Monitor - 30.06.2011, Blaðsíða 14

Monitor - 30.06.2011, Blaðsíða 14
14 Monitor FIMMTUDAGUR 30. JÚNÍ 2011 hann megi taka myndir af mér. Sextán ára stelpan var auðvitað upp með sér. Við tókum einhverjar nokkrar myndir og hann lofaði því að ég myndi síðan velja lokamyndina. Ég valdi síðan þessa flottu mynd þar sem ég stóð í gallabuxum og gulum bol í svona lúpínuhafi. Svo fór ég til Mallorca og fékk símhringingu. Þá var mér sagt að það hefði verið birt mynd af mér þar sem ég lá í einhverjum bláum kjól og þú getur ímyndað þér að ég var ekki kát. Í dag get ég hlegið en á þessum tíma var ég ekki ánægð, þessi mynd átti aldrei að fara neitt. Hvernig var Eurovision-ævintýrið? Það var alveg æðislegt. Bara eins og allir segja sem hafa farið út í þetta, maður fer inn í einhvern heim þannig að maður upplifir svolítið hvernig er að vera stjarna í hinum stóra heimi. Það er ansi mikið meira en á Íslandi. Það voru þvílík forréttindi fyrir mér að fá að syngja fyrir þjóðina og finna að þjóðin stóð á bak við mann. Ég man að ég tók þetta alvarlega og var ofsalega stolt. Þegar þú varst búinn að vera vinsælasta söngkona landsins í dágóðan tíma, var þá ekki farið að kitla að hefja útrás? Eða stóð það kannski til? Írafár var oft beðin um að taka upp lögin á ensku og við ræddum það mikið en svo var bara engin spenna fyrir því. Við komum okkur aldrei af stað, vorum bara á fullu hérna heima og hugurinn okkar var einhvern veginn ekkert úti. Við vorum bara ánægð með okkar hluti heima. Hvenær hefur Birgitta Haukdal orðið „starstrucked“ í návist einhvers? Ég fór á Andrea Bocelli tónleika í Egilshöll og þá bara missti ég hnén. Hann hefur eitthvað sem ég get ekki útskýrt og það nægir að horfa á DVD-tónleika með honum og þá er ég bara nett ástfangin af manninum. Síðan fór ég til Vegas fyrir tveim mánuðum síðan og sá Celine Dion á tónleikum. Ég hef aldrei verið brjálaður aðdáandi hennar en auðvitað hafði maður heyrt öll lögin. Þetta voru litlir tónleikar þannig að maður sat nálægt henni og þá fann ég fyrir einhverri svona lotningu. Þarna var einhver gyðja á ferð. Á sínum tíma var oft gert grín að textum sveitaballapoppsins. Hvað finnst þér sjálfri um textana ykkar þegar þú hugsar til baka? Mér finnst margir mjög flottir sem ég er ánægð með en mér finnst aðrir mjög fyndnir. Ég get ekki verið óánægð með neinn því þetta eru bara börn síns tíma. Ég man til dæmis að textabrotið: „Ég vil ekki vera svona,“ þar sem „svona“ var teygt yfir mörg atkvæði þótti eitthvað skrýtin textasmíð. Svo hlustar maður á texta í dag hjá íslenskum poppurum og þar eru brotnar miklu fleiri reglur en við brutum (hlær). Kanntu á hljóðfæri? Ég lærði á þverflautu í tíu ár en dreg hana sjaldan fram. Síðan glamra ég á píanó og gítar, og þá meina ég að ég get samið á þau en myndi ekkert spila á tónleikum á þessi hljóðfæri. Þú ert núna að gefa út nýja plötu í haust. Við hverju má fólk búast? Að henni koma flottir íslenskir lagahöfundar sem eru bæði þekktir og minna þekktir og svo sem ég líka nokkur lög sjálf. Þorvaldur Bjarni pródúserar og tekur þetta upp með mér. Sólóplatan sem ég gaf út síðast var kannski svolítið krúttleg kertaljósaplata en þessi verður ekki svoleiðis. Þetta er kraftballöðuplata. Þetta eru tiltölulega róleg lög en þau eru stór og við erum að leika okkur með fullt af skemmtilegum hljóðum og hljóðfærum. Nýja lagið þitt, Lífið í lit, er komið í spilun. Hvernig er tilfinningin að gefa út lag aftur? Hún er ofsalega góð en í leiðinni skrýtin. Ég fór náttúrlega alveg út úr bransanum, fór í nám og eignaðist barn og hafði aldrei tekið svona langa pásu áður. Núna, með því að koma með lag og leyfa fólki að heyra, þá finn ég að ég fæ kitl í magann, það örlar fyrir smá stressi. Ný plata og söngkennaranám. Er þetta hluti af einhverju stóru plani, kannski magnaðri endurkomu? Nei, ég er nú ekki svo klár í að plana fram í tímann. En ef þú ert að tala um endurkomu Írafárs, þá er aldrei að vita nema að það gerist eitthvað þar. Ég trúi því að Írafár eigi eftir að koma saman aftur en hvort það gerist á þessu ári eða eftir fimm, það kemur í ljós. Ég hugsa að við færum samt ekkert að gera það nákvæmlega sama og áður, færum aldrei í sveitaballa- bransann aftur. Nú ertu að fara að setjast að í sólinni í Barcelona. Hvað kemur til? Við erum að flytja núna í ágúst af því að maðurinn minn er að fara í MBA nám. Við fjölskyldan ætlum að dvelja þar í tvö ár en ég verð náttúrlega á flugi fram og til baka að klára plötuna og fylgja henni eftir. En eftir áramót sé ég fyrir mér að við verðum bara alveg í Barcelona og ég ætla bara í spænskuskóla og byrja á því að ná tungumálinu. Ertu byrjuð að undirbúa spænskuna? Ég fór í fyrsta skipti til Barcelona bara núna fyrir tveimur vikum að finna mér íbúð. Ég kann svona fjórar setning- ar, get talið upp á tíu þannig að ég er byrjuð að undirbúa mig (hlær). Það er svona nýtt orð á hverjum degi, ég er að reyna við það. Í fríinu frá bransanum eignaðist þú strák. Syngur guttinn þinn? Ég er ekki búin að ala það upp í honum, ég veit að það halda það örugglega allir, en hann er allan sólarhringinn með kassagítar að syngja. Hann byrjaði á því þegar hann var varla farinn að labba. Hann syngur ekkert endilega með barnalögum mömmu sinnar en það eru ýmis svona strákalög, rosa karlmannleg. Þú ólst sjálf upp á Húsavík. Þig hefur ekkert langað að ala strákinn upp þar? Ég sagði það í mörg ár, að ég ætlaði í bæinn en svo myndi ég flytja aftur út á land þegar ég eignaðist börn. Svo er ég búin að eiga heima hérna síðan ’98 þannig að borgin er orðin miklu meira heimili fyrir mig en Húsavík. Ég held að ég eigi aldrei eftir að flytja til Húsavíkur aftur en við erum dugleg að fara þangað á sumrin og veturna. Hvernig var að vera unglingur á Húsavík? Það var mikil íþróttamenning þar. Maður var í öllum íþróttum, ég var í handbolta, fótbolta, fimleikum og svo prófaði maður blak í eitt ár, badminton í annað. Ég prófaði líka öll hljóðfærin í tónlistarskólanum. Auðvitað voru líka einhver diskótek, maður hitti krakkana og fór á rúntinn, alltaf sama hringinn og hékk á Billanum sem var svona vídjóleigusjoppa með spilakössum. Það var mjög kúl. Í þjóðskrá ertu skráð sem Birgitta Haukdal Brynjars- dóttir. Er pabbi þinn ekkert svekktur að þú sért alltaf kölluð Birgitta Haukdal en ekki Birgitta Brynjars? Nei, ég hef alltaf verið svo lík honum og hann fékk að heyra það í svo mörg ár að ég væri alveg eins og hann þannig að ég held að hann sé bara sáttur. Ég hef nú reyndar aldrei spurt hann að því. En þegar maður kemur frá svona litlum stað, þá vita allir að maður er dóttir Binna Víkings. HRAÐASPURNINGAR Dóttir bestu vinkonu þinnar á eins árs afmæli. Hvort myndirðu frekar gefa henni barnaplötuna Perlur eða Birgittu-dúkkuna? Plötuna Perlur, ekki spurning. Eins árs barn kann ekkert að leika sér með svona dúkku en maður er aldrei of ungur fyrir góða tónlist. Sonur þinn er að fermast og segir að eina gjöfin sem hann vilji fá sé að þú syngir í veislunni. Hvaða lag myndir þú taka? Mér þetta nú mjög fyndið en myndi að sjálfsögðu leyfa honum að velja lagið. Ætli hann myndi ekki láta mömmu sína rokka feitt í einhverju rokklagi og Gitta rokk færi sko auðveldlega með það. Hvert væri draumagiggið? Mér finnst ég hafa upplifað ansi mörg draumagigg en ætli það yrði þá ekki eitthvað sem ég hef aldrei prófað. Já, ég er komin með þetta – Írafár, Karlakórinn Hreimur og Sinfó. Uss, þetta er rosalegt. Garðabær eða Húsavík? Hahaha, Barcelona it is. Írafár eða Stuðmenn? Auðvitað Írafár en það er stuð með Stuðmönnum.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.