Morgunblaðið - 21.03.2009, Page 54
54 MenningFÓLK
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. MARS 2009
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson
jbk@mbl.is
„ÞESSI mynd er fyrst og fremst um
tilfinningar og samskipti, og hún
fjallar um fólk,“ segir kvikmynda-
gerðarmaðurinn Friðrik Guðmunds-
son um heimildarmyndina Me &
Bobby Fischer sem verður frumsýnd
hinn 17. apríl nk. Myndin fjallar um
skáksnillinginn Bobby Fischer og
vináttu hans og Sæmundar Páls-
sonar, Sæma rokk, og hófst vinna við
hana þegar Sæmi fór ásamt fríðu
föruneyti til Japans til þess að fá
Fischer lausan úr fangelsi.
„Þessi mynd er búin að taka helj-
arinnar tíma, ég held að það séu bara
akkúrat fjögur ár frá því ég var í Jap-
an,“ segir Friðrik og bætir því við að
hugmyndin hafi alltaf verið sú að
fylgja Sæma eftir í myndinni, og láta
hann segja söguna.
„Myndin er eiginlega jafnmikið um
þá báða. Hún byrjar reyndar í kalda
stríðinu og svo er farið hratt yfir
sögu. Við skellum okkur yfir til Jap-
ans þar sem Sæmi er að reyna að
frelsa vin sinn. Svo heldur sagan bara
áfram þangað til Bobby deyr. En
þetta var aldrei hugsað sem mynd um
Bobby einan, ég hefði aldrei nennt að
gera slíka mynd. En þegar þeir koma
saman er mjög gaman að fylgjast
með, því annar sparkar í allt sem fyr-
ir verður á meðan hinn dásamar allt
sem hann sér,“ segir Friðrik.
Deilt um peninga
Fyrir tæpum tveimur árum bárust
af því fréttir að Fischer væri ósáttur
við að Friðrik væri að gera um sig
mynd, en RJF-hópurinn, stuðnings-
hópur Fischers, sendi þá frá sér til-
kynningu þar sem meðal annars kom
fram að viðfangsefnið væri í miklu
ósamræmi við það sem rætt hafði
verið um. Aðspurður segir Friðrik
þetta mál hafa verið á misskilningi
byggt, og hann telur raunar að Fisch-
er hafi aldrei verið á móti gerð mynd-
arinnar. „Ég
gerði heið-
ursmanna-
samkomulag við
hann á sínum tíma
þar sem hann
sagði að ég mætti
eiga efnið og gera
það sem ég vildi
við það. Aftur á
móti held ég að
RJF-hópurinn
hafi alla tíð verið ósáttur við að ég
væri að gera þessa mynd,“ segir
Friðrik og bætir því við að málið sé
nokkuð flókið. „Á ákveðnum tíma-
punkti slettist aðeins upp á vinskap-
inn hjá Sæma og Bobby af því að
Bobby fannst að Sæmi hefði ekki látið
sig fá nógu góðan lögfræðing í
ákveðnu máli. En það var náttúrlega
voðalega erfitt að gera honum til hæf-
is yfirleitt. En svo förum við að ræða
þessa mynd, og þá fréttir Bobby að
ég hafi gefið Sæma 15% hlut í mynd-
inni. Ég sagði við Bobby að ef þetta
snerist um peninga mætti hann bara
eiga 15% líka. Það er eins og margir
hafi nefnilega haldið að þessi mynd
snerist um einhvern gullgröft. Það er
ekki rétt, eini styrkurinn sem ég hef
fengið er 500.000 krónur frá Íslenskri
erfðagreiningu. Myndin kostar 40
milljónir þannig að ég er bara búinn
að éta kartöflur í þrjú ár,“ segir Frið-
rik og hlær. „En allavega, þá vildi
Bobby ekki að Sæmi fengi neitt fyrir
þessa mynd. Þar sem ég var búinn að
gera samkomulag við Sæma vildi ég
hins vegar ekki svíkja það.“
Friðrik segir að leiðangur Sæma til
Japans hafi kostað hann mikla pen-
inga, og því hafi hann viljað gefa hon-
um hlut í myndinni. „Mér fannst
nokkuð eðlilegt að ef myndin myndi
einhvern tímann skila hagnaði fengi
Sæmi hluta af því. Þannig að ég sagði
bara nei við Bobby, en bauð honum
30% í staðinn. Hann tók það ekki
heldur í mál því hann vildi ekki að vin-
ur sinn græddi á sér.“
Friðrik segir að þótt myndin hafi
kostað 40 milljónir hafi sér tekist að
gera hana án þess að fjármagna hana.
„Ég fékk bara greiða hjá hinum og
þessum, fékk lánuð tæki og svona.
Svo hef ég verið með tvær mann-
eskjur sem hafa ekki þegið laun,
Dögg Mósesdóttur klippara og Reyni
Frey Reynisson, annan leikstjóra.“
Friðrik vonar því að myndin slái í
gegn og hann fái þannig laun eftir á.
„Aðalatriðið er hins vegar að ég klár-
aði myndina, enda er ég orðinn mjög
ánægður með hana.“
Me & Bobby Fischer verður frum-
sýnd á Græna ljósinu hinn 17. apríl
auk þess sem Sjónvarpið hefur keypt
sýningarréttinn að henni.
„Ef hún nær ekki 120.000 manns í
bíó eins og hún þarf fer ég svo bara að
vinna á valtara eða í sjoppu,“ segir
Friðrik að lokum og hlær.
Ég og Bobby Fischer
Heimildarmyndin Me & Bobby Fischer verður frumsýnd hinn 17. apríl nk.
Fjallar um Fischer og Sæma Rokk Kostaði blóð, svita og tár – og 40 milljónir
Vinir Sæmi og Fischer á kynningarveggspjaldi myndarinnar.
Friðrik
Guðmundsson
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen
arnart@mbl.is
DANIEL Chun er fæddur 1980, út-
skrifaður frá Harvard og eftir aðeins
sex ára vinnu (sem fer fram í fimm-
tán manna teymi) er hann orðinn
einn af meðframleiðendum þátt-
anna. Blaðamaður tók einn lauflétt-
an morgunkaffi með Chun á Lauga-
veginum en hann er hér í slagtogi
með gömlum og góðum félögum sem
hafa færri tækifæri til að hittast nú
en áður, eins og gengur.
„Ég bý núna í L.A. en þar er skrif-
stofa höfundanna. Ég sé strákana
sjaldan og okkur fannst því upplagt
að drífa okkur hingað í smáfrí.“
Chun hóf að vinna fyrir Simpsons
þegar komið var fram í fimmtándu
þáttaröð og segir hann flest það sem
að þættinum snúi sé orðið harla fast-
mótað.
„Það er sannarlega haldið á spöð-
unum þarna og það er ekkert færi á
því að umbylta neinu þarna lengur.
Þetta eru orðin hálfgerð vísindi
mætti segja.“
Hómer í hættu?
Chun er eðlilega meðvitaður um
þau gríðarlegu menningarlegu áhrif
sem þættirnir hafa haft í gegnum ár-
in. Í þáttunum veigra menn sér ekki
við að skjóta hvað sem er niður,
meira að segja sjónvarpsstöðina sem
hýsir þá.
„James L. Brooks, einn frumhöf-
unda Simpsons, setti þá kröfu fram
strax í upphafi að Simpsons yrðu
fullkomlega frjálsir undan hvers
kyns ritskoðun,“ segir Chun. „En
þetta hefur aðeins verið að breytast
undanfarin ár, eftir því sem hefur
kreppt að. Núna eru t.a.m. ákveðin
vörumerki sem við getum ekki snúið
upp á lengur. Það verður athygl-
isvert að sjá hvernig þau mál þróast.
En í öllu falli er ekki hægt að hugsa
sér betri vinnustað, eins og þú getur
líklega ímyndað þér!“
Kæfir kreppan Simpsons?
Morgunblaðið/Ómar
D’oh! Chun ásamt feðginunum, Hómer og Lísu.
Einn af handritshöfundum The Simpsons er staddur
hérlendis í leyfi Handritavinnan hálfgerð vísindi
Útvarpsmaðurinn og tónleika-
haldarinn skeleggi Ómar Eyþórs-
son fer með nýjan þátt í loftið á
X-977 eftir rétta viku, laugardag-
inn 28. mars, kl. 10. Ber þátturinn
nafnið Kassettan og verður helg-
aður grasrót íslenskrar tónlistar.
Tónlist sem er nýkomin í spilun á
stöðinni verður leikin en það sem
mest er um vert er að hljómsveitir
og listamenn geta sent lögin sín til
umsjónarmanns sem tekur þau til
skoðunar.
Stefnt er svo að því að velja eitt
lag úr nýja bunkanum í mánuði og
henda í spilun á X-977.
Víst er að þáttur þessi á eftir að
reynast öflugur liðsmaður íslensks
tónlistarlífs og metnaðarfullar
sveitir fá gott tækifæri til að koma
sér á framfæri. Framtak sem aðrar
útvarpsstöðvar ættu að taka sér til
fyrirmyndar. Áhugasamir geta sent
póst á omar@x977.is.
Grasrótin í beinni
Fólk
TVÆR íslenskar sveitir, Bloodgroup og
Sprengjuhöllin, eru nú staddar á tónlistarhátíð-
inni SXWS eða South By South West í Austin,
Texas. Hátíðin er ein virtasta hátíð sinnar teg-
undar og sannanlega sú umfangsmesta.
Sveitirnar tvær hafa þegar náð að vekja
nokkra athygli sem verður að teljast firnagóð-
ur árangur, enda spila yfir þúsund hljómsveitir
þarna í hverjum kústaskáp.
Time Out í Chicago valdi t.a.m. Sprengju-
höllina sveit dagsins á fyrsta degi hátíðarinnar.
Blaðamaður segist ekki geta borið fram nafnið
frekar en aðrir lesendur en segir að forsöngv-
arinnar, Bergur Ebbi, hafi þó eytt liðlega
þremur mínútum í að útskýra framburðinn.
Hann segir svo að þetta sé sveit sem fólk ætti
að leggja sig eftir. „Sveitin var skemmtilegri
en orð fá lýst. Söngvarinn er einn fyndnasti
sviðsmaður sem ég hef lengi séð og vafði fólki
um fingur sér. Orkuríkt poppið var síðan flutt
af gegnheilli ástríðu.“
Bloodgroup treður upp í kvöld og sjálf bibl-
ían Spin setur sveitina í efsta sætið á níu
hljómsveita lista sem tekur yfir þau „óþekktu“
bönd sem fólk ætti ekki að missa af. Næsta
þriðjudag spila sveitirnar svo saman í New
York. Bloodgroup er svo bókuð á tvær aðrar
hátíðir, North By Northeast og G! Festival. Ný
breiðskífa frá hljómsveitinni kemur svo út í
haust en frumburður sveitarinnar, Sticky Sit-
uation (2007) var mærð í bak og fyrir af máls-
metandi gagnrýnendum.
Íslendingar vekja athygli á SXSW
Morgunblaðið/Valdís Thor
Skemmtilegir Blaðamaður gat ekki á heilum sér
tekið eftir að hafa séð Sprengjuhöllina.
Árlegt ball hinna ástsælu Spaða,
„gáfuðustu hljómsveitar landsins“,
verður haldið á NASA í kvöld. Þar
fara m.a. mikinn þeir Guðmundur
Andri Thorsson rithöfundur, Gunn-
ar Helgi Kristinsson, stjórnmála-
fræðingur og Sigurður G. Val-
geirsson, fjölmiðlamaður.
Sveitin er ein helsta költsveit
landsins og nú eru tvö ár liðin frá
síðasta „árlega“ balli (?). Sveitin
hefur annars mest verið að spila í
Flatey undanfarin misseri, af ein-
hverjum sökum. Fylgismenn sveit-
arinnar þykja harðsnúnir og koma
úr ýmsum og undarlegum áttum;
menntaskólabekkur einn lætur sig
t.a.m. aldrei vanta á tónleika og
þorpsbúar í Rifi á Snæfellsnesi eru
víst forfallnir aðdáendur.
Liðsmenn Spaða hafa annars
þungar áhyggjur af því að vera
orðnir of „mainstream“ eins og það
er kallað, en gáskafullar hljóm-
sveitir sem styðjast við kjarnyrta
og kerskna texta eru æði algengar í
dag. Spurning hvernig þeir bregð-
ast við því?
„Mainstream“ Spaðar!