Heima er bezt - 01.04.1978, Síða 14

Heima er bezt - 01.04.1978, Síða 14
bændur í þeim við kirkju. Sokkar bæði karla og kvenna náðu upp að hné. Kvenfólkið hélt þeim uppi með fótofnum sokkaböndum, sem vafin voru fyrir neðan hnéð. Margrét á Grjótgarði, systir Stefáns, var mesti sniliingur að vefa sokkabönd, og einhverjar fleiri gamlar konur í sveitinni kunnu það einnig. Karlar héldu uppi sokkunum með fótólum eða snærisspotta. Á vetrum gengu menn alltaf úti við í tvennum sokkum. Yoru nær- sokkarnir vandaðir úr hreinu þeli, en ytri sokkarnir úr togi eða blandaðri ull og alltaf grófgerðari en hinir. Togsokk- arnir höfðu þann kost að létt var að þvo þá. í ferðalögum notuðu karlmenn oft reiðsokka, voru þeir gerðir úr grófu togbandi, allir snúnir og náðu upp á mitt læri. Neðan í þá var saumað voðfellt sauðskinn eða jafnvel seglstrigi, en innan undir þeim höfðu menn lipra sauðskinnsskó. Þessir sokkar voru einkum notaðir á hestbaki, en einnig á göngu, ef stutt var farið og mikill, mjúkur snjór. Nærfatnaður karla voru buxur úr heimaunnu, hvítu vaðmáli og prjónuð ullarskyrta. Utan yfir nærskyrtu var milliskyrta úr lérefti, var það nær eina flíkin, sem ekki var úr heimaunnu efni. Þó man ég eftir milliskyrtum úr heimaofnum tvistdúk. Ytri föt karlmanna voru miklu mest úr heimaofnu vaðmáli, á sumrin voru piltar þó oft í léreftsstökkum og einnig buxum úr einhverju erlendu, léttu efni. Til skjóls voru menn mikið í prjónapeysum úr uli. Á vetrum voru piltar oft í tvennum ytri buxum við útiverk, en gengu hinsvegar léttklæddir á sumrin einkum við slátt og smalamennsku. Höfuðföt voru að mestu er- lend, „enskar húfur“ á sumrin, en einhverskonar loðhúfur á vetrum. Þó voru einnig til prjónaðar skotthúfur. Allir piltar áttu betri föt til ferðalaga. Voru þau ýmist heima- unnin eða úr Gefjunardúk. Áður en Gefjun kom til sög- unnar var algengt að senda ull til Noregs til vinnslu í dúka. Voru þessir norsku dúkar, „norskt vaðmál“, oft hinir vönduðustu bæði að útliti og endingu. Spariföt áttu piltar úr bláu sjevioti og þótti það fínt. Sjaldan settu menn upp flibba, en notuðu hinsvegar oft hálsklúta oftast mis- lita, eða jafnvel brjósthlífar. Um snið á fötum kann ég ekkert að segja. Buxur voru ýmist síðar eða stuttar. Stutt- buxumar voru hnepptar með linningu fyrir neðan hné. Regluleg hlífðarföt voru lítt notuð. Þó voru til einir þrennir olíufatagarmar,. Til ferðalaga áttu piltar regn- kápur og reiðjakka úr stormtaui. Um kvenfatnaðinn kann ég enn minna að segja, enda var hann breytilegri. Yfirleitt gengu stúlkur í ullamær- fötum líkt og karlar, en annars var efni í fatnað þeirra meira erlent en karla. Þó var vaðmál notað í pils. Aldrei bar það við að stúlkur brygðu sér í buxur, þótti slíkt næsta ókvenlegt. Við útivinnu og jafnvel líka inni báru stúlkur skýlu. Við rakstur á túnum saumuðu þær oft ullarflóka innan í lófann á vettlingunum, sem þær höfðu á hrífu- skaftinu. Var það bæði til að hlífa vettlingunum við sliti, og lófanum við sárindum. Til spari áttu stúlkur peysuföt, en hversdagslega gekk engin með skotthúfu nema Mar- grét húsfreyja. Öll föt voru nýtt svo mikið sem auðið var. Voru þau bætt hvað eftir annað og hvað ofan í annað, svo að oft var jafnvel lítið eftir af upprunalegu flíkinni. Átti það einkum við um buxur og jakka. Fór mikil vinna í slíkan bótaskap, og þá ekki síður í að bæta skóna, sem oft varð að gera á hverju kveldi. Yfirleitt bar allur fatnaður merki þess, að vinna sem mest af honum heima úr heimafengnu efni. Var hann betur fallinn til skjóls og slits en skrauts. Engri spjör var fleygt fyrr en vonlaust var að bæta hana lengur, og þá var reynt að nota slitrin til einhvers annars, ef nokkur kostur var. Aðalsaumakona heimilisins var Kristín Jósefsdóttir, sem um skeið var í húsmennsku á Hlöðum. Ekkert hafði hún lært til saumaskapar, en meðfædd handlagni hennar og eftirtekt gerði það, að hún saumaði öll venjuleg föt bæði á karla og konur og tókst mjög sæmilega. Hreinlæti. Eins og fram hefir komið var bærinn mikill að flatar- máli, og því mikið verk að halda honum hreinum, ef um daglega hreingerningu hefði verið að ræða. Baðstofu- gólfið var sópað á hverjum morgni. Oft var stráð sandi eða ýrt vatni á gólfið, til þess að draga úr ryki. Rykinu var sópað í lítið trog, sem til þess hafði verið smíðað og ekki notað til annars. Strigaleppur, sem hafður var á gólfinu fremst á pallinum, var borinn út og dustaður um leið og sópað var. Frambærinn var einnig sópaður á hverjum morgni. Gólf voru þvegin á hverjum laugardegi, voru þau skúruð upp úr sandi, sem sóttur var í Hörgá. Stofugólfið var þó sjaldnar þvegið, og fór það eftir hve mikið var gengið um hana. Oft varð að þvo yfir gólf í göngum og bæjardyrum daglega, ef blautt var úti. Hreingerning á öllum bænum fór fram á hverju vori. Stóð hún 2—3 daga. Úr baðstofunni var þá allt lauslegt borið út, meira að segja dótið, sem geymt var uppi á loftinu, því að það var einnig þvegið. Allt var skúrað vandlega upp úr sandi, loft, gólf, veggir og fjalir úr rúm- stæðum. Hvergi fékk óhreinn blettur eða rykkorn að vera óhreyft. Oftast var þá samtímis skipt um heydýnur í rúmum. Frambærinn var gerður hreinn á samsvarandi hátt, nema stofan og innra norðurhúsið voru sápuþvegin en ekki skúruð með sandi, enda málaðar þiljur. Meira að segja gamla eldhúsið var sópað og hreinsað eins og tök voru á. Þó náði hin árlega hreingerning ekki nema að litlu leyti til loftsins í framhúsinu. Það var gert hreint eftir þörf og hentugleikum. Fyrir jólin fór einnig fram nokkur hreingerning, en ekkert var þá borið út. Þegar komið var inn frá vinnu, var hið fyrsta verk að fara úr ytri klæðum og blautum sokkum. Við flest óþrifa- verk voru piltar í einhverjum ytri görmum til hlífðar en stúlkur voru með strigasvuntur. Aldrei var farið lengra mn en í göngin í slíkum fötum. Eins ef menn voru blautir í fætur var skipt þar um sokka og skó, og settir upp inni skór áður en gengið væri til baðstofu. Framhald í nœsta blaði. 122 Heima er bezl

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.