Heima er bezt


Heima er bezt - 01.06.1997, Blaðsíða 4

Heima er bezt - 01.06.1997, Blaðsíða 4
Agœtu lesendur. Afþreyingarmöguleikar nútíma þjóðfélags eru orðnir gífurlega miklir, reyndar svo miklir að fólk er víða hætt að geta komist yfir að nýta sér allt það, sem í boði er. Upplýsingastreymi er einnig orðið þvílíkt að farið er að tala í alvöru um að „upplýsingasíþreyta“ sé farin að hrjá t.d. stjórnendur. Upplýsingar streyma til þeirra úr öllum áttum, í gegn- um alnetið, tölvupóst og bréfsíma. Margir stjórnendur dagsins í dag ku eyða svo miklum tíma í að kynna sér alls konar upplýsingar, að þeir geta ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Þetta þýðir í raun að upplýsinga- öldin er á góðri leið með að kaffæra neytendur sína með því upplýsinga- flóði sem sífellt hraðvirkari tækni hefur skapað. Og það einkennilega er að ýmsir fræðingar eru farnir að óttast að allt þetta yfírflæðandi upp- lýsingastreymi geti orðið til þess að auka hættu á illa ígrunduðum og gölluðum ákvarðanatökum, bæði vegna magnsins og þess álags, sem fylgir því að kynna sér og fara í gegnum mikið magn upplýsinga áður en ákvörðun er tekin. Of litlar upplýsingar eru auðvitað heldur ekki góðar og virðist því hér á ferðinni enn sem áður, þessi sífellda nauðsyn á að hafa hæfileika til að rata hinn gullna meðal- veg, þ.e.a.s. að geta greint hismið frá kjarnanum. En það er ekki bara hjá stjórnendum sem áreiti aukinn- ar tækni skapar breyttar aðstæður og mynstur. Flestir kannast við það hversu nútíma fjölskyldan hefur orðið lítinn tíma til þess að sinna raunverulegu fjölskyldulífi. Sjónvarp, sem býður upp á fjölda sýningarrása, bindur orðið ijölskyldur við skjáinn heilu kvöldin, hann er orð- inn óhjákvæmilegur fastapunktur í lífi þeirra, meira segja svo að þær hafa sjónvarp með sér í sumarbústaði sína, svo ekki verði nú af neinu misst. Vídeótækni eykur svo enn möguleikana til sjónvarps- áhorfs fyrir myndir sem fólk ekki nær, vegna tímaskorts, að sjá í kvikmyndahúsunum þegar þær eru sýndar þar. Lífið gengur orðið býsna mikið út á það að hafa ofan af fyrir sjálfum sér og öðrum með einhvers konar afþrey- ingu, hverju nafni sem hún nefnist. Bara að þurfa ekki að sitja kyrr á sama stað með sjálfum sér, svo nokkru nemi. Svona er hraðinn og lífsspennan orðin mikil í þjóðfélögum okkar. Manni verður hugsað til hins fyrri tíma, þegar framboð afþreyingar var nánast ekkert og lífið snerist um það fyrst og fremst að hafa ofan í sig og á. Mikið held ég að sá nútímamaður ætti erfitt ef hann skyndilega ætti þess kost að lenda inn á slíku tímaskeiði. Það hlyti að verða honum nánast óbærilegt að þurfa allt í einu að lifa og hrærast í því tilbreytingarleysi, sem tíðkaðist hér á landi, fyrr á öldum. Ekki má þó taka orð mín svo, að ég sé að mæla til- breytingarleysinu bót, það er ég ekki að gera, hér gildir að sjálfsögðu aftur hin gullvæga regla að meðalhófið er í flestu best. Annars hefur það nú marg sannast að aðlögunarhæfni mannfólksins er næsta ótrúleg, svo búast mætti við því að fyrrnefndur tímaflakkari myndi fljótlega falla inn í og aðlaga sig hinum tilbreytingar- litlu (að hans mati, væntanlega) aðstæðum. Vandi hans myndi fyrst og fremst felast í vitneskju um síðari tíma afþreyingar- möguleika, samanborið við þá, sem hann, fræðilega séð, væri lentur í. Enginn saknar þess, sem hann ekki veit um eða þekkir. Einmitt þess vegna kann það að vera nokkuð hæpið að bera saman nútíð og fortíð í þessum efnum. Hver tími og kyn- slóð hefur sinn sið og venjur, sem mótast af þeirri þekk- ingu og lífsskoðunum sem þá eru í gildi. Þó svo að okk- ur, síðara tíma fólki, kunni að þykja sem forfeður okkar hljóti að hafa lifað heldur fábreyttu og gleðisnauðu lífi, ef borið er saman við það sem við þekkjum í dag, þá virðist það nú oft ekki vera reyndin þegar farið er að rýna í skrif og frásagnir af daglegu lífi og skemmtunum fólks fyrr á tíð. Oft rekur maður nefnilega augun í það, að ýmis grunnatriði í afþreyingarmálum fólks fyrr á tíð, svipar býsna mikið til þess sem fólk gerir sér til skemmt- unar í dag. Það, sem hefur breyst, eru tækin og áhöldin til að stunda afþreyinguna og koma henni á framfæri. Sjálfur grunntónninn hefur líklega, ef vel er að gáð, ekki breyst svo ýkja mikið, jafnvel þó farið sé nokkrar aldir aftur í tímann. Mannseðlið er því alltaf og verður, samt við sig. Ein- ungis aðferðirnar við að koma því á framfæri, breytast og þróast. En spurningin sem vaknar er sú, hvort ganghraðinn í lífseðli mannsins nær að fylgja eftir þessum sívaxandi hraða, framboði og möguleikum. Mun hann ekki neyðast til þess að horfa eitthvað aftur til fyrri lífshátta, svo hann lendi ekki út af brautinni á þeirri hraðfara upplýsingaöld sem hann er sem óðast að breyta samtíma sínum í? Spyr sá sem ekki veit. Svarið við því mun tíminn einn væntanlega og enginn annar, geta leitt í ljós. Með bestu kveðjum, Guðjón Baldvinsson. 204 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.