Heima er bezt - 01.08.1977, Síða 22
/
finna kunningja minn, og mæti ég þá manni, sem ég
þekkti vel. Þetta var gamall sjómaður, sjóndapur eða
nærri blindur. Ég býð honum góðan daginn. Hann
tók undir og segir síðan:
„Þér eruð auðvitað að fara í sjúkravitjun.“
Ég sagði já, og mér fannst þetta ósköp saklaust, þótt
ég færi ekki að leiðrétta þessa vísu. Svo fór hann og
sagði um leið: „Já, það eru alltaf einhverjir veikir.“
IX.
Rey kjavíkur-ferðir.
Oft hefi ég farið til Reykjavíkur, í fyrsta sinn 1915,
og þá með skipi að haustlagi. Ég kom þangað að kvöldi
dags, og fannst mér tilkomumikið að sjá alla ljósadýrð-
ina. Nú var ég kominn á ókunnugan stað, og það til
og með höfuðstað landsins. Margt var þar að sjá og
skoða, og allt var þetta svo óvanalegt fyrir sveitadreng.
Með mér voru þrír kunningjar mínir frá Djúpavogi.
Þeir komu mér til gistingar hjá Hjálpræðishernum, og
gekk það allt vel.
Um nóttina svaf ég í herbergi ásamt sex mönnum
öðrum, ágætis mönnum, en mér ókunnugum. Þeir vör-
uðu mig við því, að láta ekki á mér bera, þó einhver
kæmi inn um nóttina, við skyldum þá allir látast sofa.
Ég var þessu auðvitað samþykkur, þótt ég vissi ekkert,
hvað þetta ætti að þýða.
Það leið þó ekki lengi, þar til gengið var allharkalega
um, hurðin opnuð, og inn gengur þreklegur maður í
óhreinum fötum og óhreinn um hendur. Ég hafði að-
eins annað augað opið til að sjá, hvað nú gerðist frek-
ar, en allir félagar mínir létust sofa.
Nú gengur komumaður að rúmunum, hverju eftir
annað, og þreifar á sumum. Og loks kemur hann að
mínu rúmi. Ég kreisti aftur augun dauðhræddur og lét
ekkert á mér bæra. Maðurinn sezt á rúmstokkinn hjá
mér og þreifar á mér. Síðan fór hann burt án þess að
gera nokkuð illt af sér.
Nú opnuðu hinir allir augun og spurðu mig, hvort
ég hefði séð þennan náunga nokkurn tíma áður, en
ég neitaði því. Sögðu þeir mér þá, að þetta væri Oddur
sterki af Skaganum, og hafði ég heyrt hans getið. í þá
daga var Reykjavík ekki stór í samanburði við það sem
hún er nú. Én mér fannst hún samt ærið stór. Og þar
sá ég bíl í fyrsta sinn á ævinni. Þá voru aðeins tveir
bílar í Reykjavík, Ford-vörubílar. Ég komst í kynni
við annan bílstjórann og fór oft með honum í smá-
ferðir og hafði gaman af.
Litlar voru samgöngur til Hafnarfjarðar á þeim ár-
um, 0g er mikill munur að ferðast þangað og annars
staðar nú á tímum. Mig var nú farið að langa heim aft-
ur og fékk mér far með „Gullfossi" (eldra) til Fá-
skrúðsfjarðar og átti þá langa ferð fyrir höndum, áð-
ur en ég kæmist heim aftur. Allt gekk samt vel, og
komst ég heim heill á húfi eftir langa útivist.
Ég er búinn að ferðast oftar til Reykjavíkur, bæði
með skipum og flugvélum, og líkar mér flugið mjög
262 Heima er bezt
vel. Og mikill er hraði nútímans: Ég drekk morgun-
kaffið hérna á Hornafirði og borða svo hádegisverð í
Reykjavík sama daginn. Það er eins og skáldið sagði í
þessari gamalkunnu vísu: Á vængjum vildi ég berast/
í vinda léttum blæ.... Skáldin eru svo hugmyndarík
bæði í bundnu máli og óbundnu.
Ég hefi ferðast þó talsvert um landið. Og víða eru
dásamlegir staðir á okkar kalda landi. Mér þykir t. d.
Akureyri fallegur bær og skemmtilegur staður. Og
það er ánægjulegt að ferðast um fallegar sveitir að
sumarlagi. Oft lenti ég í smá-æfintýrum á þessum ferð-
um mínum, og hirði ég ekki að rifja þau upp, enda
hefi ég gleymt svo mörgu af því tagi. Þó ætla ég að
minnast á eitt atvik, sem fyrir mig kom í Reykjavík.
Ég fór að finna lækni til að láta skoða mig. Þegar
ég kom í biðstofuna, var þar fyrir fjöldi fólks, og öll
sæti setin. Ég þekkti þarna engan og stóð úti við hurð.
Þá kallar kona til mín og segir: „Hér er eitt sæti laust! “
Þetta var fallega gert af ókunnugri konu.
Ég settist svo við hliðina á konunni, sem var ein sú
fallegasta kona sem ég hefi séð á ævinni. Ekki kunni
ég við að fara að spyrja hana um nafn og heimili,
hvort hún væri gift eða ógift o. s. frv. En samt held
ég að ég hafi aldrei orðið mér til reglulegrar skamm-
ar á ævinni nema í þetta skipti. Og það sem fyrir mig
kom, hefir aldrei hent mig fyrr né síðar. Ég steinsofn-
aði uppi sitjandi við hliðina á konunni, svo að harla
lítið varð úr samræðum.
Þegar ég vaknaði aftur af værum blundi, voru flestir
farnir, og konan horfin, og sá ég hana aldrei aftur. Ég
býst við, að henni hafi ekki virzt ég sérlega huggulegur.
X
Á Hvalnesi og víðar.
Ég hefi áður drepið á Hvalnes-heimilið og ætla nú
að geta þess dálítið nánar. Þegar Eiríkur var dáinn,
tók Einar elzti sonurinn við búinu, og var þá stór og
sterkur maður. Hann átti fyrir konu Guðrúnu Þórðar-
dóttur, myndarlega og góða konu. Voru þau hjónin vel
samhent og gestrisin og vildu hjálpa þeim, sem bágt
áttu. Ég átti marga ánægjustund hjá þeim hjónum. Var
ég þar oft í vinnu og til sjós.
Ég var ekkert hrifinn af sjósókninni, var alltaf sjó-
veikur fyrsta daginn og hafði engan áhuga fyrir sjó-
mennskunni. Róið var úr Hvalnesskrók, en þar var ekki
góð höfn nema í norðan- og norðaustan-átt, en ófært
í sunnan- og suðvestan-átt. Oft var þar góður afli af
vænum þorski.
Á Hvalnesi var myndarlegt fólk. Bræðurnir voru
þrír, og systurnar tvær. Allir voru bræðurnir smiðir
og smíðuðu bæði hús og báta. Einar var formaður á
sínum bát, ágætur sjómaður og gætinn formaður, veð-
urglöggur vel og greindur maður. Ólafur var mestur
smiður þeirra bræðra og fór víða og var mikið við
húsasmíðar. Hann er nú búsettur í Hegranesi í Skaga-
firði.