Heima er bezt - 01.07.1988, Side 50
stúlkur eftir einni. Hann vissi það, en gat ekki að því gert.
Hann bylti sér í rúminu og reyndi að stofna, en það gekk
illa, og Hlynur sofnaði ekki fyrr en undir morgun, þreyttur
á sál og líkama.
Þröstur vakti Rut um hádegið á annan í jólum. Hann
læddist inn til hennar og kippti sænginni ofan af henni.
Hún opnaði augun og horfði undrandi á hann, en þegar
hún sá glettnina í svip hans gat hún ekki stillt sig um að
brosa.
„Þetta kallar maður að vekja fólk,“ sagði hún syfjulega.
„Það er kominn matur,“ sagði Þröstur og henti sænginni
í hana. „Á lappir með þig svefnpurka."
Rut settist upp og nuddaði augun. Hún var ekki vöknuð
almennilega ennþá. Þröstur fór blístrandi fram og Rut
klæddi sig. Heimilisfólkið var sest við eldhúsborðið og beið
eftir að hún kæmi niður. Hún bauð góðan daginn og settist
í sætið sitt.
„Verður þú ekki heima í dag?“ spurði Heba og leit á
dóttur sína.
„Jú,“ svaraði Rut. „Af hverju spyrðu?“
„Foreldrar Fjólu ætla að koma hérna og mér finnst að þú
ættir að hitta þau.“
„Ég verð heima,“ sagði Rut og gaf Þresti hornauga, en
hann tók ekki eftir því.
„Smári kemur líka,“ sagði Fjóla og brosti. Þú þekkir
hann. Þú þarft ekki að vera feimin við mömmu og pabba.
Þau eru ofur venjulegt fólk.“
„Þau eru indælismanneskjur," sagði Heba.
„Það efast ég ekki um,“ sagði Rut og flýtti sér að borða.
Hún þakkaði fyrir sig og gekk inn í stofuna. Þar settist hún
með handavinnuna. Hún ætlaði sér að hafa eitthvað að
gera þegar gestirnir kæmu, svo enginn sæi taugaóstyrk
hennar. Henni var alls ekki rótt. Ef allt hefði farið eftir
áætlun, væru foreldrar Fjólu tengdaforeldrar hennar núna.
Rut andvarpaði. Hún mátti ekki alltaf hugsa um þetta.
Það gerði bara illt verra. Hún þóttist niðursokkin í sauma-
skapinn þegar faðir hennar og bróðir komu inn í stofu.
Þröstur settist við hlið hennar og Jón tók sér bók í hönd og
sneri bakinu í þau.
Þröstur gaf Rut olnbogaskot og hvíslaði í eyra hennar:
„Víðir og Sóley eru bæði indæl og elskuleg. Þú hefur enga
ástæðu til þess að vera feimin við þau.“
„Heita þau Víðir og Sóley?“ spurði Rut undrandi.
„Já, hvað er að því?“
„Og systkinin heita Hlynur, Smári og Fjóla. Skilurðu
hvað ég meina?“
Eitt andartak horfði Þröstur ringlaður á hana, en skildi
svo hvað hún meinti. „Jú, þú átt við að þau heiti öll nöfnum
úr gróðurríkinu,“ sagði Þröstur og brosti. „Ég hef aldrei
hugsað út í þetta. Ætli Fjóla hafi fattað þetta?“
„Fattað hvað?“ spurði Fjóla sem kom inn í þessu.
„Við vorum að tala um nöfnin í fjölskyldu þinni,“ sagði
Þröstur.
„Ó, já. Fólk gapir venjulega þegar það heyrir þau,“ sagði
Fjóla brosandi og settist í sófann á móti Þresti. „Við syst-
kinin verðum að velja okkur maka eftir nafni. Það er ágætt
að fá fugla í gróðurinn."
Þröstur hló.
„Það er einn þegar kominn," sagði hann og hneigði sig.
„Til þjónustu reiðubúinn, fagra blóm.“
„Þakka, herra fugl,“ sagði Fjóla hlæjandi. „Nú verða
Smári og Hlynur að finna sér stúlku með fugla eða blóma-
nöfnum.“
„Er það skylda?“ spurði Rut kæruleysislega.
„Nei, ég sagði nú bara svona.“
Frekari samræður féllu niður þegar dyrabjallan glumdi
allt í einu. Heba, sem hafði verið á leið inn í stofu, hraðaði
sér til dyra. Hún heilsaði Smára og foreldrum hans glaðlega
og bauð þeim inn, Jón og Þröstur gengu á móti þeim og
heilsuðu. Smári settist við hlið systur sinnar og heilsaði Rut
glaðlega. Hún tók undir kveðju hans, en varð síðan að
heilsa foreldrum hans, þar sem þau komu að sófanum til
hennar.
„Fjóla hefur talað svo mikið um þig,“ sagði Sóley vin-
gjarnlega. „Mikið gleður það mig að sjá þig loksins.“
„Ég vona að hún hafi borið mér söguna vel,“ sagði Rut
rjóð í kinnum.
„Já, það gerði hún,“ sagði Sóley og settist við hlið henn-
ar. Jón og Víðir settust við taflborðið og tóku skák. Heba
settist við hlið Sóleyjar, en Þröstur á stól við enda sófa-
borðsins. Rut þóttist vera niðursokkin í útsauminn, en
fylgdist vel með samræðum hinna. Hún bað allan tímann
um að Hlynur yrði ekki nefndur á nafn. Hún þóttist viss um
að hún myndi roðna og það var ekki beint heppilegt af því
að Smári sat beint á móti henni og það færi ekki framhjá
honum. Hann sá alltaf mikið. Hún varð því guðs lifandi
fegin, þegar Þröstur vildi fá hann með sér út í sjoppu að
kaupa öl. Þegar þeir voru farnir gekk Heba inn í eldhúsið til
þess að taka til kaffið og Fjóla bauðst til að hjálpa henni.
„Mikið er þetta fallegur dúkur,“ sagði Sóley hlýlega við
Rut þegar þær sátu tvær eftir. Það var varla hægt að telja
Jón og Víði með, þeir voru svo niðursokknir í taflið, að þeir
tóku ekki eftir neinu í kringum sig.
„Hann er ágætur,“ sagði Rut hæversklega.
„Saumarðu mikið?“ spurði Sóley. Henni var ljóst að Rut
var feimin, en lét séfn hún tæki ekki eftir þvi.
„Handavinna er mitt tómstundagaman,“ sagði Sóley og
brosi. „Ég er ekki nema hálf manneskja, ef ég hef ekki
eitthvað í höndunum."
„Það er gaman að sauma út.“
„Hefurðu gert mikið af því, Rut?“
„Já, þó nokkuð.“
„Mig langar að biðja þig að sýna mér eitthvað sem þú
hefur gert. Eða er það mikil frekja af mér?“
„Nei, nei, alls ekki,“ sagði Rut. „Það er bara ekkert
merkilegt að sjá.“ Hún stóð upp og lagði handavinnuna frá
sér. Sóley fylgdist með henni upp á loft. Rut sýndi henni
hvert stykkið á fætur öðru og Sóley hrósaði henni fyrir
dugnaðinn og handbragðið.
Framhald í nœsta blaði.
266 Heima er bezt