Ægir - 01.01.1995, Síða 22
hlutafjáraukningar er hlutur hennar kominn í 35%.
Lífeyrissjóðir, olíufélög, tryggingafélög, ýmsir sjóðir og
einstaklingar eru meðal stórra hluthafa en fjöldi smárra
hluthafa meðal starfsfólks er mikill og við sameining-
una var hverjum starfsmanna afhent 2000 króna
hlutabréf.
Hvar er lýðræðið?
Nú eru ýmsar blikur á lofti í náinni framtíð. Samn-
ingar sjómanna voru felldir og samningar landverka-
fólks verða lausir í vetur. Er svigrúm í þessum rekstri
fyrir kauphœkkun?
„Hjá þessu fyrirtæki eru 100 sjómenn og ég veit að
níu tóku þátt í atkvæðagreiðslu um samningana á
Akranesi og felldu þá. Þarna er eitthvað athugavert
við lýðræðið.
Við erum háðir því verði sem við fáum erlendis og
svigrúm er ekki mikið. Það er mikilvægara en nokkuð
annað að halda þeim stöðugleika i efnahagsumhverfi
okkar sem við höfum notið undanfarið. Afkoma
margra sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað þrátt fyrir
mikla skerðingu á aflaheimildum. Til þess að ná þess-
um árangri hefur greinin gengið í gegnum verulega
uppstokkun og hagræðingu í rekstri og þannig sýnt
mikla aðlögunarhæfni að nýjum aðstæðum. Það er
því mjög mikilvægt að stöðugleiki ríki áfram í þjóðfé-
laginu til þess að fyrirtækin nái að byggja upp eigin-
fjárstöðu sína."
Um þessar mundir er mikið rœtt um fiskverð og áhrif
fiskmarkaða á verðið. Sjómenn vilja að allur fiskur fari
á markað til þess að tryggja rétt markaðsverð og telja
ófcert að útgerð og fiskvinnsla semji við sjálf sig um
verðið. Haraldur Böðvarsson hf. aflar eigin hráefnis og
setur því ekki aflann á markað.
Fiskvinnsla er stóriðja
„Það sem frystihúsin geta borgað er í föstum skorö-
um. Það er bundið við markaðsverð á hverjum tíma.
Laun og hráefniskostnaöur eru hátt í 75% af lokaverði.
Við reynum aö stýra okkar vinnslu og veiðum með
þaö fyrir augum að hámarka framlegð beggja þátta. Ég
get ekki séð að það sé hægt að reka fiskvinnslu með
því að reiða sig alfarið á fiskmarkaðina. Fyrirtækin á
Akranesi hafa frá upphafi þurft að treysta á sjálf sig
með hráefni. Tekjur sjómanna byggjast á því afla-
magni sem þeir geta veitt og því verði sem þeir fá og
við höfum kappkostað að skipin þurfi ekki að liggja
bundin við bryggju."
Má halda því fram að þau fyrirtœki sem eru í þessari
aðstöðu séu jafnframt þau sem standa best í dag?
„Það er augljóst. Þetta er stóriðja og verður best rek-
in sem slík. í framtíðinni verður að reka hana með
hagnaði og greiða arð. Annars eru menn búnir að vera
og atvinna hundruða manna í óvissu." O
Nýtt nótaskip fyrir 780 milljónir
Nýlega var afhent nýtt glæsilegt nótaveiði- og fjölveiðiskip
til nýrra eigenda á írlandi. Skipið var smíðað á 11 mánuðum
hjá Simek A/S í Flekkefjord í Noregi og kostaði um 780 millj-
ónir íslenskra króna. Skipið um 1000 tonn, með níu sjókæli-
tönkum, samtals 1523 rúmmetra stórum. Það ber nafnið
Sheanne og fór beint á makrílveiðar.
Sheanne er 59,6 metra löng, með Caterpillar 3612 aðalvél
og hliðarskrúfum aftan og framan.
(Fishing News des. 1994)
Mannætufiskar í Genesaret-vatni?
Nokkurt fjaðrafok hefur orðið í ísrael eftir að ný fisktegund
fannst í Genesaret-vatni. Svo virðist sem um sé að ræða af-
brigði af piranha-fiski sem venjulega finnst í ferskvatni í Suð-
ur-Ameríku. Sumar tegundir piranha eru illræmdar fyrir
grimmd og fara um í torfum og eru sagðar geta étið stórgrip
upp til agna á örfáum mínútum.
Genesaret-vatn, þar sem Frelsarinn gekk forðum á vatninu
og stundaði dagróðra með lærisveinum sínum og áhangend-
um, er með vinsælustu ferðamannastöðum í ísrael. Hafa
menn miklar áhyggjur af meintri tilvist mannætufiska í vatn-
inu og útiloka ekki að þeim hafi verið komið þar fyrir af
mannavöldum gagngert til þess að klekkja á ísraelsmönnum.
(Fiskaren des. 1994)
Þrándur í Götu tekinn í landhelgi
Færeyski togarinn Þrándur í Götu var tekinn við meintar
ólöglegar veiðar í norskri lögsögu og færður til hafnar á Máley
af strandgæsluskipinu Senju og þyrlu strandgæslunnar. í lest-
um togarans voru 350 tonn af makríl en eftir að hafa rannsak-
að afladagbækur togarans komust norsk yfirvöld að þeirri nið-
urstöðu að Þrándur hefði veitt að minnsta kosti 600 tonn með
ólöglegum hætti í norskri lögsögu síðan í september 1994. í
kjölfarið var skipið dæmt í 5,4 milljóna norskra króna sekt.
Þrándur í Götu er 2300 tonna úthafsveiðiskip, eitt hið
stærsta sem Færeyingar eiga. Þetta er ein hæsta sekt sem Norð-
menn hafa dæmt sökudólg í fyrir landhelgisbrot.
(Fiskeri Tidende des. 1994)
Troll úr köngurlóarvef?
Amerískir vísindamenn segjast hafa náð valdi á að fram-
leiða með hjálp gerla prótein eins og þau sem köngurlóarvefur
er gerður úr. Vefur þessi er í eðli sínu eitt sterkasta efni í heim-
inum þótt hann sýnist hismi. Takist mönnum að ná valdi á
því að spinna þykkari þráð úr efninu en köngurlóin sjálf gerir
við eðlilegar aðstæður opnast ótal möguleikar til notkunar.
Kannski verða troll og nætur framtíðarinnar gerð úr sama efni
og köngurlóarvefur.
(Fiskaren des. 1994)
22 ÆGIR JANÚAR 1995