Morgunblaðið - 21.03.2009, Page 40
40 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. MARS 2009
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku Valdi, Bjarni Daníel, Jana,
Eygló, Haukur, Arnar og fjölskylda,
Einar og fjölskylda, Ingibjörg mín
og fjölskylda og Eva, mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur þjóta beint yfir
hafið til ykkar. Guðbjörg var ekkert
smá heppin að eiga svona yndislega
fjölskyldu sem stóð svo þétt við bak-
ið á henni, það er alveg dýrmætast af
öllu.
Ljós Guðbjargar mun ávallt lýsa á
meðal okkar allra.
Elísa Björk Þorsteinsdóttir.
Haustið 2007 hófu 55 einstakling-
ar metnaðarfulla vegferð í MBA-
námi við Háskólann í Reykjavík. Í
þessu námi er mikið treyst á sam-
vinnu og samspil hópa. Við undirrit-
uð vorum svo heppin að veljast í hóp
níu með Guðbjörgu á fyrstu önn.
Samstarfið var farsælt og héldum
við áfram að bera mál hvert undir
annað eftir að önninni lauk, við höfð-
um tengst böndum og ákváðum að
standa saman í gegnum þykkt og
þunnt. Hópurinn samanstóð af fimm
ólíkum einstaklingum, sem vógu
hver annan upp. Guðbjörg var í
raun límið í hópnum með sinni ótrú-
legu útgeislun og jákvæðni, en jafn-
framt sinni eðlislægu hógværð og
óeigingirni. Það voru mörg erfið
verkefni sem biðu okkar haustið
2007. Hvort sem það voru reikn-
ingsskil, hagfræði eða samninga-
tækni þá var Guðbjörg alltaf vel
undirbúin og hafði leyst verkefni sín
þegar kom að skilum. Nákvæmni og
öguð vinnubrögð lögfræðingsins
komu þar að góðum notum fyrir
hópinn.
Reyndar var það svo að hópur níu
eyddi miklum tíma í brandara,
kjaftasögur og vitleysu, í stað þess
að nota hann í þau verkefni sem stóð
til að leysa. Guðbjörg stóð sig vel
þarna sem á öðrum sviðum, enda
hárbeittur húmor undir dagfar-
sprúðu yfirborði hennar.
Reynsla okkar og raunir haustið
2007 urðu til þess að við ákváðum að
halda hópinn. Eftir stendur ógleym-
anleg kvöldstund heima hjá Kidda sl.
sumar þar sem Guðbjörg var svo
hress og öll veikindi virtust fjarri.
Þetta kvöld mun lifa í minningu okk-
ar.
Við þökkum Guðbjörgu fyrir að
hafa auðgað líf okkar og sendum
Valda, Jönu Björgu og Bjarna Daní-
el, fjölskyldu, ættingjum og vinum
samúðarkveðjur á þessum erfiðu
tímum.
Kristinn Eiríksson, Sigrún Eva
Ármannsdóttir, Sigurður Tóm-
as Björgvinsson, Snæbjörn Kon-
ráðsson.
Kveðja frá skólasystkinum í
MBA-námi í HR
Bekkjarsystir okkar Guðbjörg
Bjarnadóttir er fallin frá. Orðin eru
fá, hugsanirnar margar, tilfinningin
sár.
Við upphaf MBA-námsins haustið
2007 vorum við full eftirvæntingar
tilbúin að leggja af stað í spennandi
ferðalag þar sem ný vitneskja, verk-
efni og vinátta biðu okkar. Við bekkj-
arsystkin Guðbjargar kynntumst
henni sem jákvæðri, yfirvegaðri og
duglegri konu með óbilandi vilja-
styrk. Hugrekki hennar og kjarkur
voru eftirtektarverð. Hún var góður
samstarfsfélagi og traustur vinur. Í
MBA-nám fara þeir sem stöðugt
vilja takast á við nýjar áskoranir og
óvænt viðfangsefni. Þetta er tveggja
ára ferðalag sem krefst mikils. Guð-
björgu var falin erfið leið þar sem
hún sýndi aðdáunarvert baráttuþrek
og æðruleysi. Náminu fylgir góður
félagsskapur, gleði og einlæg sam-
vera. Þar sýndi Guðbjörg sínar bestu
hliðar enda félagslynd og mikill
húmoristi. Hún tók fullan þátt í þeim
ótrúlegu uppákomum sem við höfum
fengið að njóta í námi okkar. Þær
minningar eru vel varðveittar.
Það hefur verið lærdómsríkt að
fylgjast með því hvernig Guðbjörg
og Valdi maður hennar tókust á við
það stóra og erfiða verkefni sem
veikindi Guðbjargar voru. Guðbjörg
kenndi okkur að lífið er ekki sjálf-
gefið og að njóta þess meðan það
varir. Við fyllumst stolti af bekkjar-
systur okkar og fjölskyldu hennar,
sem var henni allt.
Kæri Valdi, Jana Björg, Bjarni
Daníel og aðrir ástvinir, hugur okkar
er hjá ykkur. Megi góður Guð
styrkja ykkur í sorginni. Við erum
elsku Guðbjörgu þakklát fyrir sam-
veruna. Ljúfar minningar leiða okk-
ur áfram.
Fyrir hönd MBA-bekkjarsystkina
í Háskólanum í Reykjavík,
Hildur Björk Hilmarsdóttir.
Það var í gamla Versló við Grund-
arstíg, sem leiðir okkar og Guðbjarg-
ar lágu saman haustið 1990. Við
höfðum allar tekið eftir Guðbjörgu
úr stórum hópi nemenda sem sest
höfðu á fyrsta ár í lögfræði við HÍ.
Hún sat frekar framarlega í stóra
salnum á fyrstu hæðinni, í yfirhöfn
með grænbláu indíánamynstri og
fylgdist af athygli með lærifeðrum
okkar segja okkur af fons juris, frá-
vísun ex officio og fleiri æsandi um-
fjöllunarefnum almennrar lögfræði.
Við röðuðumst saman í saumaklúbb
strax á fyrsta ári námsins; sauma-
klúbbinn „Jússurnar“, en nafnið
þótti hafa augljósa lögfræðilega skír-
skotun. Okkur varð fljótlega ljóst að
í Guðbjörgu bjó dugnaðarforkur og
gæðablóð, sem var ekki vön því að
mikla fyrir sér hlutina. Hún vatt sér
einfaldlega í öll verk af sjálfsaga og
samviskusemi, og ekkert verkefni
hefur nokkurn tímann verið of lítið –
né of stórt – til þess að Guðbjörg
sinnti því skipulega, með jafnaðar-
geði og af æðruleysi.
Guðbjörg stóð sig frábærlega í
náminu en að því loknu héldum við
vel hópinn og auk saumaklúbbanna
tóku við hádegisfundir, jólahlaðborð
og haustferðir um borgir Evrópu.
Þannig stýrði Guðbjörg meðal ann-
ars fjörugum magaæfingum okkar í
Lúxembúrgargörðunum í París og
rödduðum söng fyrir lögreglumenn í
Rómarborg.
Á hinum ýmsu fundum okkar
fengum við fréttir um hvernig lífi
Guðbjargar vatt fram: „Við Valdi er-
um að fara að gifta okkur“, „við eig-
um von á barni“, „ég er aftur komin
af stað“, „ég er orðin raðhúseigandi“.
Það var alltaf auðvelt að samgleðjast
Guðbjörgu í velgengni hennar, enda
ekki til öfund eða meinfýsni í hennar
eigin beinum. Það var svo á einum af
okkar fjölmörgu hádegisfundum í
miðbæ Reykjavíkur í upphafi árs
2005 að Guðbjörg flutti okkur skelfi-
leg tíðindi. Þessi stund greyptist í
huga okkar þótt okkur grunaði ekki
að þessi tíðindi myndu kalla fram
kveðjustund eftir einungis fjögur ár.
Þetta hlaut að vera góðkynja. Hún
hlaut að vinna á þessu. Við ætluðum
að sjá hana byggja sig upp aftur eftir
veikindin, og heyra áfram tíðindi af
lífi hennar og Valda, af Bjarna Daní-
el og Jönu Björgu sem hún var svo
óskaplega stolt af, starfsferlinum,
barnabörnum. En sagan endaði ekki
þannig. Guðbjörg þurfti að kveðja
okkur aðeins 38 ára gömul og það er
svo óendanlega sorglegt að við náum
varla utan um það.
En það vantaði ekki, að veikind-
unum var mætt með sömu persónu-
einkennum Guðbjargar og öðrum
verkefnum. Þessu ógnarstóra verk-
efni – sem að lokum varð stærra en
lífið sjálft – sinnti Guðbjörg af svo
ótrúlegu jafnaðargeði og æðruleysi,
að öðru eins höfum við aldrei kynnst.
Jafnvel sjálfur dauðinn gat ekki mát-
að hana, heldur tókst henni á undra-
verðan hátt að sættast við hans verk-
efni líka, með dyggum stuðningi
Valda og fjölskyldunnar. Við hinar
værum þakklátar fyrir að geta til-
einkað okkur brotabrot af þessum
eiginleikum Guðbjargar eftir nítján
ára samfylgd.
Elsku Valdi. Við erum hrærðar yf-
ir því hvernig þú hefur staðið eins og
klettur við hlið vinkonu okkar „í
blíðu og stríðu“. Bjarni Daníel og
Jana Björg. Þið hafið hlotið í vega-
nesti þann dýrmæta fjársjóð sem við
vitum að einstakir mannkostir móð-
ur ykkar hafa skilað ykkur. Við vott-
um ykkur og Eygló, Hauki og systk-
inum Guðbjargar okkar dýpstu
samúð.
Áslaug, Jóna Björk, Sigríður
(Níní) og Sigurlaug.
Það var í Verzló, haustið 1986, sem
við kynntumst og bundumst þeim
böndum sem hafa haldið æ síðan.
Guðbjörg kom okkur strax fyrir
sjónir sem aðlaðandi og hlý. Hún lét
ekki mikið yfir sér, var mjög yfirveg-
uð en fljótt kom í ljós hin sterka
kappsama íþróttastelpa sem kallaði
ekki allt ömmu sína. Hún hafði ung
misst föður sinn, þá elst fjögurra
systkina og kom sá þroski sem sú
reynsla færði henni sterkt fram í
hennar karakter. Þrátt fyrir að vera
yngst okkar, ári á undan í skóla,
fannst okkur hún oft vera eldri en við
hinar. Hún varð fljótt ein af kjarn-
anum sem hélt bekknum saman, ljúf,
góð, brosandi og hress – manneskja
sem allir vilja hafa í hóp enda er
vinahópur hennar fjölmennur. Í
bekknum bar hún af hvað samvisku-
semi varðar, ótrúlega skipulögð.
Þrátt fyrir að hafa nóg að gera í æf-
ingum, keppni og vinnu var hún allt-
af búin að læra heima og nutu
ónefndir bekkjarbræður stundum
góðs af því. Hún tók virkan þátt í fé-
lagslífinu, hafði gaman af að dansa
og syngja og gerði óspart grín að því
að hún komst ekki í kórinn hjá Jóni
Ólafs. En satt best að segja þá furð-
uðum við vinkonurnar okkur á því,
þar sem hún söng vel og af innlifun.
Í Verzló kom Valdi til sögunnar.
Þau voru glæsilegt par, en alla tíð
mjög ólík. Guðbjörg, þessi yfirveg-
aða dama og hann sprelligosinn, og
átti hún það til að roðna þegar Valdi
var í essinu sínu. Samband þeirra
þroskaðist farsællega, þau voru
sjálfstæð sem persónur en samstiga,
það var alltaf gott að koma til þeirra í
Haukalindina.
Guðbjörg sýndi ótrúlegt æðruleysi
í veikindum sínum og það lýsir henni
vel sem hún sagði fyrir skömmu við
eina okkar: „Það er svo margt sem
maður hefði getað gert öðruvísi í líf-
inu, en það þýðir ekkert að vera að
velta sér upp úr því. Maður á bara að
þakka fyrir hvern dag og njóta
þeirra tækifæra sem maður fær. Það
þýðir ekkert að vera að gera einhver
ársplön, það á bara að njóta lífsins
núna.“ Og þarna voru þau Valdi sam-
stiga sem aldrei fyrr. Valdi hefur
staðið þétt við hlið Guðbjargar í veik-
indum hennar og sýnt mikinn styrk.
Við bekkjarsysturnar úr 6.-X höf-
um haldið hópinn síðan í Verzló og
ýmislegt verið brallað. Hópurinn
hefur hist nokkuð reglulega og sér-
staklega nú á undanförnum árum.
Saumaklúbbar, matarboð og ferð til
Kaupmannahafnar haustið 2003
stendur upp úr. Veikindi Guðbjargar
urðu svo til þess að hópurinn þjapp-
aðist ennþá frekar saman. Við viljum
þakka Guðbjörgu fyrir samfylgdina í
þessu ferðalagi. Fyrir okkur var hún
fyrst og fremst ljúf, góð og traust
manneskja. Hún hefur skilið eftir
falleg spor í hjarta þeirra sem henni
hafa kynnst og verið okkur öllum
fyrirmynd.
Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,
þagnar kliður dagsins.
Guð er að bjóða góða nótt
í geislum sólarlagsins.
(Ísl. kvæðalag)
Við vottum Valda, Bjarna Daníel,
Jönu Björgu, Eygló, Hauki, tengda-
foreldrum, systkinum og fjölskyld-
um þeirra innilega samúð.
Ásta, Birgitta, Eyrún, Guðrún
Ágústa, Harpa, Jóhanna, Ragn-
heiður og Una Björk.
Mig langar með nokkrum orðum
að minnast Guðbjargar Bjarnadótt-
ur sem lést langt fyrir aldur fram
hinn 10. mars síðastliðinn. Við í
Landsbankanum urðum þeirrar
ánægju aðnjótandi að starfa með
Guðbjörgu um þriggja ára skeið, ár-
in 2001-2004. Hún hafði áður starfað
sem lögfræðingur hjá Fjármálaeft-
irlitinu en síðan um tíma sem innri
endurskoðandi Frjálsa fjárfesting-
arbankans. Það var því einstaklega
kunnáttusamur lögfræðingur sem
þarna bættist í hóp lögfræðiráðgjaf-
ar Landsbankans. Guðbjörg gekk
skipulega til verks, var fljót að
greina aðalatriðin í hverju máli og
hafði þann mikilvæga eiginleika að
klára þau verkefni sem hún tók að
sér. Ég minnist þess að bréf eða álit
sem hún vann voru ávallt sett upp á
skýran hátt og hversu vandað mál-
farið var. Greining hennar á lög-
fræðilegum álitaefnum var ætíð
ígrunduð og sett fram á þann hátt að
erfitt var að andmæla. Hennar kostir
gerðu hana að ákaflega mikilvægum
starfsmanni og mikil eftirsjá var að
henni þegar hún ákvað að snúa aftur
til Fjármálaeftirlitsins. Starfsemi
Fjármálaeftirlitsins var henni hins
vegar hugleikin enda taldi hún
krafta sína nýtast best þar. Eigin-
leikar sem Guðbjörg hafði í mjög rík-
um mæli, sem eru réttsýni, heiðar-
leiki og staðfesta, eru eiginleikar
sem eru mikilvægir starfsmanni
Fjármálaeftirlitsins. Guðbjörg gaf
frá sér góða strauma hvar sem hún
kom með jákvæðu og brosmildu við-
móti. Hún var mikill gleðigjafi á
mannamótum og ófeimin við að gera
gys að sjálfri sér ef henni varð eitt-
hvað á. Á sama tíma var hún föst fyr-
ir og óhrædd við að láta í sér heyra ef
henni þótti á öðrum brotið. Ég færi
Valda, Bjarna Daníel og Jönu
Björgu innilegustu samúðarkveðjur
frá fyrrverandi samstarfsmönnum í
Landsbankanum. Ykkar missir er
mikill en eftir lifir minning um ein-
staka konu sem ég efast ekki um að
heldur áfram að vera ykkur fyrir-
mynd í góðum verkum um ókomin
ár.
Gunnar Viðar.
Guðbjörg
Bjarnadóttir
Fleiri minningargreinar um Guð-
björgu Bjarnadóttur bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu
daga.
Sími: 525 9930
hotelsaga@hotelsaga.is
www.hotelsaga.is
Hótel Saga annast erfidr ykkjur af
virðingu og alúð. Fágað umhverfi,
góðar veitingar og styrk þjónusta.
Erfidrykkjur af alúð
✝
Elskuleg systir okkar og móðursystir,
GUÐBORG KRISTJÁNSDÓTTIR
frá Dalsmynni,
Hringbraut 99,
Reykjavík,
sem lést á Landspítalanum við Hringbraut laugar-
daginn 14. mars, verður jarðsungin frá Dómkirkjunni
í Reykjavík mánudaginn 23. mars kl. 13.00.
Anna S. Kristjánsdóttir,
Ella Kristjánsdóttir,
systrabörn og fjölskyldur þeirra.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og
afi,
INGI SÆVAR ODDSSON,
Asparási 1,
Garðabæ,
lést á Landspítalanum Hringbraut fimmtudaginn
19. mars.
Útför hans verður auglýst síðar.
Þuríður Antonsdóttir,
Hrafnhildur Ingadóttir, Barði Ágústsson,
Oddur Ingason,
Gunnar Ingason, Svanhildur Kristinsdóttir,
Ómar Ingason, Aníta Berglind Einarsdóttir
og barnabörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir og afi,
AUÐUN HLÍÐAR EINARSSON,
Neshaga 14,
Reykjavík,
lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund fimmtu-
daginn 19. mars.
Útför hans verður frá Neskirkju fimmtudaginn
26. mars kl. 15.00.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilja minnast
hans er bent á að styrkja dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund.
Karen Tómasdóttir,
Halla Auðunardóttir,
Hannes Auðunarson, Heiða Björk Marinósdóttir,
Katrín Auðunardóttir, Björn Oddsson
og barnabörn.