Heima er bezt - 01.04.1978, Side 33

Heima er bezt - 01.04.1978, Side 33
fleiri sveitabörn mikill dýravinur og virtist sem hún hefði sjötta skilningarvitið gagnvart þeim. Ranka bauð hjálp sína í eldhúsinu við að ganga frá og taka til kvöldskattinn, sem vanalega var snæddur að dagsverki loknu. Síðan átti fólkið kvöldið sjálft og réði hvað það gerði, en oftast var háttað eins snemma og hægt var hversdagslega, því vinnudagurinn var yfirleitt bæði langur og strangur, nema á sunnudögum, þegar aðeins var unnið það sem nauðsynlegt var. Að kvöldverkum loknum þetta kvöld var ekki svo álið- ið, að fólkið vildi fara að sofa. Veðrið var svo gott að flestir voru úti við. Þóra og Kristján gengu tvö ein inn í kirkju- garðinn. — Ranka mín, viltu koma með mér upp í hlíðina? spurði Dísa. — Við þurfum snemma á fætur, Dísa. — Ja, en ég er viss um að ég sef hvort sem er lítið í nótt. Ég er eitthvað svo ..., æ, ég get ekki lýst því. — Læt ég nú vera, hvað þú ert skrýtin sagði Ranka. — Við skulum þá skoða okkur svolítið um. Þær héldu á brattann og leiddust eins og börn. — Ranka, ég er enn að hugsa um það sem þú sagðir í dag. Á meðan við vorum að borða, var ég að velta því fyrir mér, hvar ég hefði séð fröken Valgerði áður. Allt í einu mundi ég það. Ég hef verið svo lítil þá, líklega sex eða sjö ára. Þá kom þessi kona ásamt einhverju fleira fólki, sem ég tók ekkert sérlega eftir. En ég var forvitin eins og börn eru og þótti þetta fólk allt svo fínt, en hafði mestan áhuga á þessari fallegu konu af því hún talaði svo mikið við ömmu og gaf sig mest að henni. Ég skil það núna, að þær muni hafa þekkst mjög vel áður fyrr. Þær voru lengi inni í hjónahúsi að tala saman og ég var, þó skömm sé frá að segja, að reyna að heyra hvað þær töluðu, enda hurðin ekki alveg aftur. Fröken Valgerður hélt í höndina á ömmu og mér fannst ég heyra grátekka. Ég gægðist inn um rifuna og sá að amma grét. Mér var allri lokið og hljóp langt út fyrir túngarð og grét þar án þess að vita af hverju. Mér þótti svo undurvænt um ömmu og einhvemveginn kenndi ég líka í brjósti um hina konuna. Hún var svo alvarleg og döpur á svipinn. Ég er viss um, að fröken Valgerður hefur einhverja sorg að bera, eitthvað sem hún gleymir aldrei. Ég man líka eftir öðru atviki heima, hélt Dísa áfram, — ég velti því oft fyrir mér og nú held ég að ég skilji það. Inni í hjónahúsinu er skápur, sem amma á. Þar geymir hún hitt og þetta, sem henni er annt um, glös, silfurdót og fleira, allt það fallegasta og dýrmætasta sem hún á. í skápnum er skúffa, sem alltaf er læst. Einu sinni ætlaði ég inn til ömmu, en sá að dyrnar voru í hálfa gátt. Ég gægðist inn, forvitin eins og stundum áður. Þá sá ég að amma var með bréf í hendinni, sem hún fór varlega með. Það var sýnilega gamalt og velkt. Ég sá að hún tók innan úr því svartan hárlokk og einhvern lítinn hlut, sem ég held að hafð verið fíngerð festi með hjartalaga perlu í miðj- unni. Amma var svo raunaleg, að ég var að því komin að hlaupa inn til að hugga hana, en þá sá ég að hún kyssti lokkinn innilega og lagði hann að kinn sér eins og hún væri að finna mýkt hans. Svo hallaði hún sér fram á hendur sínar, ég sá ekki framan í hana en vissi að hún var að gráta þó ekkert heyrðist. Ég læddist burtu og skamm- aðist mín. Um kvöldið, þegar ég var háttuð, hugsaði ég lengi um ömmu og bað guð að hjálpa henni, þegar henni liði illa. Ég var aldrei látin heyra neitt um þessi mál, sem til- heyrðu fortíðinni, og spurði heldur engan. Afi minn var alvarlegur og fastur fyrir og ég fann á mér, að hann mætti ég síst spyrja, og hvorki við mömmu né pabba þorði ég að tala um svona viðkvæm mál. En eitt veit ég með vissu, að afa þótti afar vænt um ömmu og hún var honum góð og virti hann. En líklega hefur hún aldrei getað gleymt æskuástinni, sínum glataða töfradraumi, eða manninum, sem hún gaf sína fyrstu ást. Dísa sat þögul um stund, svo og Ranka, sem hlýtt hafði alvarleg á þessar minningar vinstúlku sinnar. — Ranka mín, ég hef enga trú á ástinni, hélt Dísa áfram með ákefð í rómnum. — Ég hræðist hana, vil aldrei kynnast henni. Hún tekur oft svo miklu meira en hún gefur, stundum allt sem máli skiptir. Um það hef ég heyrt margar sögur. Ég skal aldrei verða ástfangin, það fer bara illa með mann. — Ekki er það nú alltaf, Dísa mín. Ekki ef allt er í lagi og allir vegir færir í því sambandi. En satt er það, að fyrir kemur að kærleikur milli konu og manns skilur eftir sig sár sem seint gróa. Ég hef alltaf álitið, að það væri fólkinu sjálfu að kenna. Og þó, það er eins og öll skynsemi rjúki út í veður og vind. Það er ekki alltaf að hrein ást og kærleikur séu að verki, heldur aðeins eðlislegt lögmál lífsins. Skil- urðu hvað ég á við, Dísa mín? — Já, þú meinar að hvatir og kærleikur sé sitt hvað. En fari þetta saman, hlýtur sambandið að verða svo full- komið sem verða má. — Já, en sennilega er vandratað meðalhófið þar sem víðar, það muntu skilja seinna. Ég er nú eldri en þú, en satt að segja hef ég alldrei lent í neinu, sem hrifið hefur mig sérstaklega á þessu sviði. Ég er víst lítið eftirsóknar- verð kona, en ég bíð þar til ég finn þann mann, sem mér getur þótt svo vænt um, að ég geti hugsað mér að lifa lífinu með honum í blíðu og stríðu. Mann sem þykir vænt um mig á réttan hátt og kannske verð ég honum betri en engin, þó ég sé hversdagsleg. Lífið er nú einu sinni ekki sífellt ævintýri. Ef þú átt einhverntíma í vandræðum, Dísa mín, þá getur þú leitað til mín og trúað mér fyrir hverju sem er. Það er fátt betra en létta á hjarta sínu. Við skulum vera vinkonur í sumar og aldrei gleyma hvor annarri, þó lífskjör okkar verði, að mig grunar,ólík seinna meir. Dísa lagði handlegginn um hálsinn á Rönku og hvísl- aði: — Þakka þér fyrir hvað þú ert traust og góð, en ég er svo mikið barn ennþá. — Ekki finnst mér það nú nema að sumu leyti, Dísa mín, en mikið held ég að sá maður verði sæll, sem eignast þig heila og óskipta, eins og þú ert yndisleg stúlka. Nú skulum við fara heim, hátta og sofa vel. Þær stóðu upp og hlupu hönd í hönd heim að bænum. Heima er bezl 141

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.