Ægir - 01.12.1933, Side 7
ÆGIR
281
ingunum : eldri íiskurinn úr kalda sjón-
um leitar suður á bóginn til hrygningar
og að henni lokinni aftur norður á bóg-
inn til matfanga. Hefur það hvað þorsk-
inn snertir, sýnt sig glöggt á Vestmann-
eyjafiskinum; hann hefur veiðst fyrir
norðan land á sumrin og þar með er
staðfest það sem menn áður höfðu ætlað,
að hrygndi fiskurinn leiti norður fyrir
land að lokinni hrygningu.
Hingað til hefur ekkert það komið í
Ijós, sem bendir á eða sýni, að íslenzki
skarkolinn fari nokkurntíma til annara
landa, né heldur að skarkoli frá ná-
grannalöndunum komi hingað, ekki einu
sinni sem flækingur; sama mátti segja
um íslenzka þorskinn í ársbyrjun 1927;
til þess tíma hafði ekkert gerst, sem
benti á annað, nema hvað ég taldi lík-
legt (í Fiskabók minni, bls. 226), eftir
dvöl mina á Hala í ágúst 1925, að þorsk-
urinn mundi geta brugðið sér á sumrin
af Halanum yfir á Grænlandsgrunnið, á
eftir loðnu eða öðru æti. þar sem svo
skammt er þar á milli.
Þetta var að eins sennileg getgáta; en
í júlí 1927 gerðist sá, í sögu merking-
anna, merkilegi atburður, að 23. marz,
veiddist í mynni Faxaflóa, (18 sjómílur
NV af Garðskaga), á skipinu »Namdal«,
þorskur merktur af Dönum við Sukker-
toppen á SV Grænlandi 27. ág. 1924,
(fyrsta árið sem þeir merktu þorsk við
Grænland). f*ar með var sýnt og sann-
að, að þorskur gæti komið til íslands
frá öðrum löndum. Það var varla, að
þeir sem að merkingunum stóðu, ætluðu
að trúa þessu, héldu að væri um hreina
tilviljun að ræða, en það veiddustsmám
saman fleiri þorskar, við V-strönd lands-
ins, merktir við SV-Grænland; í árslok
1930, voru þeir orðnir 7 og síðan hafa
komið 130, flestir veiddir á vetrar- og
vorvertíðinni, við SV- og V-ströndina,
kynsþroskaður fiskur, sem kominn er
hingað, sennilega ásamt urmul af ómerkt-
um fiski, til hrygningar. Einnig hafa
veiðst hér 2 þorskar, merktir við Ang-
magsalikk á SA-strönd Grænlands, annar
af Dönum, en hinn af Norðmönnum.
Við Grænland hafa Danir merkt 7064
þorska síðan 1924 og af þeim hafa 296
endurveiðst, en að eins hér (137) og við
Grænland (159).
En þetta er að eins önnur hliðin á
málinu; hin er sú, að 12 fiskar, flestir
merktir við Vestmanneyjar á vetrar-
vertíðinni (hrygnandi fiskur) hafa feng-
ist að sumarlagi við SV-strönd Græn-
lands og 1, sem líklega hefur verið á
leið til Grænlands, í hákarli, sem veiddíst
á miðju Grænlandshafi. í sumar veiddist
jafnvel 1 við New-Foundland og 2 við
Færeyjar.
Þessar merkingar, sem hafa verið aukn-
ar að mun, bæði við ísland og Græn-
land síðustu ár, vegna þessarar óvæntu
útkomu af þeim, hafa ólvírætt sýnt, að
islenzkur þorskur fer langtum lengra í
ætisleit að lokinni hrygningu, en menn
höfðu gert sér í hugarlund áður, ef til
vill vegna hærri sjávarhita en ella, en vitj-
ar svo aftur hrygningarstöðvanna, sam-
tímis fiskinum, sem haldið hafði sig í
»heimahögunum«. Og hann hefur ekki
aðeins heimsótt Grænland, New-Found-
land og Færeyjar, hann hefur lika slangr-
að norður og austur til JanMayen, sem
sézt af því, að fáeinir (3) þorskar, sem
Norðmenn merktu þar 1930, hafa veiðst
hér við Norðurland og Vestmanneyjar.
Aftur á móti hafa merkingar sem gerð-
ar hafa verið við önnur nágrannalönd
vor, einsog merkingar Norðmanna heima
fyrir, við Bjarnarey eða annarsstaðar í
austanverðu Norðurhafi og Skota í kring
um Skotland, ekki sýnt neitt, sem bendi
á að þorskur fari milli þessara landa.