Morgunblaðið - 31.12.2009, Page 26

Morgunblaðið - 31.12.2009, Page 26
26 Stjórnmál MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. DESEMBER 2009 Á rið sem nú rennur sitt skeið á enda hefur verið okkur Íslend- ingum erfitt vegna ástæðna sem öllum eru kunnar. Um leið eru þó sem betur fer góðar líkur á að ársins verði minnst fyrir þá þrautseigju sem þjóðin sýndi við erfiðar að- stæður og sem þess árs þar sem grunnur var lagður að endurreisn íslensks efnahagslífs. Í upphafi árs ríkti mikil reiði, svartsýni og ótti í samfélaginu en almenningur sýndi með fjölmennum mótmælum að enn bjó von um betri tíð í brjósti fólks. Meginkrafa mótmælanna var þríþætt: að ríkisstjórnin færi frá, boðað yrði til kosninga strax og að endurnýjun og endur- skipulagning færi fram í aðhalds- og eftirlitsstofnunum efnahagslífs- ins. Mótmælin leiddu á endanum til þess að sitjandi forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína og við tók minnihlutastjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar sem Framsóknarflokkurinn hét að verja falli. Í framhaldi var boðað til alþingiskosninga og þar fékk minnihlutastjórnin fullt umboð og varð að meirihlutastjórn. Bæði í tíð minnihlutastjórnar- innar og þeirrar sem nú situr hafa verið gerðar fjölmargar úrbætur í stofnunum sem hafa það hlutverk að standa vörð um heilbrigt efna- hagslíf landsins. Sett voru ný lög um Seðlabankann sem kveða á um faglega skipaða yfirstjórn bankans. Í kjölfarið voru tveir hæfir fagmenn skipaðir í stöður bankastjóra og aðstoðarbanka- stjóra úr hópi fjölda umsækjenda. Þá var einnig skipt um yfirstjórn í Fjármálaeftirlitinu og lagður grunnur að nýjum lögum um fjár- málamarkaði. Síðast en ekki síst var embætti sérstaks saksóknara, sem fer með rannsókn á refsi- verðri háttsemi í aðdraganda hrunsins, stórefld. Ríkisstjórnin hefur þannig með verkum sínum reynt eftir bestu getu að svara kalli almennings um endurbætur og siðbót þó að vissulega megi gera betur. Annað mikilvægt verkefni er að bæta stöðu fjölmiðlunar á Íslandi en ljóst er að fjölmiðlar sváfu ekki síður á verðinum en eftirlits- stofnanir stjórnvalda. Því miður hefur efnahagshrunið orðið til þess að staða íslenskra fjölmiðla er enn veikari en áður og hefur Morgunblaðið ekki farið varhluta af því. Það gleður mig að Morg- unblaðið skuli þrátt fyrir allt koma út, að ekki skuli hafa myndast enn eitt skarðið í fátæk- lega og þrönga fjölmiðlaflóru landsins. Í upphafi árs komst rekstrarfélag blaðsins í mikla erf- iðleika og þurfti að fá felldar nið- ur skuldir og sækja sér nýtt fjár- magn svo halda mætti rekstrinum áfram. Það hefði verið missir að Morgunblaðinu því þar hefur lengi verið ástunduð, burtséð frá pólitískri ritstjórnarstefnu, vönd- uð og fagleg blaðamennska sem oftast mátti treysta. Því miður hefur blaðið orðið fyrir mikilli blóðtöku með brotthvarfi fjölda vandaðra blaðamanna sem með störfum sínum á Morgunblaðinu auðguðu íslenska fjölmiðlun og menningu. Það er von mín og trú að þeim starfsmönnum sem eftir sitja og í staðinn hafa komið tak- ist að viðhalda eða eftir atvikum endurreisa orðstír blaðsins. Það er þó ekki þannig að stjórnvöld hafi ekki hugað að stöðu fjölmiðla því nú liggja fyrir drög að fyrstu heildarlöggjöfinni um fjölmiðla og starfsemi þeirra hér á landi. Með þessum lögum er ætlunin að styrkja og bæta ritstjórnarlegt sjálfstæði fjöl- miðla og starfsumhverfi fjöl- miðlafólks auk þess að setja reglur um eignarhald á fjöl- miðlum. Áður hefur verið gerð tilraun til slíkrar lagasetningar en undirbúningur hennar og fjöl- margar útgáfur af frumvörpum til laga báru vott um flumbru- gang og slæleg vinnubrögð. Nú standa vonir manna til að betri samstaða náist um málið enda hefur verið vandað töluvert meira til verka en þá. Það er ein- læg ósk mín og trú að með nýju ári og nýjum fjölmiðlalögum hefjist tímar uppbyggingar hjá íslenskum fjölmiðlum, bæði hjá Morgunblaðinu og öðrum. Von og trú á bjartari framtíð er það veganesti sem við öll þurfum inn í nýtt ár. Árið sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur kennt okkur að hægt er að ná árangri við afar erfiðar að- stæður. Það sýnir sig í því meðal annars að fæstir hinna fjölmörgu heimsendaspádóma sem settir hafa verið fram í opinberri um- ræðu hafa ræst. Á árinu hefur okkur tekist að endurreisa bankakerfið á mun hagstæðari hátt en nokkurn hafði órað fyrir og svo um munar fyrir afkomu ríkissjóðs: 250 milljörðum króna minni bein fjárútlát og 46 milljörðum króna lægri vaxtagjöld á þeim árum sem nú mætast. Ekki má heldur horfa fram hjá mikilvægi þess að þessi niðurstaða náðist í samkomulagi við alla helstu kröfuhafa bankanna, sem bætir samskiptin við þá og dregur úr líkum á málaferlum. Einnig tókst að koma böndum á ríkis- fjármálin þannig að afkoma ríkissjóðs er mun betri en á horfðist um tíma og í samræmi við fjárlög sem samþykkt voru í lok síðasta árs og voru af mörg- um talin óraunhæf. Þá hefur tekist að tryggja þau lán sem þurfti til að tryggja Seðlabank- anum traustan gjaldeyris- varaforða. Einnig horfir betur með þróun verðbólgu og at- vinnuleysi, minni samdráttur er í landsframleiðslu og vextir hafa lækkað hratt síðustu mánuði. Stefnt er að enn frekari árangri í að ná tökum á verðbólgunni og atvinnuleysi sem og lækkun stýrivaxta. Ekki má heldur gleyma að ýmis framfaramál hafa náð fram að ganga á árinu þrátt fyrir erfiðleikana og sýnir það að stundum er viljinn allt sem þarf. Skal þar fyrst nefna nýtt tekjuskattskerfi sem tekið verð- ur upp um áramótin og mun verja hina tekjulægstu fyrir skattahækkunum og dreifa byrðunum á allt annan og rétt- látari hátt en skattkerfi frjáls- hyggjunnar gerði. Þá má einnig nefna hærri grunnframfærslu námslána, skýra og metnaðar- fulla stefnu í loftslagsmálum, kaup á vændi hafa verið bönn- uð, lög sem bæta stöðu sprota- fyrirtækja hafa verið samþykkt, Varnarmálastofnun verður lögð niður á nýju ári og svona mætti lengi telja. Nauðsynlegt er að við þessi áramót verði gerð skýr kaflaskil við fortíðina. Nú skal hefjast kaflinn þar sem hið nýja Ísland rís úr öskustó frumbernsku síns fullveldis og þroskast sem stolt, sjálfstæð, friðelskandi smáþjóð sem axlar sína ábyrgð og skuld- bindingar jafnhliða því að standa fast á rétti sínum. Sú þrautaganga sem við erum að ganga í gegnum mun aðeins verða til þess að styrkja okkur svo fremi við ýtum allri van- máttarkennd til hliðar. Árið 2015 eða 2025 munum við líta til baka og hugsa stolt til þess hvernig við gengum í gegnum kreppuna, lögðum okkar af mörkum og gleðjast yfir því að það hafi tekist. Aðalatriðið er að þegar til baka verður litið þá gengu þessi „móðuharðindi“ yf- ir þótt af mannavöldum væru rétt eins og önnur og þjóðin sigraðist á þeim með þolgæði sínu og þrautseigju. Peðin á skákborðinu bera að lokum fæst nokkur nöfn, sagan lifir í sjálfri sér og það er enginn svo mikil- vægur, innan hennar eða utan, að nokkru máli skipti að heitið getur, hvorki þeir sem reyndu að skrifa um hana eða lögðu til í hana brot af efniviðnum með at- höfnum sínum. Þar sem ég stend og svipast um í lok árs sé ég að mikið hef- ur áunnist og að enn meiri bati er í sjónmáli, en hann mun ekki verða af sjálfu sér. Örlög Ís- lands eru í höndum okkar Íslendinga, engra annarra. Ís- land hefur allt sem þarf og óendanlega mikið af því sem svo marga aðra vantar. Gleym- um því ekki að við erum ein af ríkustu þjóðum heims sem er í efnahagslegum hremmingum sem eru fjarri því að vera okkur ofviða. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs Kaflaskil Morgunblaðið/Kristinn Auðug þjóð „Gleymum því ekki að við erum ein af ríkustu þjóðum heims sem er í efnahagslegum hremmingum sem eru fjarri því að vera okkur ofviða.“ Forðist að koma kerti fyrir nálægt opnum glugga þar sem vindur getur sveiflað gluggatjöldum í kertalogann Munið að slökkva á kertunum Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.