Sameiningin - 01.04.1958, Qupperneq 10
8
Sameiningin
Á miðvikudagsmorguninn fóru fram kosningar. Var nú
ekki annar eins byltingarsvipur á þeim og hafði verið á
síðasta kirkjuþingi í Mountain, þar sem nú voru allir endur-
kosnir, en þá hafði nýr maður verið kosinn í hvert embætti.
En á milli þess, sem atkvæði voru talin, voru fulltrúar á-
varpaðir af Systur Önnu Melville, frú Björgu ísfeld, sem
talaði um hina nýju sálma- og helgisiðabók, Dr. Earl Treusch
og séra Edward Day.
Þingheimur tók með þökkum boði Selkirk-safnaðar um
að halda næsta Kirkjuþing þar. Lét einnig í ljósi þakklæti
sitt til Mountain prestakallsins fyrir myndir, sem það færði
Kirkjufélaginu að gjöf, en þær voru teknar á Kirkjuþinginu
1957. Forseti sleit síðan þinginu og árnaði fulltrúum góðrar
heimferðar.
Enn einu þingi var lokið. Enn einu sinni héldu þing-
fulltrúar hver til síns heima. Undirbúningur allur og fram-
kvæmdir hjá gestgjöfunum hafði verið til fyrirmyndar. En
ekki er það, samt sem áður, mögulegt fyrir neinn að svo
komnu máli að skera úr um árangur þessa þings. Sá árangur
verður ekki lýðum ljós fyrr en á Kirkjuþingi 1959, þegar
við heyrum skýrslur um strafsemi þessa árs. Árangurinn
eins og ég hef þegar tekið fram, er kominn undir starfi
safnaðanna, sem aftur byggist á skilningi og trú meðlimanna.
Hversu reiðubúnir þeir eru að þjóna Drottni og leggja sitt
lóð á metaskálarnar, sem getur ráðið úrslitum. En enginn
vafi er á því, að það var heitust bæn allra, sem þetta þing
sóttu, að ríkulegur árangur megi verða. Öll unnum við
Kirkjufélaginu, en við verðum að sýna það í verki, því lítið
lið er að „dauðum“ kærleika.
Hjá blómunum
Hérna þrífast blessuð blómin
breiðist um þau sólarljóminn.
Ylurinn og ilmur mætast
ofanað og jörðu frá.
Bló-min eru brautryðjendur
benda oss á Drottins hendur.
Vekur lotning, hjartað hrærir,
horfir til mín ,,Fjólan blá.“
—INGIBJÖRG GUÐMUNDSSON