Heima er bezt - 01.03.1969, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.03.1969, Blaðsíða 35
Helena leit í kringum sig og sá tvö íbúðarhús, annað nýtízkulegt en hitt sýnilega eldra, ásamt mörgum peningshúsum. „Býr Gunnar í þessu?“ Hún benti á nýlegra húsið. „Já, en hann er áreiðanlega ekki heima núna. Krakkakippan hans er vön að sjást.“ „Á hann marga krakka?“ „Heil fjögur stykki.“ „Það eru nú ekki nein ósköp.“ „Jæja, langar þig að eiga annað eins?“ „Mig? nei, ég ætla ekki að eiga nema tvö.“ „Nei, veiztu nú bara hvað, Helena, ég ætla að eiga þrjú!“ Þau hlóu bæði, um leið og þau sveifluðu sér út úr bílnum. Afi, sem stóð fyrir utan eldra íbúðarhúsið, há- vaxinn, festulegur með gráirjótt, úfið hár, horfði undrandi á komufólk. „ívar Björnsson, þú hefur nú verið sjaldséður gest- ur í seinni tíð,“ sagði hann dálítið hrjúfri rödd. „Komdu sæll, drengur minn.“ Hann hristi hönd- ina á ívari. „Og hver er nú þetta?“ Hann leit spurnaraugum á Helenu. „Kærastan mín, hún heitir Helena.“ ívar ýtti henni fram fyrir sig stoltur á svip. Afi hvessti stálgrá augu sín á Helenu, og henni datt ósjálfrátt í hug norðanvindur og hann hvass. „Komdu sæl, telpa mín,“ sagði afi með tón, sem hann hefði notað við tíu ára barn. „Ég óska til hamingju,“ bætti hann við og tók aftur í hönd ívars. „Þú hefur ekki ætlað að hafa hana of gamla,“ sagði hann. „Það væri nú lítið vit í því,“ anzaði ívar og brosti til Helenu. Hún endurgalt bros hans, en gretti sig dálítið um leið. Þau fylgdu afa eftir inn í húsið og höfnuðu í snyrtilegu, fremur gamaldags eldhúsi. Þar var amma fyrir, smávaxin og kvik í hreyfingum. ívar kynnti Helenu fyrir henni og amma óskaði þeim báðum til hamingju með kossi. Þegar kveðjurnar voru afstaðnar settust ívar og Helena við eldhúsborðið, og amma bar þeim kaffi. Gömlu hjónin spurðu frétta af foreldrum ívars og hann leysti úr spurningum þeirra, eftir beztu getu. Þegar það umræðuefni var þrotið varð löng þögn. Afi stóð við gluggann á svipinn eins og hann væri sífellt að hlusta eftir einhverju. Loks gat hann ekki orða bundist: „Ég er nú alveg orðinn gáttaður á manninum.“ „Hann hefur eitthvað tafizt,“ sagði amma. „Meir en lítið. — Við verðum að fara að byrja á mjöltunum. Við hreytum þó alltaf úr nokkrum kúm, þó að maður sé orðinn ónýtur að mjólka með höndunum.“ „Ef við bara hefðum haft hugsun á, að læra á mjaltavélina,“ andvarpaði amma. „Hvernig átti manni að detta í hug, að maðurinn hugsaði ekki um að mjólka sínar eigin beljur,“ sagði afi úrillur. „Er Gunnar ekki heima?“ spurði ívar. „Ó, nei. Hann fór að heiman í morgun með alla fjölskylduna og hefur víst tafizt eitthvað meira en lítið,“ anzaði afi. „Eruð þið með margar kýr?“ spurði Helena. „Þó nokkrar,“ svaraði afi æði stuttur í spuna. — Skyldi hún vita, hvar júgrið er á kúnum?, hugsaði hann. Gömlu hjónin fóru að tygja sig í fjósið og ræddu um það sín í milli, að það væri nú meiri klaufaskap- urinn af þeim, að hafa ekki lært á mjaltavélina. Þá reis Helena á fætur. „Ég hugsa, að ég geti mjólkað með vélinni,“ sagði hún. Affi og amma litu agndofa á hana, jafnvel ívar var efablandinn á svipinn. „Það er nú ekki sama, hvar hún er sett á,“ hraut út úr afa. Honum ofbauð framhleypnin í manneskj- unni. „Ég hef alltaf kunnað bezt við að setja hana á júgrið. Gerir Gunnar það kannske líka?“ sagði hún grafalvarleg. Afi og amma litu hvort á annað og brostu, en ívar skellihló. „Þið þurfið ekki að vantreysta Helenu, þegar hún talar í þessum tón. Þá eru henni allir vegir færir,“ fullyrti hann. Afi og amma voru samt svolítið vantrúuð á svip- inn, en Helena eyddi síðustu efasemdum þeirra með því að segja: „Ég er úr sveit, skiljið þið.“ „Ertu úr sveit,“ endurtóku þau einum rómi, og Helena fann, að hún hafði hækkað um þó nokkra þumlunga í áliti hjá þeim. ívar náði í farangur þeirra út í bílinn, og eftir Heima er bezt 103

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.