Morgunblaðið - 30.09.2009, Page 8
8 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. SEPTEMBER 2009
FRÉTTASKÝRING
Eftir Önund Pál Ragnarsson
onundur@mbl.is
„VANDINN sem fylgir ósjálfbærri
skuldsetningu heimila er verulegur
þröskuldur í vegi efnahagslegrar
endurreisnar,“ sagði Árni Páll Árna-
son félagsmálaráðherra á Grand-
hótel í gær. Hann flutti erindi á
fundi Félags viðskipta- og hagfræð-
inga í hádeginu, um væntanlegar að-
gerðir stjórnvalda.
Árni Páll sagði að í hruninu hefði
stórum hala mannlegs harmleiks
verið safnað upp. „Ekki er hægt að
áætla hvað verður mikið afskrifað.
Það er úrlausnarefni framtíðarinnar
að gera upp þennan kreppuhala og
sjá þá til, hversu mikinn hluta af
honum þarf að klípa af.“
Kvað hann bestu leiðina til að
hjálpa fjölskyldum landsins yfir erf-
iðasta hjallann vera að laga greiðslu-
byrðina að launaþróun, og halda
þannig ákveðnu samhengi á milli
verðmætasköpunar og útgjalda
heimilanna.
Hin hóflegri viðmiðun notuð
Hins vegar ætti ekki að afnema
samningsfrelsi í viðskiptum. Að-
gerðir stjórnvalda yrðu eins konar
gólf af úrræðum sem allir mættu
eiga von á, en einstakar lánastofn-
anir gætu þar að auki boðið við-
skiptavinum sínum nýjar lausnir,
svo sem skuldbreytingar eða nið-
urfellingar á lánum. Hann teldi það
því ekki mismunun, sem stjórnvöld
þyrftu að afnema, ef einn banki byði
sínum viðskiptavinum lækkun á höf-
uðstól en annar ekki.
Hugsunin væri sú að á meðan
launaþróun væri lakari en þróun
verðlagsins yrði borgað í samræmi
við hina hóflegri viðmiðun. „En um
leið og hagurinn vænkast breytast
viðmiðin og við höfum ráð á því að
borga meira,“ sagði Árni Páll
Tryggvi Þór Herbertsson fagnaði
væntanlegum aðgerðum þótt þær
væru ekki fullkomnar. Hann sagði
að þetta þýddi 25-35% lækkun á
greiðslubyrði fyrir flesta, ef færa
ætti afborganir aftur til þess sem
gilti í maí 2008, fyrir hrun.
Tryggvi Þór bætti því við að lík-
lega slægjust Kaupþing og Lands-
bankinn von bráðar í hóp með Ís-
landsbanka og byðu niðurfærslur á
höfuðstól gengis- og verðtryggðra
lána. Biðreikningurinn sem greiðslu-
jöfnun hlæði upp væri orsök óvissu
um verðmæti eignasafns bankanna.
„Þetta er vandamál sem mun koma
upp í framtíðinni. Lánardrottnar
munu spyrja: Hvers virði er þetta
eignasafn? Það er því ekki ólíklegt
að hinir bankarnir tveir muni fylgja í
kjölfarið og bjóða upp á einhvers
konar skuldaniðurfellingu,“ sagði
Tryggvi Þór.
Klípa halann af seinna meir
Morgunblaðið/Ómar
Pallborð Þórólfur Matthíasson var spurður hvers vegna verðtrygging væri ekki álitin vandamál og afnumin. Sagði
hann ómögulegt að afnema hana með öllu, en ef það yrði gert myndi hann flytja af landi brott, að gefinni reynslu.
25-35% lækkun greiðslubyrði hjá mörgum eftir tengingu greiðslubyrði við launaþróun og atvinnustig
Lántakendur þurfa að íhuga mjög vandlega hvort skuldbreyting og lækkun höfuðstóls gagnast þeim
Í HNOTSKURN
»Gísli Tryggvason sagðiviðhorf hagfræðinga til
vandans að þeir ættu að borga
sem gætu. Viðhorf lögfræð-
inga væri að þeir skyldu borga
sem ættu að gera það með
réttu.
»Hann greindi frá tillögusinni í apríl til stjórnvalda
um stjórnskipaðan gerðardóm
um niðurfærslu veðlána.
»Enn hefði samráð stjórn-valda við fulltrúa lántak-
enda ekki átt sér stað.
Í dag verða kynntar aðgerðir
stjórnvalda við skuldavanda
heimilanna, lækkun greiðslubyrði
lána með því að tengja hana við
greiðslujöfnunarvísitölu, þ.e.
launavísitölu og atvinnustig.
Íslandsbanki hyggst bjóða 25% lækkun á höfuðstól er-
lendra lána, ef skuldarar kjósa að breyta þeim í óverð-
tryggð krónulán. Ýmist verður boðið upp á breytilega
vexti eða fasta, samkvæmt upplýsingum frá bankanum.
Breytilegir vextir verða 7,5% í upphafi, en fastir vextir
til þriggja ára verða 9,0%. Boðið verður upp á greiðslu-
jöfnun næstu þrjú árin líka.
Mánaðarleg greiðslubyrði næstu tólf mánuði, af er-
lendu láni sem stendur í 20 milljónum, er 106 þúsund
krónur. Eftir þrjú ár í skilum verða tæpar 17 milljónir
eftir af höfuðstólnum. Ef skuldarinn er í greiðslujöfnun
er byrðin hins vegar um 92 þúsund á mánuði, og eftir
þrjú ár verða 17,4 milljónir eftir.
Sé lánið lækkað um 25% og því breytt í óverðtryggt,
verður höfuðstóllinn 15 milljónir. Þá lækkar hin mán-
aðarlega afborgun í 102 þúsund krónur og eftir þrjú ár
eru rúmar 14 milljónir eftir af höfuðstólnum. Ef lánið er
í greiðslujöfnun yrði afborgunin sú sama og fyrir lækk-
un, 92 þúsund krónur, en eftir þrjú ár yrðu tæpar 15
milljónir eftir af höfuðstólnum.
Í þessu dæmi er gert ráð fyrir hóflegri hækkun vísi-
tölu, hóflegri lækkun óverðtryggðra vaxta og geng-
isþróun samkvæmt spá Seðlabankans. Einnig óbreytt-
um vöxtum erlendis á lánstíma og óbreyttu vaxtaálagi.
Dæmið er því ekki jafneinfalt og í fyrstu sýnist.
Samkvæmt upplýsingum frá bankanum verður við-
skiptavinum því ráðlagt að meta vandlega hvort skuld-
breytingin henti þeim persónulega, eða ekki.
„Þetta er ágætt innlegg frá bankanum, en hver lán-
taki verður að meta hvort þetta hentar honum eða ekki.
Það er ekki sjálfgefið að það fylgi þessu mjög mikil
meðgjöf frá Íslandsbanka, enda önnur vaxtakjör eftir
skuldbreytinguna,“ segir Ólafur Darri Andrason, hag-
fræðingur ASÍ, um skuldbreytingarnar almennt.
Dæmi um lækkun láns hjá Íslandsbanka
Askalind 3 • 201 Kópavogur • Sími: 562 1500
Morgunblaðið/Kristinn
Á Álftanesi Bæjarstjórnin sat við háborðið á fundi í gær. Einn gesta þurfi að færa sig nær til að heyra það sem fram
fór, en nýr meirihluti í bæjarstjórninni var tvímælalaust stærsta mál þessa annars sögulega fundar.
NÝR meirihluti er tekinn við völdum í bæjarstjórn á
Álftanesi. Að samkomulaginu standa þrír bæjarfulltrúar
D-lista og Margrét Jónsdóttir, óháður fulltrúi. Hún
starfaði áður undir merkjum Álftaneslistans sem áður
hafði hreinan meirihluta í bæjarstjórninni. Viðreisn á
fjárhag sveitarsjóðs er sögð forgangsmál í meirihluta-
samstarfinu. Pálmi Már Másson verður bæjarstjóri jafn-
hliða starfi bæjarritara.
Meirihlutinn kynnti sig og sitt á bæjarstjórnarfundi í
gærkvöldi þar sem jafnframt var kosið í ábyrgðarstöður
og nefndir. Væringar hafa lengi verið í bæjarstjórn á
Álftanesi. Margrét Jónsdóttir klauf sig út úr Álftanes-
listanum fyrir nokkrum mánuðum og eftir var pattstaða í
bæjarmálunum, þar sem allir voru á móti öllum. Nú hef-
ur hins vegar tekist að rjúfa þá herkví með því meiri-
hlutastarfi sem hefur verið stofnað til og mun standa til
loka kjörtímabilsins, ef að líkum lætur.
sbs@mbl.is
Nýr meirihluti tekinn við völdum