Heima er bezt - 01.03.1965, Qupperneq 11

Heima er bezt - 01.03.1965, Qupperneq 11
STEINDOR STEINDORSSON FRA HLOÐUM: A ORÆFASLOÐUM í BLÁGILJUM. Við erum í Blágiljum á Síðumannaafrétti. Kofinn, sem nú er bækistöð okkar, liggur í dálitlum krika und- ir Eldhrauninu mikla, nálægt miðja vegu milli byggða og jökuls. Við kofann er skýlt og hlýlegt, grasi gróinn bali milli hrauntanganna og tær lækjarspræna lengra burtu, sem bæði er vatnsból okkar og þvottaskál. Ut- sýn frá Blágiljakofa er ekki mikil, ávalar hæðir með grónum brekkum byrgja sýn til norðaustursins, en sunnar eru víðáttumiklir mýrlendisflákar, ágætis hag- lendi, en lengra burtu rísa hæðir Kaldbaks og Geirlands- hrauns, og að baki er Eldhraunið með öllum sínum kynjamyndum. Kofinn er af eldra taginu. Mannvistin er uppi á lofti en hesthús undir. Járnþak er yfir, svo að ekki er hætta á leka. Slíkir kofar þóttu lúxusíbúðir á fjöllum fyrir 30 árum. En nú gerast þeir úreltir. Nýr tími með bíla- slóðum um fjöllin, krefst betri vistarvera, enda léttara að flytja byggingarefni en áður var. Og við höfum komið í bílum upp í Blágil, og gistum síðustu nótt í nýtízku skála undir Leiðólfsfelli. Annars liggur bíla- slóðin upp frá Skaftárdal, um mýrafláka og móabörð fram með Leiðólfsfelli, síðan norður undir Hnútu og loks yfir Eldhraunið þvert vestur af Blágiljum. Annars er hraunið enn víðast hvar illfært eða ófært hverri skepnu, þótt orðið sé nær 200 ára gamalt og víðast hul- ið þykkri mosabreiðu, sem raunar gerir gönguferðir um það sízt minna þreytandi en þar sem bruninn er nakinn. Þeir Síðumenn höfðu nú nýlokið vegagerðinni, svo að við urðum fyrstu ferðamennirnir, sem ókum hinn nýrudda veg. En vart trúi ég öðru en margir eigi eftir að fara hann, því að margt er forvitnilegt á þess- um slóðum. Það er áliðið kvölds og félagar mínir eru sofnaðir eftir langan vinnudag, miklar göngur og erfiðan akstur. „Mér finnst eins og handleggirnir séu að slitna af mér,“ hafði Palli sagt, þegar „trukkurinn“, sem hann ók, hoppaði og sentist til á hraungrýtinu á hinum nýrudda vegi. Og ég rengdi hann ekki. Mér þótti satt að segja nógu þreytandi að „stritast við að sitja“ við hliðina á honum, og kastast til með bílnum. En þótt ég finni til stirðleika í skrokknum og nokkurrar þreytu eftir að hafa labbað norður á Hnútu og víðar, get ég ekki sofnað. Minningarnar leita á mig. Fyrir 27 árum gisti ég þenna sama kofa. Þá vorum við Pálmi Hannesson þar í rann- sóknarleiðangri, ásamt fleiri mönnum. Veðurguðirnir voru okkur fjandsamlegir. Af 12 dvalardögum var ekki fært vinnuveður nema 4 eða 5 daga og þó ekki alla heila. Eða regnið, slíkt úrhelli hef ég aldrei reynt fyrr né síðar, samltvæmt mælingum okkar, að vísu ekki ná- kvæmum, komst það yfir 90 mm einn sólarhringinn, sennilega var það þó heldur meira. Ekki var komandi út fyrir ltofadyrnar nema alskinnklæddur. Eftir það töluðum við Pálmi um Blágiljaveður, ef við þurftum að jafna til hins versta, sem við þekktum í veðurfari. En það er þó ekki minningin um illviðrið, sem held- ur fyrir mér vöku. Nær væri að rifja upp sólskinsdag- inn, sem við riðum upp að Laka, og útsýnið þaðan yfir gígaröðina miklu og hraunstorkuna frá 1783. Þá komst ég í fyrsta sinn í snertingu við atburði þess tíma. En samt er það allt annað en þetta sem leitar nú á hugann. Þótt einungis séu 27 ár, síðan við lágum þarna félag- arnir, finnst mér eins og heil öld sé liðin, og ég sé dag- aður uppi sem forngripur liðins tíma, sem raunar ætti miklu fremur heima meðal hraunkarlanna úti í Skaftár- hrauni, en þarna í hópi ungra ferðamanna. Förunautar mínir, sem sofa þarna í svefnpokum sínum í kringum mig, voru flestir ófæddir, en hinir þeir elztu á bams- aldri, þegar ég var þarna síðast. Farangurinn, sem er í kringum okkur, hefði þótt harðla furðulegur á öræfum þá, kosangas-suðutæki, borð til að matast við og ferða- Laki. Heima er bezt 91

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.