Saga - 1980, Blaðsíða 372
358
RITFREGNIR
tæki, því þau voru ekki til á þessum tíma, og þetta orð ekki til í ís-
lenzku máli fyrr en á sjötta tug þessarar aldar. Á bls. 48 er fullyrt,
að afsögn keisarans hafi „(bundið) enda á 1000 ára einveldi í
Rússlandi". Hér er á ferð enn eitt dæmið um ónákvæmni í fram-
setningu, vegna þess að einveldi í eiginlegri merkingu þess orðs
var alls ekki við lýði í Rússlandi nema hluta þess tímabils, sem hér
um ræðir.
Þá langar mig að vekja athygli á eftirfarandi lýsingu bókarhöf-
undar á Lenin, sem er að finna á bls. 49: Hann var „dæmigerður
öfgamaður, sem einblíndi svo mjög á takmark sitt, að hann sinnti
engum mannlegum samskiptum". Hvað er þetta annað en rakalaus
fullyrðing og sleggjudómur. Jafnvel höfundi sjálfum virðist blöskra
sín eigin orð, því að á næstu síðu tíundar hann að Lenin hafi
átt hjákonu! Slíkt hlýtur þó fjandakornið að falla undir hugtakið
„mannleg samskipti". Um þetta mál skal ekki fjölyrt hér, en aðeins
bent á eina heimild um persónulega hagi og einkalíf Lenins, bókina
Endurminningar um Lenin, sem út hefur komið á íslenzku. Á bls. 50
er sett fram sú fullyrðing, að þegar Lenin kom heim, hafi mensé-
vikar haft „ meirihluta í ráðinu“ og „forystu í bráðabirgðastjóm-
inni“. Við þetta er ýmislegt að athuga. Lenin kom til Petrograd
snemma í apríl. Þá var áhrifastaða mensévika í ráðunum vissulega
sterk, en ekki höfðu þeir neinn meirihluta þar einir, heldur voru
þeir í samstarfi við þjóðbyltingarmenn. Hins vegar er beinlínis
rangt, að þeir hafi um þær mundir verið í forystu í bráðabirgða-
stjórninni, því að þeir voru ekki einu sinni orðnir aðilar að henni
þá. Það gerðist ekki fyrr en 5. maí og má raunar deila um, hvort
mensévikar sem slíkir hafi nokkru sinni orðið þar eiginlegt forystu-
afl, því Kerenski, „sterki maðurinn“ í stjórninni, taldist fremur til
þjóðbyltingarmanna. Á bls. 51 er staðhæft, að ráðið í Petrograd
hafi orðið þess valdandi að baráttukjarkur hersins hafi orðið að
engu með því að mæla svo fyrir, að liermannaráð yrðu stofnuð í
hverri herdeild og allri aðgreiningu foringja og óbreyttra her-
manna hætt. Fullyrðing af þessu tagi fær ekki staðizt, því að bar-
áttuþrek rússneska hersins var í reynd á þrotum, áður en umræddar
ákvarðanir voru teknar og þeim hrundið í framkvæmd. Þær breyttu
því litlu til eða frá í þessu efni.
Á bls. 55 er látið svo ummælt, að meðan á stóð valdabaráttu Stal-
ins og Trotskys „einangruðu Rússar sig frá öðrum Evrópuþjóðum“-
Hér skýtur nokkuð skökku við. Einmitt á þessum árum og raunar
allt frá árinu 1921 var við lýði í Sovétríkjunum svokölluð NEP-
stefna, en í henni fólst m.a. að leggja bæri áherzlu á að koma sam-
búð Sovétríkjanna við ríki kapítalismans í „eðlilegt" horf með þvi
að koma á viðskiptatengslum og taka upp stjórnmálasamband, auk