Heima er bezt


Heima er bezt - 01.07.1988, Blaðsíða 24

Heima er bezt - 01.07.1988, Blaðsíða 24
Þegar vér göngum yfir gróið land, jafnvel þótt oss sýnist það fáskrúðugt og eyðilegt, dettur fæstum af oss í hug hvað það eiginlega sé, sem er undir fótum vorum. Jú, flestir myndu segja sem svo, að vér gengjum á grasi, en gleymdum því, að grasið vex upp úr jarðveginum, og án hans enginn gróður. En hvað er þá jarðvegurinn? Flestir mundu svara að það væri einhver steinmylsna, blönduð aðkomuefnum. Vér tökum kannske moldarhnefa upp í hendurnar, og lát- um moldina síðan renna gegnum greiparnar en erum þó litlu nær. Vér finnum, að þetta eru að vísu mismunandi gróf korn, annað sjáum vér ekki, og naumast dettur oss í hug, að moldarhrúgan, sem rann gegnum greipar vorar sé iðandi af lífi. En samt er það svo, að í moldinni býr lífríki, fjölbreyttara og þéttara en þröngin á götum stórborganna. Ef ekkert líf væri í jarðveginum væri hann einskis nýtur, enginn raunveruleg mold, ekkert nema dauð steinmylsnan. Það mætti jafnvel líkja honum við hús, sem byggt væri eftir öllum kúnstarinnar reglum, en enginn stigi nokkru sinni fæti sínum inn yfir þröskuldinn. Það væri dautt, einskis nýtt. Þannig væri moldarlaus jarðvegur. Moldarmyndun jarðvegsins er skilyrði þess, að grös og skógar, villt dýr og búpeningur, og vér sjálf fáum lifað á jörðinni. í gróður- moldinni, sem í fljótu bragði sýnist vera dauð mylsna er svo morandi af lifandi verum, að í einum rúmmetra moldar eru tugir ef ekki hundruð milljóna lífvera. Ef þessar lífverur væru ekki til staðar sístarfandi, væri jarðvegurinn ófrjór. Engin planta sprytti þar, og jörðin yrði lífvana. Fjölbreytni lífsins í moldinni er óendanleg að kalla má, og engin leið til að gera fulla grein fyrir henni í stuttu máli. En unnt er í fáum dráttum að gefa nokkra hugmynd um þetta lífríki, sem vér göngum daglega á. Eitt af því sem vert er að taka fram er stærð tegundanna. Eftir stærðinni einni sam- an, má skipa ríkinu niður í nokkra flokka, þótt fjölbreytnin sé mikil innan hvers flokks. Fyrst verða fyrir þær tegundir, sem ekki verða séðar nema í smásjá, og eru innan við 0.2 mm að stærð. Til þessa flokks heyra dýr, plöntur og bakteríur, sem raunar eru taldar til plantna. Einnig er þar aragrúi af veirum, sem svo eru smávaxnar að ekki verða þær greindar í nokkurri venjulegri smásjá. Veirurnar eru sníklar, sem ekki geta lifað, né dafnað utan þeirra frumna, sem þær lifa í og sníkja sér fæðu úr. Bakteríurnar eru langfjölskrúðugasti flokkurinn í lífríki moldarinnar. í einu grammi af mold, getur verið allt að milljarði baktería, sem svarar til þess að um 890 kg af bakteríum væru í meðal- þykku moldarlagi á einum hektara lands. Hver einstök tegund baktería lifir með sérstökum hætti, og fæða þeirra er harla ólík, allt frá ólífrænum súrefnissamböndum til lífrænna eggjahvítusambanda. En öllum þeim er það sam- eiginlegt, að þær vinna að efnabreytingum í jarðveginum. Má þar t.d. nefna köfnunarefnis- eða níturbakteríurnar, sem breyta köfnunarefni jarðvegsins í efnasambönd, sem rætur grænu plantnanna fá hagnýtt sér. Ef engar nítur- bakteriur væru í moldinni væri öll hringrás efnanna í moldinni rofin, og skiptir þar engu máli, hvort um væri að ræða, nítur, kolefni eða súrefni. Eiginlegir sveppir og geislasveppir, sem skyldir eru bæði sveppum og bakteríum, lifa á dauðum líkömum dýra og 240 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.