Morgunblaðið - 31.12.2009, Page 30
30 Stjórnmál
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. DESEMBER 2009
S
íðustu misseri hafa verið lands-
mönnum erfið. Engu er líkara en að
örlaganornir hafi sameinast um að
gera hlutskipti landsmanna sem erf-
iðast, þótt líklegt verði að teljast að
ástæður erfiðleikanna séu fremur af þessum
heimi, en öðrum.
Nánast allir eru áhyggjufullir, sumir örvænt-
ingarfullir, flestir reiðir og margir ráðalausir.
Eðlilegt er að mikill tími hafi farið í að átta sig
á kringumstæðum og stöðu, bæði persónulegri
stöðu einstaklinga sem hver skoðar fyrir sig og
svo á stöðu þjóðarbúsins. Hvar sem menn eru
staddir í því uppgjöri er hinsvegar ljóst að nauð-
synlegt er að hefja endurreisn á mörgum sviðum,
sem ekki hefur tekist hjá núverandi ríkisstjórn.
Stjórninni hefur tekist margt illa, en hins veg-
ar eru verkefnin tröllaukin og ráðherrum og rík-
isstjórn nokkur vorkunn við lausn þeirra. Ég hef
veitt þeim harða andstöðu í „Icesave-málum“
sem lengi hafa verið í meðförum þingsins og þeg-
ar þetta er skrifað er óvíst með afgreiðslu máls-
ins.
Ég vil segja með skýrum hætti, þannig að ekki
verði misskilið, að ég mun aldrei una því ranglæti
sem í samningunum felst og berjast gegn þeim,
hvenær og hvar sem ég fæ því við komið.
Athygli vekur að mjög stór mál, Icesave og
umsókn um ESB, hafa verið til afgreiðslu hjá rík-
isstjórninni undir grunsemdum um að raunveru-
legur þingmeirihluti sé ekki til staðar og mikil
misklíð ríki milli stjórnarþingmanna. Kannanir
sýna sömuleiðis andstöðu mikils meirihluta þjóð-
arinnar við bæði málin.
Umsókn um ESB er nú í umsóknarfarvegi og
má búast við samningsniðurstöðum fyrst eftir
eitt og hálft til tvö ár. Við framsóknarmenn höf-
um sett mjög skýr skilyrði og fyrirvara sem við
vonum að virtir verði í umsóknarferlinu og samn-
ingunum og sannarlega verður þeim skilyrðum
haldið skilmerkilega til haga þegar við leggjum
mat á samningsdrögin um leið og metinn verður
mögulegur ávinningur.
Aldrei hefur verið mikilvægara en einmitt nú
að halda fullum og óskertum yfirráðum yfir fiski-
miðum okkar og fiskistofnum, en sjávarútvegur
mun leika lykilhlutverk við uppbyggingu efna-
hagslífsins. Landbúnaði má heldur ekki fórna í
ESB-samningum, enda vorum við rækilega minnt
á þýðingu hans og hlutverk þegar raunveruleg
hætta skapaðist á því að innflutningur til landsins
stöðvaðist snemma í kreppunni og fæðuöryggi
okkar var ógnað. Landbúnaðurinn er sömuleiðis
svo nátengdur sögu okkar, menningu, bók-
menntum og lífsstíl að við höfum skyldur við hann
og dreifbýlið í landinu.
Þinghaldið hefur einkennst af djúpum skoðana-
ágreiningi og hörðum deilum, ekki aðeins milli
stjórnar og stjórnarandstöðu heldur einnig milli
stjórnarliða.
Lengi mun lifa í minningunni ræða Ögmundar
Jónassonar gegn samþykkt Icesave og má spyrja
sig hvort hann var ekki hinn raunverulegi tals-
maður meirihluta þingflokks Vg.
Þrátt fyrir þessar hörðu deilur er mikilvægt að
þingmenn nái saman um mikilvæg verkefni sem
óunnin eru og skipta munu sköpum um framhald
og framvindu næstu ár.
Framsóknarmenn eru til reiðu að vinna með
öðrum stjórnmálaflokkum í öllum brýnum málum
af heiðarleika og eindrægni.
Ég vil nefna þrjú atriði sem enga bið þola.
1.Endurreisn trúverðugleika, trausts og sáttar í
samfélaginu.
Í samfélaginu ríkir reiði og tortryggni. Samfara
efnahagslegu hruni hefur einnig hrunið traust á
stjórnmálamönnum, stofnunum, stjórnsýslu og
fjármálalífi. Endurnýjun trausts og trúverð-
ugleika er brýn. Þá endurreisn verðum við að
hefja á grunni skýrslu rannsóknarnefndar Alþing-
is. Þingnefndin sem við henni tekur verður að
skoða vandlega orsakir hrunsins og draga lærdóm
af mistökum. Í framhaldinu þarf að bregðast við
með hertum reglum og nýrri löggjöf eftir því sem
við á.
Þeir sem brotið hafa lög og reglur verða að
svara til saka og þingnefndin verður að búa svo
um hnúta að það gerist svikalaust. Enginn má
njóta næðis fyrir viðskipta, vina- eða flokkstengsl,
en forðast verður að ofsækja fólk fyrir sömu
ástæður.
Nauðsynlegt er að sæmileg sátt ríki í samfélag-
inu en sátt er traustur grunnur bata og framfara.
Skýrslan sem birt verður 1. febrúar mun ekki
verða eins og allir vilja enda er slíkt útilokað. Óhjá-
kvæmilega verður niðurstaðan umdeild en upphaf-
ið að sáttinni þarf einhvers staðar að vera og ég sé
ekki annað tækifæri betra. Vinnum vel úr skýrsl-
unni og látum hana marka nýtt upphaf og endur-
reisn með gagnsæi og heiðríkju í samfélaginu.
2.Endurreisn heimila
Mörg heimili í landinu eru að sligast undir
drápsklyfjum skulda og sum eru þegar komin á
hliðina. Verst settar eru skuldugar barna-
fjölskyldur, fólk á besta aldri sem stofnaði til
skulda við kringumstæður og kjör sem hafa gjör-
breyst vegna þróunar sem þetta fólk ber enga
ábyrgð á. Margt af þessu fólki eygir enga von um
að standa í skilum. Um er að ræða þúsundir fjöl-
skyldna sem má telja kjarna samfélagsins. Fólk
sem við verðum að treysta á að vinni landinu gagn
um ókomin ár. Raunar er endurreisn og efnahags-
bati óhugsandi án þessa fólks. Spyrja má hverjir
eiga að standa undir hagvexti og uppbyggingu
sem er okkur lífsnauðsynleg. Betri fjárfesting fyrir
framtíðina finnst ekki en að leiðrétta skuldir þess-
ara fjölskyldna og gera þeim kleift að standa í skil-
um.
Fórnarlömb kringumstæðna eiga ekki að
þurfa að upplifa sig sem beiningafólk, þegar beð-
ið er um réttláta leiðréttingu. Miklu fremur er
um skipbrotsmenn að ræða, sem Íslendingar
eru vanir að hlúa vel að. Flytji stór hluti þessa
hóps úr landi til að flýja ósanngirnina verða
framtíðarmöguleikar landsins okkar miklum
mun lakari. Ekki fást þá heldur greiddar skuld-
irnar sem fólkið skilur eftir, svo það er allra hag-
ur að finna úrlausn og er það best gert með af-
skrift og leiðréttingu lána eins og við
framsóknarmenn höfum talað fyrir. Við munum
fljótlega birta nýjar tillögur í þessu efni byggðar
á fyrri hugmyndum.
3. Endurreisn atvinnulífs
Ríkisstjórninni er að mistakast að mestu að
blása nýju lífi í lamaðar atvinnugreinar lands-
manna. Viðmót ríkisstjórnar gagnvart nýjum
aðilum sem vilja fjárfesta er fjandsamlegt og ef
þeir koma ekki að lokuðum dyrum þá mæta
þeim tilkynningar um hækkaða skatta hvert
sem litið er. Hagvöxturinn sem er undirstaða
efnahagslegs bata og framfara er hvergi sjáan-
legur. Eðlilega bankafyrirgreiðslu fyrir fyr-
irtæki er erfitt að fá, jafnvel fyrir vel rekin fyr-
irtæki í góðum rekstri. Engin heildarstefna
finnst gagnvart atvinnulífinu og lafhræddum
skilanefndum var látið eftir að sinna fyrir-
tækjum, án hvatningar eða stefnumörkunar
stjórnvalda. Nefndirnar þorðu fyrir vikið ekki að
aðhafast nokkuð sem kallað gæti á gagnrýni og
umræðu, því var lítið gert þegar mest lá við.
Atvinnuleysi er enn mjög mikið og verður
áfram nema fyrirtækin og atvinnulífið rétti úr
kútnum. Skattastefna ríkisstjórnar gegn fólki og
fyrirtækjum er glórulaus og einkennist af skiln-
ingsleysi á einföldustu lögmálum efnahagsmála.
Nauðsynlegt er að gera skipulegt átak við að
koma atvinnulífinu í gang og það gerist ekki með
ofursköttum, heldur með hvatningu í gegn um
skattkerfið (styrkja – ekki kyrkja).
Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að vinna
með öðrum stjórnmálaflokkum, jafnt í stjórn og
stjórnarandstöðu, við að ná víðtækri sátt um
brýnustu úrlausnarefnin.
Látum verða kaflaskil á nýju ári og tökum
saman höndum og göngum einbeitt og samstiga
til móts við bjartari tíma. „Vilji er allt sem þarf“
– og þrautseigja.
Ég óska landsmönnum öllum árs og friðar á
nýju ári.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
Endurreisn
Morgunblaðið/Kristinn
Hvatning „Nauðsynlegt er að gera skipulegt
átak við að koma atvinnulífinu í gang og það
gerist ekki með ofursköttum, heldur með
hvatningu í gegn um skattkerfið (styrkja –
ekki kyrkja).“
Á
rið sem er að renna sitt skeið hef-
ur verið markað óvissu og ótta en
er jafnframt ár sigra og breyttra
áherslna sem þó rista ekki nægi-
lega djúpt til að hér verði það
uppgjör og uppstokkun sem almenningur kall-
aði eftir í janúarbyltingunni. Mörg reginmistök
hafa verið gerð vegna skorts á heildrænni yfir-
sýn um hvert við ætlum að stefna sem þjóð. Sú
ríkisstjórn sem stjórnar landinu hefur mörg
góð gildi og verkefni á sinni stefnuskrá. En
skjaldborgin um heimilin varð að gjaldborg um
heimilin. Verkefni ríkisstjórnarinnar sem snúa
að heimilunum í landinu og lýðræðisumbótum
hafa fallið í skugga inngönguferlis í ESB, þau
hafa fallið í skugga afskipta AGS af ríkisfjár-
málum og stórkostlegri blóðtöku velferðarkerf-
isins. Aldrei hefur nein ríkisstjórn svikið kjós-
endur sína jafn rækilega og sú sem situr nú á
valdastólum. Hvar er stjórnlagaþingið, per-
sónukjörið, þjóðaratkvæðagreiðslurnar, opna
stjórnsýslan, gegnsæið og skjaldborgin um
heimili landsins? Ég auglýsi eftir hinni nor-
rænu velferðarstjórn sem þjóðin kaus til að
standa vörð um velferðarkerfið.
Engar breytingar
Þó að inn á þing hafi fylkt liði 27 nýir þing-
menn hefur ekki neitt breyst. Þingið er enn al-
gerlega valdalaus stofnun. Sú staðreynd að
ekkert þingmannafrumvarp á möguleika á að
fá hefðbundna þinglega afgreiðslu nema með
samþykki ráðherra segir allt sem segja þarf,
skiptir þar engu hvort það er þingmanna-
frumvarp frá stjórnarþingmönnum. Það er
ábyrgð allra þingmanna að endurheimta völdin
frá framkvæmdavaldinu. Við búum ekki við
þingræði heldur fullkomið ráðherraræði. Það
er enginn munur á þeim leiðtogum sem nú
ríkja og þeim sem sátu á valdastólum fyrir
hrun. Fólk gengur inn í björg ráðuneyta og út
koma umskiptingar. Kannski er eitthvað bogið
við stjórnsýsluna. Kannski þarf að stokka upp í
embættismannakerfinu áður en breytinga er
að vænta. Þegar skýrsla rannsóknarnefndar
Alþingis verður birt í lok janúar næstkomandi
eigum við að nota tækifærið til að gera víð-
tækar breytingar á stjórnsýslunni. Þar hefur
oft farið meira fyrir kunningja- og flokks-
tengslum en fagmennsku. Endurreisa þarf
Þjóðhagsstofnun og tryggja að þeir sem
ábyrgð bera á hruninu með vítaverðu gáleysi
eða vilja fái að axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Til þess að ráðamönnum takist það mikla verk
er mikilvægt að þjóðin og fjölmiðlar veiti ráð-
herrum og þingheimi stöðugt aðhald.
Leynihjúpnum svipt burt
Við í Hreyfingunni höfum leitast við að færa
til hefðaþröskulda inni á þingi. Reynt eftir
bestu getu að svipta burt leyndarhjúpnum sem
hefur einkennt þingið fyrir hrun með því að
fjalla á opinskáan hátt um þingstörfin. Það er
mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um
hvernig hann getur átt aðkomu til áhrifa eins
og sérhagsmunaaðilar hafa haft um langa hríð,
til dæmis þegar kemur að nefndastörfum
þingsins. Það voru meðal annars þessar furðu-
legu hefðir sem komu okkur úr stöðu þess
ríka, í stöðu þriðja heims ríkis á örskömmum
tíma. Hefðir sem svæfa þingræðið og nánast
öll þingmannafrumvörp. Frumvörpin vakna
ekki til lífsins nema að þingmaðurinn verði
ráðherra. Það verður að rjúfa tengslin á milli
löggjafar- og framkvæmdavalds. Þingmenn
eiga að afsala sér þingsæti þegar þeir taka við
ráðherrastól. Okkur í Hreyfingunni hefur tek-
ist að ná nokkrum mikilvægum áföngum í að
breyta því hvernig þingið starfar eins og t.d.
þegar það hafðist að fá í gegn samþykkt fyrir
því að þingmannafrumvarp Eyglóar Harð-
ardóttur um þak á verðtryggingu yrði tekið
fyrir í febrúar 2010 sem hluti af samkomulagi
um þinglok fyrir áramót. Í sumar tókst Hreyf-
ingunni að hafa milligöngu um þverpólitíska
samvinnu í kringum Icesave-fyrirvarana og við
höldum fast í þá stefnu okkar að vinna út frá
málefnum en ekki flokkslínum.
Leyndarhyggja og tortryggni
Sú launung og sá óheiðarleiki sem einkennt
hefur eitt stærsta mál Íslandssögunnar hefur
með sanni verið þinginu akkilesarhæll. Það hef-
ur grafið undan því trausti sem almenningur
sýndi nýrri ríkisstjórn sem tók við á vordögum.
Svo virðist sem ríkisstjórnin hangi aðeins saman
á óttanum um að Sjálfstæðisflokkurinn komist
aftur til valda. Því má segja að Sjálfstæðisflokk-
urinn stjórni enn landinu. Í því skjóli hefur nú-
verandi ríkisstjórn komist upp með dæmalaus
afglöp og kosningaloforðasvik sem um akkorð
væri að ræða. Það er varla hægt að kalla rík-
isstjórnina vinstristjórn nema af einskærri ósk-
hyggju. Það er ekki hægt að framkvæma
vinstristefnu undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyr-
issjóðsins. Gjáin á milli þings og þjóðar hefur að-
eins stækkað. Vantraustið á þingið eykst dag frá
degi. Það er ekki langt í að upp úr sjóði. Til þess
að traust skapist verður almenningur að upplifa
að þeir sem ábyrgð bera á hruninu verði látnir
axla ábyrgð áður en of langt um líður og að al-
mannahagsmunir verði teknir framyfir sérhags-
muni.
Samábyrgð þingheims
forsenda endurreisnar
Á tímum sem þessum er mikilvægt að ráða-
menn komi sér upp úr hefðbundnum skot-
gröfum og vinni saman að úrlausnum. Við höf-
um verið talsmenn þess að sett verði saman
þjóðstjórn sem ynni saman út frá lista málefna
sem forusta þjóðstjórnar kæmi sér saman um
að væru grundvallaratriði til endurreisnar. Ef
næsta ár á að verða í þágu endurreisnar verð-
ur að endurskoða hvort þörf sé á áframhald-
andi skuldsetningu með aðstoð AGS og vina
okkar í norðri. Það þarf að endurskoða hvort
þetta er rétti tíminn til að ganga í ESB. Við
sem eigum að vera varðhundar almennings í
þingsölum verðum að tryggja að samhæfðar
aðgerðir til aðstoðar heimilunum í landinu
verði að veruleika með því t.d. að leiðrétta
stökkbreyttan höfuðstól lána. En það þarf líka
að verða samkomulag um að standa vörð um
það velferðarkerfi sem við búum við og tryggja
að fyrirtæki verði ekki kæfð í flóknu og oft á
tíðum óréttlátu skattakerfi. Það er kominn tími
á að hugsa út fyrir rammann og skoða með
heiðarleika og einurð hvernig samfélagi við
viljum búa í eftir 10 ár. Skoða hvernig arfleifð
okkar á að vera gagnvart komandi kynslóðum.
Því þurfum við að passa upp á sameiginlegar
auðlindir þjóðarinnar sem um fjöregg sé að
ræða, því það er á tímum sem þessum sem
hrægammarnir sveima og sæta færis ef við
sýnum veikleika. Endurreisnin getur ekki orð-
ið að veruleika nema við notum önnur vinnu-
brögð en hafa einkennt yfirstandandi þing.
Ábyrgð þjóðarinnar
Ég á mér bernskan draum í brjósti, þann
draum að meðal þjóðarinnar kvikni þörf og
löngun til að taka þátt í að móta það samfélag
sem hana dreymir um að búa í. Veruleikinn er
sá að enginn annar er fær um að koma í fram-
kvæmd draumum þeim er lifa innra með
manni en sá sem dreymir. Það að afsala sér
völdunum til að hafa áhrif á samfélagið nema á
fjögurra ára fresti er ábyrgðarlaust og þessu
hugarfari þarf að breyta. Það er markmið
Hreyfingarinnar að skapa þær aðstæður með
lagasetningu sem til þarf til að almenningur
hafi betri verkfæri til að stjórna því hvernig
samfélag hann býr við. Þjóðaratkvæða-
greiðslur, persónukjör þvert á flokka og
stjórnlagaþing er meginforsenda til þess. Síðan
er það auðvitað þjóðarinnar að axla þá ábyrgð
að nýta sér þau verkfæri og aðstoða okkur við
að þrýsta á að af þessu verði sem allra fyrst,
um þetta þarf að nást þverpólitísk sátt eigi síð-
ar en strax.
Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Hreyfingarinnar
Hvar er norræna
velferðarstjórnin?
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Almenningur fái áhrif „Það að afsala sér
völdunum til að hafa áhrif á samfélagið nema
á fjögurra ára fresti er ábyrgðarlaust og
þessu hugarfari þarf að breyta.“