Heima er bezt - 01.07.1988, Qupperneq 9
deildir á sínu svæði, þ.e. í vestanverðri Þingeyjarsýslu. Ég
man meira að segja eftir því, að faðir minn var deildarstjóri
einhvern tíma. Hins vegar var ég kominn undir fermingu,
þegar Guðlaugur móðurbróðir minn á Bárðartjörn var
deildarstjóri K.S.Þ. í Höfðahverfi. Hann skrifaði heldur
óhrjálega hönd, og mun ég þá hafa skrifað betur. Þess
vegna lánaði pabbi mig til þess að skrifa það, sem við
kölluðum skiptiskýrslu. Bændur pöntuðu þá svo og svo
marga sekki af hinu og þessu, kornmat, hveiti, sykri o.fl.
Ef eitthvað vantaði nú upp á, hörgull var á gjaldmiðli og
því ekki hægt að kaupa eins mikið og pantað hafði verið,
vegna þess að gjaldeyrisloforðin vantaði, þá dró aðalpönt-
unarstjórinn úr úttektinni. Þetta var nokkurs konar kvóta-
kerfi. Og þá varð deildarstjórinn í hverri deild, og þar á
meðal Höfðahverfisdeild, að skipta upp — varð að draga
úr hjá öllum hlutfallslega. Eftir þessari skiptisskýrslu var
síðan afhent aftur. Hún var send inneftir til kaupfélags-
stjórans á Svalbarðseyri, sem þá hefur iíklega verið Helgi
gamli Laxdal í Tungu. Mér er a.m.k. í barnsminni, að hann
kom hingað út eftir. Minnir mig að þá hafi verið einhver
flosnun í félaginu. Helgi var að vísu hættur framkvæmda-
stjórastörfum þá og kom nú á vegum einhverra lánar-
drottna og pabbi var þá eitthvað að malda í móinn vegna
kröfugerðar þeirra. Mótmælti hann m.a. út af vöruslatta,
sem hafði verið eitthvað skemmdur, þegar hann barst út
eftir. Hvorugur vildi láta sig og voru þeir satt að segja
ekkert árennilegir. Þá man ég að Bjarni Arason á Grýtu-
bakka bar klæði á vopnin. Þessi fundur var einmitt á
Grýtubakka. Bjarna var jafnan sárt um, að mikið væri
rifist. Annars voru þeir ágætir vinir framan af, pabbi og
Helgi.
Ég man hins vegar vel eftir verslun þeirra Höfðabræðra,
Þórðar, Baldvins og Björns Gunnarssona. Tveir þeir fyrr-
nefndu höfðu þá félagsbú í Höfða, sem var stærsta bú
sýslunnar um síðustu aldamót. Á Kljáströnd ráku þeir
bræður umfangsmikla verslun. Þarna tóku þeir m.a. eitt-
hvað af fé til slátrunar og var það handskorið á blóðvelli.
Því nefni ég það, að eitthvert sinn var ég við að halda fótum
fyrir Björn á Skuggabjörgum á meðan hann skar. Ýmsum
myndi nú þykja það fremur villimannlegar aðfarir. En
aldrei var þetta mikil slátrun.
VIII
Honum var heldur illa við Helgakver
— Þá var engin verslun í Grenivík, en þar var þá
prestssetur.
— Já, þá var séra Árni Jóhannesson í Grenivík, en hann
mun vera eini presturinn, sem þar hefur setið. Áður þjónaði
hann í Fjörðum og sat á Þönglabakka frá haustinu 1888 þar
til hann fluttist í Grenivík um mitt sumar 1892. Sr. Árni
þjónaði þar til dauðadags 4. maí 1927. Hann fermdi mig.
Ég hygg að hann hafi ekki verið mikill ræðumaður, en
hann var raddmaður mikill og tónari góður. Hafði haft
fágætlega góða bassarödd, en hann var farinn að tapa
Á Kljáströnd er nú allt í eyði. Þar var eina verslunin á norðanverðri
austurströnd Eyjafjarðar, áður en Grenivík varð verslunarstaður.
Þarna hélt Jóhann litii á Svínárnesi í fœtur á blóðvelli á meðan
Björn á Skuggabjörgum skar.
henni mikið, þegar ég man eftir honum. Séra Árni var
ágætur barnafræðari og ég man ennþá margt af því, sem
hann sagði okkur. Hann lagði ekki mikið upp úr utanað-
bókar- eða þululærdómi og var heldur illa við kver Helga
Hálfdánarsonar, sem við lærðum nú flest. Við þarna utan
af Látraströndinni, sem fermdumst saman, vorum látin
byrja heima á Helgakveri og haldið vel að þeim lærdómi. í
þeim hópi var Kristinn Jónsson á Hjalla og Þorsteinn í
Grímsnesi. Síðan gengum við alltaf á milli til spurninga.
Byrjuðum strax skömmu eftir áramótin og héldum áfram
út allan veturinn, vikulega. Það var meira en klukkutíma
gangur inn í Grenivík frá Svínárnesi og utan úr Grímsnesi
kom Þorsteinn alltaf deginum áður og gisti heima. Oft var
nú svo slæm færð og veður, að einhver fullorðinn varð að
fylgja okkur. Versti kaflinn voru þessar Kleifar, sem ég gat
um áður. Þegar þær voru óárennilegar, fórum við oftast
nær upp fyrir Kleifarnar og á bak við svonefndan Lýsishól.
Þetta var töluverður krókur og nokkuð ströng fjallganga.
Heima er bezt 225