Dýraverndarinn - 01.12.1959, Side 15
„Jú,“ sagði hún. „Þú mátt það, — þú mátt
fara hérna niður á plássið, en ekki lengra en svo,
að þú sjáir mig og ég þig, þegar ég kem út.“
Svo fór ég niður á plássið, sem hún kallaði.
Það var autt svæði neðan við verzlunarhúsin og
náði alla leið niður á sjávarbakkann. Þar stóðu
nokkrir menn og sneru í mig baki. Þeir voru víst
að horfa út á stóra vatnið, sem var kallað sjór.
Það voru þá líklega sjómenn. Um þá hafði ég
heyrt talað. Þeir slógu ekki gras eða hugsuðu um
kýr og kindur, heldur reru og sigldu út á sjó og
drógu þar eins konar silung, sem var kallaður
þorskur eða ýsa, hafði hún amma mín sagt mér.
„Annars þekki ég það ekki, barn, ég hef aldrei
á sjó komið,“ sagði hún, „bara með honum afa
þínum hérna út á vatnið.“
Nei, en hvaða skepna stóð nú þama. Kind? Sú
hafði stór horn, alveg óskaplega há og skrýtin.
En ullin á henni, — þetta var eins og strý — og
— nei, nú var ég alveg hissa: hún hafði reyndar
skegg! Ég gat ekki á mér setið, heldur færði mig
nær og nær þessari kind. Nú var hún búin að taka
eftir mér. Hún japlaði og kinkaði kolli og horfði
á mig. Ég fór enn nær. Eitt var það, — mér sýnd-
ust svo skrýtin í henni augun, var eins og gneist-
aði úr þeim. Hún var þó víst ekki reið. Hún var
reyndar bundin við staur, máski mislíkaði henni
það? Hana, þar snéri nú einn maðurinn sér við,
skeggjaður karl og með tóbak í munnvikunum.
En sá dóni — hann spýtti framan í kindina með
stóru hornin. Ég reiddist við karlinn og færði mig
enn nær kindinni. Nú var mér orðið vel við hana,
enda gat hún ekki gert að því, þó að hún væri
skrýtin. Hún hefði líka verið falleg á litinn, fallega
hvít og svört, ef það hvíta hefði ekki verið eins
óhreint og það var. Nú sleikti hún tóbakið, sem
karlinn spýtti á hana, og svo gretti hún sig ógur-
lega eins og nautið gerði stundum heima og reynd-
ar folinn líka. Henni þótti auðsjáanlega rammt
tóbakið, vesalingnum. Þar fór karlinn, sem spýtti,
að hlæja, og svo sagði hann:
„Nei, sjáið þið nú, drengir, hafurinn hennar
Gunnu skellu fýlir grön framan í drenginn. Er það
nú dónaskapur!“
Hinir sneru sér við og hlógu líka, og þá varð ég
meira reiður. Hafur, sögðu þeir, jahá, þetta var
þá geithafur, — rétt var nú það. Það var bezt ég
stryki hann, greyið. Og ég gekk til hans og rétti
út höndina. En þá . .. þá sýndist hann bara ætla
að setja undir sig hausinn og stanga mig, svo ég
vék mér við í hasti. En í sama bili og ég sneri
bakinu við hafursskömminni, fann ég eitthvað
rekast fram á milli fótanna á mér, og ég var haf-
inn á loft. Ég held ég hafi hreinlega snúizt í loft-
inu og farið kollskít, en þótt lítill væri, hafði ég
æft glimu við stærri stráka heima og þótti anzi
sleipur að koma fyrir mig höndum. Og þeim kom
ég líka fyrir mig í þetta sinn. En kastið á mér
var svo mikið, að ég þrúgaðist síðan niður á höf-
uðið, og þá kenndi mig svolítið til. Ég brölti þó
á fætur og leit eins og hálfringlaður á hafurinn,
sem stóð japlandi og horfði á mig, og ég gat ekki
betur séð en hann glotti í kampinn. Og nú heyrði
Telpa með tígrishvolp.
dýraverndarinn
95