Heima er bezt - 01.08.1977, Síða 18
við hefðum verið góðir drengir og duglegir. Og við
vorum mjög ánægðir eftir þessa ferð, því nú kom ærin
ekki framar í túnið, og við vorum frjálsari en áður.
Nú kom sá tími, að farið var að smala og rýja geldfé,
og ær teknar og farið að stía. Var farið snemma á
stekkinn á morgnana og mjólkað dálítið úr ánum. Það
munaði vel um þann sopa í búið. Og fjarska voru litlu
lömbin ánægð, þegar þau voru að sjúga mæðurnar, sár-
þyrst og svöng eftir nóttina.
Það þótti skrítið, að ærin sem við rákum úr túninu,
kom ékki þegar smalað var. Og alltaf þótti vont, þegar
vantaði einhverja ána, sem átti að færa frá. Og þannig
leið sumarið, að ekki sást ærin.
Nú var komið haust, og byrjaðar göngur og réttir, en
ekki kom ærin. Þetta fór nú að þykja dálítið dularfullt
með ána, og var okkur strítt á því, að við hefðum kom-
ið henni fyrir björg eða í sjóinn. En við bárum það af
okkur eftir beztu getu.
Loks kom ærin í leitirnar í annarri göngu, í öllu
reyfi og með fallegu lambi. Við strákarnir urðum glað-
ir, og allir hlógu og sögðu, að við mundum hafa lesið
eitthvað kröftugt yfir henni að skilnaði. Það getur vel
verið, að við höfum eitthvað sagt við hana, en þó tæp-
lega svo, að hún hafi tekið það til sín.
III.
Flutt að Svínhólum.
Nú var ég búinn að vera sjö ár á Hvalnesi. Fóstri
minn hafði keypt jörð, hálfa Svínhólana, og var búinn
að byggja þar baðstofu, sem var tilbúin að flytja í hana.
Síðasta vetrardag var lagt af stað gangandi með kýrn-
ar, og ég var látinn labba með. Þetta er tíu kílómetra
leið. Það var kalt í veðri, norðanátt og frost. Og þá var
kaldur sumardagurinn fyrsti. Þá var komið með æki
eftir Lóninu á vetrarís, og var mikið að hann skyldi
vera hestheldur á Lóninu um sumarmál.
Þá var ég nú kominn að Svínhólum, og þar átti ég
heima í 50 ár. Ekki var baðstofan stór, en mér þótti
hún falleg með hvítri súð úr nvjum viði. Utihús voru
fá og léleg, og tún lítið og þýft. Þetta var lítil tvíbýlis-
jörð, 30 hestar af töðu af hvoru túni, og lélegar engjar.
Guðmundur og Guðrún bjuggu í Suðurbænum, og
kom ég oft til þeirra. Þetta voru sómahjón. Margt
þurfti ég að skoða á þessum nýja stað. Þetta var í þjóð-
braut og oft gestkvæmt. Sá ég því marga menn, sem
ég hafði aldrei áður séð. Og það var alltaf gaman að
sjá ókunnugt fólk, skoða það og meta. En varla hefi ég
nú verið mikill mannþekkjari þá. Samt fannst mér lífið
tilbreytingaríkt, og sjóndeildarhringurinn dálítið að
víkka, og vitið smásaman að aukast.
Þá var fært frá ánum á öllum bæjum. Ég fór að sitja
yfir ám, þegar ég var átta ára. Mikið vorkenndi ég án-
um og sérstaklega þó blessuðum lömbunum fráfærna-
daginn. Það var mikill harmagrátur. En það var sæld-
arlíf fyrir heimafólkið, þegar búið var að færa frá. Þá
var nóg af skyri og smjöri, og þá var mikið fengið. En
258 Heimci er bezt
þetta var ekki erfiðislaust fyrir mjaltakonurnar og
smalana.
Það var mikil bót í máli, að við sátum tveir yfir án-
um, eldri drengur úr Suðurbænum. Og mikið þótti
okkur gaman, þegar við hittum smala af næstu bæjum.
Þá var nú skemmt sér vel, og tíminn fljótur að líða. En
stundum var maður illa hrakinn og niðurdreginn í rign-
ingum og rosaveðri.
Hjásetudalurinn heitir Össurardalur. Það er lítill
dalur og fallegur, og þar á ég margar góðar endurminn-
ingar. Þar eru sex fossar. Og fossar eru alltaf tignar-
legir. Maður lítur upp til þeirra og hlustar. Það er eins
og þeir breyti um tón í sífellu.
Öll örnefni hafa við eitthvað að styðjast. Sá hefir
kannske heitið Össur, sem fyrstur bjó í Svínhólum. Ég
veit ekkert um það. Svo eru tvö örnefni önnur, sem ég
ætla að minnast á. Það eru Kollafell, Kollahellir,
Oddnýjarhjalli og Oddnýjargil. Munnmælasaga segir,
að þau hafi verið hjón, Kollur og Oddný, og benda
þessi örnefni til þess.
Það er sagt að Oddný hafi orðið úti á Oddnýjar-
hjalla. Hún hafi verið að smala sauðum, og veður
hörkuvont, en illa fyrirkölluð, hafi átt barn fyrir
skömmu, og bóndi hennar ekki heima. Það mótar fyrir
tóttum í Kollafelli, en Kollahellir er fyrir vestan bæinn
á Svínhólum.
Þegar ég var strákur fyrir innan fermingu, var ég
hræddur að koma nálægt hellinum, sérstaklega þeg-
ar dimma tók. Svona mikið flón var ég þá. En síðan
ég varð fullorðinn, hefi ég oft leitað þar skjóls.
IV.
Framfarir hefjast upp úr aldamótunum.
\
Um aldamótin 1900 voru ekki fjölbreytt vinnutæki
á sveitabæjunum. Ég man eftir torfkrókunum, sem
flutt var í byggingarefni til húsagerðar, og laupunum,
sem áburður á tún var fluttur í, þar sem ekki var hægt
að koma við hjólbörum. Nokkru eftir aldamót voru
kerrur komnar á stærri heimili, og þóttu það miklar
framfarir. Síðan færðist þetta smásaman í áttina, að allir
bændur eignuðust kerru og aktýgi, og voru það mikil
þægindi.
Skömmu síðar var stofnað Búnaðarfélag í hreppnum,
menn fóru að girða túnin og slétta þau. Það þótti mikill
munur, þegar þúfurnar hurfu. Og mikill var munurinn
eftir það að slá og hirða af þeim. Framfarirnar voru
hafnar.
A fyrsta tug aldarinnar dóu fósturforeldrar mínir.
Þá tók við búinu Þorleifur sonur fóstra míns og Ragn-
hildur Guðmundsdóttir úr Suðurbænum, sem varð kona
hans. Sigmundur Guðmundsson og Guðný systir Þor-
leifs fóru að búa í Suðurbænum.
Það var mikill mannfagnaður í Svínhólum þegar þessi
tvenn hjón giftust þannig á víxl. Fjöldi fólks var í
veizlunni og skemmti sér vel. Ég var í mörgum brúð-
kaupsveizlum og þótti það fjarska gaman. Það var