Heima er bezt - 01.03.1965, Qupperneq 9
skammt frá Þingvallaskólanum. Næstum því hvert
mannsbarn, ungir og gamlir, voru í álfabúningum, og
var það stórævintýraleg sjón, að sjá þá vappa og dansa
kringum bálið, sem varpaði birtu yfir sjónarsviðið og
gaf frá sér talsverðan hita, kærkominn í hinu bitra
frosti.------
Áfram héldum við ferð okkar í unaðslegu veðri, í
sólskinsblíðu og við síbreytilegt landslag. Við fórum
eins og leið lá um bæi og þorp fram með Mantóba- og
Norðvesturlandsjárnbrautinni og fórum þá tvisvar yfit
Assiniboine-dalinn. Handan við Millwood lá leið okk-
ar um bæina Binscarth, Birtle, Newdale og Basswood.
í dalnum urðu fyrir okkur fágætlega fagrir staðir, eink-
um í grennd við Birtle og Binscarth. Þegar upp á jafn-
sléttuna kom, sá til annarrar áttar hæðaröð með græn-
um hlíðum og skógartoppum, en til hinnar fljótið, sem
liðaðist eftir dalnum. Þetta var dásamlegur landssvipur.
Sjálf sléttan sýndist okkur óendanleg flatneskja, þegar
við örkuðum þarna áfram mílu eftir mílu.
Enn hvarflaði hugur minn til Þingvallabyggðar, og
staldraði þá einkum við tvo hörmulega atburði. Annar
þeirra var sá, að uxi stangaði niður konu og leiddu
meiðslin hana til bana. Hún var að því komin, að ala
bam. Fyrir furðulega snilli ljósmóðurinnar, Guðrúnar
Guðmundsdóttur, bjargaðist barnið og varð fulltíða
stúlka. Hinn atburðurinn var ekki síður lamandi ömur-
legur. Stúlka beið bana af byssuskoti. Sé ég mér ekki
fært að fara út í einstök atriði þessu viðkomandi — það
hefur alltaf verið hulu hjúpað, enda aldrei rannsakað
til hlítar. Einnig í þetta sinn flýttu menn sér að sækja
Guðrúnu ljósmóður, en viðleitni hennar bar þann einn
árangur, að lina þjáningar og skelfingu deyjandi stúlk-
unnar. Kallað var símleiðis á tvo lækna, — Walter frá
Millwood (30 mílur) og Patrick frá Saltcoats (22 míl-
ur) — en hvorugur þeirra kom í tæka tíð.
Þetta var stillt, prúð og siðsöm stúlka, — vinnukona
á heimilinu, þar sem harmsagan gerðist. Hvert manns-
barn fann sárt til með foreldrunum í sorg þeirra. Allir,
ungir og gamlir, fóm að jarðarförinni í byggðargraf-
reitnum. Séra Hafsteinn Pémrsson jarðsöng og flutti á
sinn kyrrláta og fyrirmannlega hátt svo hrífandi fagra
ræðu, að mér finnst ég aldrei hafa heyrt aðra þvílíka,
hvorki fyrr né síðar. Það var grípandi sjón, að sjá
þennan mikla mannsöfnuð þarna uppi í sólvermdu að-
líðandi brekkuhallinu — hvert höfuð hneigt í djúpri
lotningu og í hryggum kveðjuhug til þessarar saklausu
og elskulegu ungu stúlku.--------
Og sem við þrömmuðum fram hina löngu leið, komu
yfir mig alvarlegar hugsanir um framtíð mína í nýjum
heimastöðvum. Hér virtist ég kominn á vegaskil. Nú
mundi braut mín liggja burt frá hinu frjálslega og
ánægjulega samneyti manna í Þingvallabyggð. Eg var
að kveðja æsku mína, og fyllti það mig bæði söknuði
og óhug. Um hið ókomna gat ég gert mér getgátur
einar. Framundan var óþekkt hérað, óþekkt fólk, allt
nýtt og öðruvísi.
Undir rökkur á 8. degi fórum við í gegnum bæinn
Gladstone og áðum hálfa mílu fyrir austan hann.
Göngumóð hjörðin lagðist strax, og við kúrekarnir
köstuðum okkur líka niður til að fá úr okkur mesta
lúann. Við vorum allir fegnir að teygja úr okkur á
jörðinni í ylnum af hinu geislahalla miðaftanssólskini.
Járnbrautin þandi sig í norðvestur svo langt sem augað
eygði.
Eftir klukkustundarhvíld fórum við enn 2 mílur í
sömu átt og áður, en sveigðum svo til vinstri og þrædd-
um slóðina í norðausturátt, unz við komum að White
Mud-ánni (Hvítu-Leirá) og tókum þar náttstað. Lágt
var í ánni og reyndist okkur yfirförin auðveld, er við
lögðum upp að morgni. Lá nú leiðin austur yfir breiða
og eyðilega sléttu, en síðan tóku við kjarrsvæði og
fremur hrjóstrugt land.
Á þessum slóðum vorum við, þegar við urðum þess
varir, að vagn kom á eftir okkur með brokkandi sam-
eyki fyrir. Kom í ljós að sá, er ók, hét Fred Hill og átti
heima í Vatnslandanýlendu. Sagði hann okkur, að enn
ættum við 8—10 mílur ófarnar heim að Henderson-
nautabúinu. Hann lét þess og getið, að faðir minn væri
búinn að reisa allstóran bjálkakofa á hinni nýju bújörð
sinni. Maður þessi virtist hinn almennilegasti og lét í
ljós ánægju sína yfir því, að við værum að flytjast í
byggðina.
Enn keifuðum við áfram, og um nónbilið náðum við
ákvörðunarstaðnum — eftir 9 daga ferð yfir 200 mílna
veg (um 320 km). Pabbi var að höggva til hlöðubjálka,
en flýtti sér þó til móts við okkur, og von bráðar vor-
um við setztir að góðum mat og góðu íslenzku kaffi.
Þetta var ánægjulegur samfundur. Fullorðnu menn-
irnir þrír áttu fjörugar samræður og sögðu frá land-
nemareynslu sinni. Við Marsi skildum skjótt við þá og
fórum að skoða okkur um. Lágt og flatt engiland lá
þarna mílu vegar í austurátt, allt að bakka M anitóba-
vatns. Þannig lauk ferðinni.
III. í MANITÓBA - FRÁ 1893 TIL 1948.
Þama, á hinni gömlu svonefndu Sandy Bay-slóð
(Sandfjarðar-slóð), sem lá upp að Indíána-séréttar-
svæðinu 14 mílum norðar, gátum við séð djúpu hjól-
förin eftir Rauðár-kerrurnar, unz þau hurfu sjónum í
fjarska.
Lágt var í vatninu og svæðið niður að fjörunni var
skrælþurrt, — þar var ekki sú deigja til, að við gætum
vöknað í fætur. (Sjö ámm síðar, aldamótaárið, hafði
hækkað svo í vatninu, að ef ekið var út á vatnsbakk-
ann, rann vatnið upp í kerrukassann).
Fátt gerðist til tíðinda dagana næstu eftir komu okk-
ar til Vatnslanda. Marsi fékk vinnu á nautabúinu og ég
hafði nóg að gera við að hjálpa föður mínum við hlöðu-
fjósbygginguna. Jón Guðmundsson hélt til hjá okkur,
meðan hann beið þess, að kona hans og dætur kæmu
Heima er bezt 89