einar Brandsson svili hans hóf búskap að Reyni. Munu
þeir, Jón og hann, hafa haft makabýti í jörðum þarna
í Hverfinu, sem svo var kallað. Að minnsta kosti varð
það svo, að Einar fór frá Reynisdal að Reyni, en Jón
Þorsteinsson að Revnisdal, á sína föðurleifð. Reynis-
holtið mun þar einhvern þátt hafa átt í þessum maka-
býtum.
Reynisdalurinn var ekki neitt höfuðból, aðeins fjög-
ur hundruð hundraða að fornu mati, byggt út úr Reyn-
unum eins og aðrar jarðir í Reynishverfi. Þó var það
orðið svo, að landverð „Dalsins“ jafnaðist á við höfuð-
bólið Reyninn í tíð föður míns að síðara tíma mati á
jörðinni. Sú var hans sókn.
Jón átti í Reynisholtinu part, sem hann heyjaði að
Reynisdal. Var þar um að ræða góðar slægjur, svo sem
bæði tún og „ósengi“. Dyrhólaós varð venjulega á hverj-
um vetri að uppistöðu, þá er hafbrim hlóðu í útfall hans.
Flæddi þá „ósinn“ yfir víðáttumiklar engjar, er að hon-
um lágu.
224 Heima er bezt