Fréttablaðið - 01.02.2010, Síða 35

Fréttablaðið - 01.02.2010, Síða 35
MÁNUDAGUR 1. febrúar 2010 19 „Hugmyndin að öðlingunum kemur frá Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem skrifaði bókina Á mannamáli,“ segir Karl Sigurðsson, tölvunarfræðingur og Baggalútur, sem er einn af öðlingunum sem tekur þátt í samnefndu átaki til að vekja athygli á bágri stöðu neyðarmót- töku Landspítala. Bók Þórdísar Elvu fjallar um kynbundið ofbeldi en að sögn Karls er henni það hugleikið málefni auk annarra málaflokka sem því tengj- ast. „Þegar hún var að skrifa bókina komst hún að því að mikið hefur verið skorið niður á neyðarmóttöku Landspít- alans ár eftir ár og nú er svo komið að forstöðukonan heldur þessu uppi nán- ast með handafli,“ segir hann. Í framhaldi af því datt Þórdísi Elvu í hug að setja af stað átak til að safna fyrir starfsemi neyðarmóttökunnar. „Í staðinn fyrir að gera það í eitt skipti fyrir þetta eina málefni ákvað hún að finna átak sem hægt væri að hafa ár- lega,“ segir Karl. Öðlingarnir eru hópur manna af ólík- um sviðum þjóðfélagsins. Auk Karls eru í hópnum þeir Rúnar Kristins- son knattspyrnustjóri, Höskuldur Sæ- mundsson leikari, Atli Fannar Bjark- ason blaðamaður, Snorri Ásmundsson myndlistarmaður, Sturla Sighvatsson framkvæmdastjóri, Lárus R. Haralds- son verkefnisstjóri, Víðir Guðmundsson leikari, Sverrir Þór Sverrisson leikari og Björn Hlynur Haraldsson leikari. Þeir munu frá bóndadegi og til konu- dags hafa það að markmiði að kynna átakið sem víðast og vekja athygli á vefsíðunni odlingurinn.is. Átakið gengur út á að selja bókina hennar Þórdísar sem sjálf hefur gefið allan sinn ágóða. Hjá Forlaginu er hægt að kaupa bókina á heildsöluverði á 1.990 krónur en mælst er til þess að fólk kaupi hana dýrara verði og sá pen- ingur mun renna beint til neyðarmót- tökunnar. Á konudegi er ætlunin að við kyndl- inum taki kvenkynsöðlingar sem munu halda merkjum átaksins áfram. - sg Öðlingar vekja athygli á söfnun fyrir neyðarmóttöku ÖÐLINGAR Þórdís Elva Þorvaldsdóttir ásamt öðlingum. Frá vinstri eru Atli Fannar Bjarkason blaðamaður, Víðir Guðmundsson leikari, Karl Sigurðsson tölvunarfræðingur og Baggalútur, Höskuldur Sæmundsson leikari, Lárus R. Haraldsson verkefnisstjóri, Rúnar Kristinsson knattspyrnu- stjóri og Snorri Ásmundsson myndlistarmaður. Á myndina vantar Sturlu Sighvatsson framkvæmdastjóra, Björn Hlyn Haraldsson leikara og Sverri Þór Sverrisson leikara. Nú í febrúar munu svoköll- uð höfundahádegi vera á dagskrá einu sinni í viku í Norræna húsinu. Óskar Guðmundsson og Einar Kárason ríða á vaðið í dag með spjalli um tilurð og ritun ævisögu Snorra Sturlusonar sem Óskar sendi frá sér nýverið. Bókin hlaut góðar viðtökur þegar hún kom út en í bók- inni er saga Snorra sögð um leið og góð yfirsýn er gefin yfir þann tíma sem Snorri var uppi á. Næsta höfundahádegi verð- ur á mánudaginn eftir viku þegar Pétur Gunnarsson og Haukur Ingvarsson spjalla um bækur Péturs um Þór- berg Þórðarson. Höfundahá- degin hefj- ast klukk- an tólf og standa í klukku- tíma. - jma Höfundahádegi í Norræna húsinu SPJALL VIÐ RITHÖFUNDA Einar Kárason og Óskar Guðmunds- son munu spjalla um ævisögu Snorra Sturlusonar í dag. Minning Þorleifur Hannes Sigurbjörnsson sjómaður Þorleifur Hannes Sigurbjörnsson fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1962. Hann lést 21. janúar síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut. Hann var ókvæntur og barnlaus en sambýliskona hans til tíu ára var Sumarrós Kristín Jóhannsdóttir fædd á Þórshöfn 2. september 1958, á hún þrjú börn. Slitu þau samvistum á síðasta ári. Eftirlifandi foreldrar Þorleifs eru Hanna Signý Georgsdóttir fædd í Reykjavík 5. október 1942, gift Úlfari Björnssyni, fæddur á Hvammstanga 7. mars 1938 og Sigurbjörn Finnbogason, fæddur að Hlíð í Strandasýslu 4. janúar 1941, kvæntur Sigurbjörgu Ísaksdóttur fædd að Hóli í Kelduhverfi 8. október 1940. Systkini Þorleifs sam- mæðra eru Ragnheiður Birna fædd 15. október 1963, Guðrún Alda fædd 5. október 1965 og Sigurður Viktor fæddur 18. apríl 1974. Systkini Þorleifs samfeðra eru Klara Guðbjörg fædd 27. október 1963, Ægir Rúnar fæddur 13. júlí 1965 og Finnbogi Grétar fæddur 2. júní 1971. Þorleifur Hannes ólst upp í Reykjavík en síðustu 10 árin bjó hann á Þórshöfn og undi þar hag sínum vel í nánum tengslum við náttúruna. Þorleifur hneigðist snemma til vinnu og byrjaði ungur að bera út blöð og selja. Á unglingsárunum vann hann hjá Tímanum við sendlastörf með skóla en einnig fyrir Íslenska endurtryggingu. Strax um fermingu fór hann í salt- fiskvinnslu hjá ömmubróður sínum í Þorlákshöfn og kom þar glöggt í ljós hvað hann undi sér betur á landsbyggðinni en á mölinni. Þorleifur stundaði ýmis störf á ferli sínum og má þar nefna afgreiðslustörf hjá Ræsi og Bílanausti og útkeyrslu hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Þá ráku hann og Sumarrós sambýliskona hans, veitingastaðinn Hafnarbarinn á Þórshöfn um nokkurra ára skeið. Sjómennskan var þó sú starfsgrein sem átti hug hans allan stóran hluta ævi hans og kom hann þar víða við. Krókurinn beygðist snemma. Vorið þegar hann var sjö ára gamall fékk hann að fara í róður með Birni grásleppubónda við Ægissíðuna að vitja um netin og þótti það mjög skemmtilegt. Hann fór mjög ungur með vini sínum Ella Hintze og föður hans í millilandasiglingu á Hofsjökli, réri á fiskibát frá Skagaströnd með frænda sínum Ómari og frá Þórshöfn í seinni tíð. Hann starfaði á varðskipum, skuttogurum, og undanfarin ár sem badermaður á frystitogurum. Útför Þorleifs Hannesar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin kl. 13.00. Minning Hjónin Bolli og Björk Sumir hugsað sér tímann sem línu sem ætti sér upphaf í óendanlegri fortíð og stefndi til óendanlegrar framtíðar. Steinn Steinarr orti um tímann: Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Og tíminn er eins og mynd, sem er máluð af vatninu og mér til hálfs. Og tíminn og vatnið renna veglaust til þurrðar inn í vitund mín sjálfs. Þau Bolli og Björk voru ekki bundin við tímann á þann hátt sem flestir eru. Hjá þeim var hann ekki hin knappa mælieining sem hrjáir svo marga í samfélagi nútímans. Þau áttu ævinlega nægan tíma, að minnsta kosti fyrir aðra, en hvernig fólk voru þau? Því er ekki hægt að svara í einni stuttri setningu og víst er að sitt sýnist hverjum þar um eins og gengur, en fyrir um það bil 20 árum var ég kynntur fyrir þeim. Bolli var þá eins og svo oft að skipuleggja, og í þetta sinn var hann að vinna að hestaferð norður um Kjöl á fyrirhugað Landsmót hestamanna. Ferð sem varð undanfari að stofnun Hestaferðafélagsins sem Bolli varð síðar heiðursfélagi í. Þegar ég kom sem gestur á heimili þeirra hjóna kynntist ég einstakri gestrisni eins og svo margir höfðu áður gert. Það var ekki eins og ókunnur maður væri kominn í heim- sókn heldur einhver sem margoft hefði til þeirra komið. Þannig voru þau. Heimili þeirra var opið og þeir sem þar komu voru boðnir velkomnir frá fyrstu stundu. Eðlileg, notaleg og frjáls og ekki var spurt um stétt eða stöðu. Allir voru jafnir í þeirra augum. Enda var lífsskoð- unin sú að enginn væri öðrum æðri. Bolli var maður sem ekkert aumt mátti sjá og það átti einnig við um Björk. Þau stóðu saman í því sem öðru, þó verkaskiptingin á heimilinu væri skýr. Bolli var maðurinn sem taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að liðka fyrir því að undirritaður kæmist í fyrirhugaða hestaferð ásamt dóttur, þó seint væru kynnt til sögunn- ar. Hann var maðurinn sem skipulagði ferðina í þaula, skipti henni upp í áfanga, pantaði gististaði og sá til þess að allur nauðsynlegur búnaður yrði til staðar. Hann taldi ekki eftir sér þegar hann vaknaði upp um miðja nótt í öðrum áfanga umræddrar ferðar, að læðast út þegar aðrir sváfu og aka 70 kílómetra til að sækja hlut sem hann mundi eftir að gleymst hafði daginn áður og var síðan mættur manna fyrstur í morgunkaffið. Hann var maðurinn sem fann upp á því að senda hesta sína í aðra ferð átta árum seinna og fela þá í umsjá ungrar konu sem hann vissi að langaði til að fara, en hafði ekki hesta né fé til að geta farið. Það var nefnilega svo nauðsynlegt að hreyfa hestana, að það var sjálfsagt að hann greiddi kostnað hennar af ferðinni ef hún vildi vera svo góð að liðka fyrir hann hrossin og nota þau til ferðarinnar. Seinna þegar bróðir fyrrnefndrar konu tók upp á því að brasa við að koma sér upp smiðju, þá linnti Bolli ekki látum fyrr en hann var búinn að finna í fórum sínum loftljós til að lýsa upp fyrirhugað smiðjuhús. Ljósin voru náttúrulega eitthvað sem Bolli þurfti alveg nauðsynlega að losna við og það væri bara greiði við hann, ef hinn ungi maður vildi vera svo góður að nýta sér þau! Hér eru aðeins nefnd örfá dæmi um hvernig Bolli Sigurhansson brást við ef hann sá einhverja leið til að gera öðrum gott og hjálpa. Hann var einnig margfróður, vel lesinn og upplýstur maður sem gaman og fróðlegt var að ræða við. Þau Björk höfðu ferðast mikið um landið sitt og einnig höfðu þau farið til fjarlægra landa svo sem Japans og Indlands og margra fleiri. „Hún Björk mín grét nú dálítið í Delhi,“ sagði Bolli við mig þegar ég sagði honum að við hjónin værum á leið þangað og ástæðan fyrir þeim tárum var vitanlega eymd hinna snauðu sem Björk fann svo mikið til með. Þannig voru þau, manneskjur sem fundu til með öðrum og vildu láta gott af sér leiða. Manneskjur sem gott var að þekkja og gott að eiga að. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þeim, það var bæði gott og ekki síður skemmtilegt. Með þeim eru horfnir af sviðinu fulltrúar kynslóðar sem óðum er að hverfa. Kynslóðar sem mörgu kom til leiðar og lagði mikið af mörkum til að gera íslenskt samfélag að því sem það er í dag, en vel að merkja, átti engan þátt í að koma því í þau vandræði sem það er í núna. Bolli Sigurhansson var fæddur 21. desember 1928 og lést 3. janúar 2010. Björk Dagnýsdóttir var fædd 8. júlí 1930 og lést 5. maí 2008. Ég votta aðstandendum og vinum alla mína samúð, en eftir lifir minningin um gott fólk. Ingimundur Bergmann. Bolli og Björk, sumarið 1998 ásamt vinafólki.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.