Fréttablaðið - 26.08.2011, Síða 10

Fréttablaðið - 26.08.2011, Síða 10
26. ágúst 2011 FÖSTUDAGUR10 Föstudagsviðtaliðföstuda gur Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði S enn eru liðin þrjú ár frá bankahruninu á Íslandi. Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir ýmislegt hafa áunnist á þessum þremur árum þótt margt hafi einn- ig valdið vonbrigðum. „Það hefur tekist að koma á stöð- ugleika sem er forsenda þess að hagvöxtur geti hafist á ný. Þá eru fyrstu merki um hagvöxt komin fram í því að fjárfesting fyrirtækja utan stóriðju hefur aukist á árinu. Þetta eru ennþá lágar tölur en samt merki um viðsnúning,“ segir Gylfi og bætir við: „Það sem veld- ur vonbrigðum er að nettó útflutn- ingur er ekki að aukast þrátt fyrir lágt gengi krónunnar. Það virðist fyrst og fremst koma fram í góðri afkomu fyrirtækja í samkeppnis- greinum, svo sem sjávarútvegi, og lakari lífskjörum. Það kemur hins vegar ekki fram í aukinni fram- leiðslu og fjárfestingu. En vonandi vex útflutningur á næstunni.“ Hin svokölluðu góðæri Eins og margir kollegar hans hefur Gylfi látið nokkuð að sér kveða í opinberri umræðu eftir hrun en hann hefur einnig rannsakað aðdraganda og orsakir hrunsins fræðilega. Hann hefur lagt stund á rannsóknir og háskólakennslu frá því að hann hlaut doktorsgráðu frá Columbia háskóla árið 1993. Þá á Gylfi sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans, sem tekur ákvarð- anir um stýrivexti bankans. Gylfi segir að annað verkefni sem eigi eftir að leysa sé afnám hafta. Þá þurfi að ákveða hvern- ig peningamálum verði háttað hér til framtíðar. „Síðustu tvær upp- sveiflur hér urðu vegna innflæðis erlends fjármagns sem hækkaði gengið, lækkaði verð innflutnings- vara og jók kaupmátt samhliða því sem lánsfé jókst. Þetta var kall- að góðærisárin fyrir 2000 og svo aftur fyrir árið 2008 en á lítið skylt með því hugtaki. Það er mikilvægt að slík atburðarás endurtaki sig ekki. Að til verði stöðugra fyrir- tækjaumhverfi og vextir lækki.“ Gengissveiflurnar vandamál Gylfi gaf árið 2009 út ritgerð- ina Hagkerfi bíður skipbrot, um bankahrunið ásamt Jóni Daníels- syni, prófessor við London School of Economics. Meðal ályktana sem Gylfi og Jón drógu þar voru að kerfishrunið veitti innsýn í þær hættur sem fælust í því að lítið land sameinaðist mun stærra efnahagssvæði án þess að bæta stofnanir. Sett í samhengi við ESB virðist lærdómurinn vera sá að gagnkvæmur stuðningur sé á milli sameiginlegs markað- ar og myntbandalags. Með öðrum orðum að sameiginlegur markaður án þátttöku í myntbandalagi bjóði hættunni heim. Þá töldu þeir Gylfi og Jón ljóst að bæta þyrfti reglur um bankastarfsemi. Gylfi segist standa við þessar ályktanir nú þegar lengra sé liðið frá hruninu. „Reynslan af því að hafa eigin fljótandi gjaldmiðil er sú að gengissveiflurnar hjálpi ekki hagkerfinu. Fjármagnsflæði, gengissveiflur og útlánabólur eins og þær sem hér hafa orðið ógna stöðugleika fjármálakerfisins. Það má því ýmislegt gera. Styrkja þarf regluverk frekar til þess að draga úr hættunni á því að einstaklingar geti tekið áhættu á kostnað skatt- greiðenda. Ein sú breyting sem enn hefur ekki verið ráðist í er að banna viðskiptabönkum að reka fjárfestingarbankastarfsemi. Ef krónan verður hér áfram verður líka að breyta umgerð peninga- stefnunnar til þess að minnka gengissveiflur. Besta bólusetn- ingin gegn því að illa fari í fram- tíðinni væri þó auðvitað sú að fólk hefði lært af reynslunni.“ Skuldakreppa víða Áhyggjur af stöðu evrusvæðisins hafa magnast síðustu mánuði eftir því sem skuldakreppan á svæðinu hefur dýpkað. Gylfi hefur fylgst náið með þróuninni á evrusvæðinu en segir sams konar vanda víða. „Skuldir hins opinbera eru mun hærri í Japan en í nokkru Evrópu- ríki. Þá eru opinberar skuldir í Bandaríkjunum svipaðar því sem gerist í mörgum þeirra evruríkja sem verst eru stödd,“ segir Gylfi og bætir því við að skuldavandinn sé í flestum tilvikum síðasta stig fjármálakreppunnar sem hófst árið 2007. Fyrst hafi kreppan haft áhrif á banka, síðan framleiðslu og atvinnu og loks ríkisfjármál. „Hallarekstur hefur verið mik- ill fyrst og fremst vegna krepp- unnar. Að auki eiga sum ríki, til dæmis Grikkland og Bandaríkin, við kerfislægan vanda að glíma þegar kemur að öflun skatttekna,“ segir Gylfi og heldur áfram: „Vandi evrusvæðisins er í hnot- skurn að ekki eru til stofnanir innan þess sem geta ákveðið hver eigi að greiða það tjón sem verð- ur þegar bankar og jafnvel heilu ríkin geta ekki staðið í skilum í samtengdu hagkerfi. Bankar eru með starfsemi í mörgum löndum og færa fjármagn á milli þeirra, sem gerir það að verkum að tjón í einu landi bitnar á bönkum og skattgreiðendum í öðrum löndum. Segja má að bæði í Bandaríkj- unum og Evrópu eigi stjórnvöld í erfiðleikum með að ákveða hver eigi að greiða skuldir ríkisins. Og skuldabréfamörkuðum er illa við óvissu í stjórnmálum.“ En koma skuldavandræði í þessum hagkerfum Íslending- um við? Gylfi segir svo klárlega vera. „Lífskjör hér á landi tengj- ast því hversu vel gengur annars staðar. Þegar vel gengur annars staðar koma fleiri ferðamenn til Íslands og verð útflutningsvara hækkar. Jafnframt væri auðveld- ara að afnema gjaldeyrishöft ef ró væri á mörkuðum erlendis,“ segir Gylfi en bætir því við að ekki sé ástæða til að óttast kollsteypu hér á landi vegna óróa erlendis þar sem gjaldeyrishöftin takmarki fjármagnsflæði. Aðstæður ríkja ólíkar Þegar kemur að skuldakreppunni í Evrópu segir Gylfi gagnlegt að átta sig á ólíkum aðstæðum ríkja með sjálfstæðan gjaldmiðil og ríkja á evrusvæðinu. „Ríki á evrusvæðinu hafa bak- hjarl í Evrópska seðlabankan- um, sem tryggir að bankar hafi nægt lausafé í evrum. Auk þess hefur hann keypt ríkisskulda- bréf aðildarríkja og þannig lækk- að vaxtakostnað þeirra. Þannig hefur bankinn komið í veg fyrir gjaldþrot banka og jafnvel ríkja á svæðinu. Ríki með evru lenda þar að auki ekki í gjaldmiðilskreppu eins og gerðist hér 2008. Hins vegar verður síðasta stig fjár- málakreppu, sem kemur fram í erfiðleikum í ríkisfjármálum, erfiðara á evrusvæðinu en í landi þar sem skuldir eru í innlendum gjaldmiðli.“ Gylfi segir hægt að taka tvö lönd sem dæmi til að einfalda málið; Svíþjóð sem hafi eigin gjaldmiðil og Ítalíu sem noti evru. „Ef fjár- festar missa traust á sænskum ríkisbréfum og byrja að selja þau hækkar vaxtakostnaður sænska ríkisins. Hins vegar þarf ein- hver að kaupa krónur vilji menn losna við skuldabréfin. Ef síðan kemur í ljós að þeir vextir sem sænska ríkið greiðir eru of háir getur Sænski seðlabankinn keypt ríkisbréf og þannig lækkað lán- tökukostnaðinn. Ef annað bregst er svo unnt að setja á gjaldeyris- höft og fjármagna ríkisútgjöld með peningaprentun. Þá stendur sænska ríkið í skilum þótt gengi gjaldmiðilsins geti fallið mikið. Svíar geta síðan lækkað skulda- byrðina smám saman með verð- bólgu en það er einmitt þannig sem Bretar og Bandaríkjamenn losuðu sig við stóran hluta þeirra skulda sem urðu til í seinni heims- styrjöldinni,” segir Gylfi. Þegar litið er til ríkis á borð við Ítalíu er sænska leiðin ófær, segir Gylfi. Hverfi traust á ríkisbréfum Ítala leitar fjármagn úr ítölskum bönkum í þýska banka án þess að gengið lækki og Ítalir geta ekki beitt peningaprentun. Stóra vanda- málið sé hins vegar að vandinn geti smitast milli ríkjanna. „Ef þýskir bankar hafa lánað til Ítalíu er möguleiki á því að þýska ríkið verði fyrir tjóni vegna útlána- taps þýskra banka. Ef ítalska ríkið getur ekki staðið í skilum er stóra spurningin hvort ítölsku og þýsku bankarnir geti staðið af sér útlánatapið. Ef ekki, verður spurningin sú hvort það sé ítalska eða þýska ríkið sem eigi að greiða reikninginn. Auk þess verður Evr- ópski seðlabankinn fyrir tjóni hafi bankinn keypt ríkisskuldabréf til að lækka lántökukostnað. Þannig getur tjónið lent á öllum íbúum evrusvæðisins.“ Evrusamstarfið mun þróast Gylfi telur ljóst að reynslan af skuldakreppunni muni knýja á um breytingar á evrusamstarfinu. „Það má búast við því að til starfa taki eins konar „evrusjóður“ sem líkja má við Alþjóðagjaldeyrissjóð- inn. Slíkur sjóður myndi fylgjast með stjórn efnahagsmála í evru- ríkjunum og síðan koma til hjálpar þegar einstök ríki lentu í erfiðleik- um að gefnum skilyrðum.“ Gylfi segir vísi að slíkum sjóði þegar kominn fram og á þar við Stöðugleikastofnun ESB sem komið hefur verið á fót og hefur veitt Írlandi og fleiri löndum neyðarlán. „Mikil andstaða er hins vegar innan sambandsins við þá hug- mynd að öll evruríkin taki sameig- inlega ábyrgð á skuldum einstakra ríkja, hugmyndinni um svokölluð evruskuldabréf. Slík bréf myndu leysa vandann en andstaða við samruna útilokar þá lausn.“ Gylfi leggur þó áherslu á að enn sé of snemmt að segja með neinni vissu til um hver þróunin verði á evrusvæðinu. Spurður hvort það hafi áhrif á aðildarviðræður Íslands við ESB segir Gylfi Íslend- inga geta verið rólega enn. Við- ræðum ljúki ekki næstu tvö árin og því gefist tími til að fylgjast með hver þróunin verður. Að þeim tíma liðnum geti Íslendingar tekið ákvörðun um hvort þeir vilja aðild. Ástæðulaust að óttast kollsteypu Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor hefur fylgst náið með þróun efnahagsmála hér heima og erlendis á síðustu árum sem hafa verið æði viðburðarík svo ekki sé fastar að orði kveðið. Magnús Þorlákur Lúðvíksson ræddi við Gylfa um stöðuna í íslensku efnahagslífi nú þremur árum eftir hrun og skuldakreppuna sem víða geisar. Hann telur að hagvöxtur geti nú brátt hafist á ný hér á landi. GYLFI ZOËGA Gylfi hefur í rannsóknum sínum sérhæft sig í þjóðhagfræði og vinnumarkaðshagfræði. Þær hefur hann stundað samhliða kennslu við bæði Háskóla Íslands og Birkbeck College við University of London. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON Besta bólusetningin gegn því að illa fari í framtíðinni væri þó auðvitað sú að fólk hefði lært af reynslunni.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.