Saga - 2002, Blaðsíða 209
SKAMMHLAUP
207
eru ennþá sýnilegir, eru þeir hluti af þessari endurspeglun eins og
hún var og ekki úr lagi færðir. En myndinni af fortíðinni er öðru
vísi háttað, hún er engin endurspeglun og þegar hún fer að mást
og dofna gerist sitthvað sem setur strik í reikninginn.
Höfundur leggur mikla áherslu á hve minnið sé valt, á fáum
árum gleymi menn ekki aðeins stórum hluta þess sem á daga
þeirra drífur, heldur aflagi endurminningar sínar að verulegu
leyti, þeir slái saman atburðum, blandi saman mismunandi tím-
um, rugli saman því sem þeir muna og því sem þeim hefur síðar
verið sagt, þeir ímyndi sér kannske að þeir hafi verið viðstaddir
stóratburði sem fóru í rauninni fram hjá þeim þegar þeir gerðust.
Þannig geti frásagnir manna af atburðum síns tíma verið í meira
lagi vafasamar og ótraustar. Þeir beinharðir hlutir sem varðveist
hafi frá fyrri tíma séu orðnir viðskila við sitt upphaflega sam-
hengi, menn sjái þá á allt annan hátt en þeir voru í raim og veru:
það sem einu sinni var hluti af daglegu lífi martna sé t.d. orðið að
merkingarlitlum sýningargrip í glerskáp. Fornar byggingar séu
nú í allt öðru umhverfi en þær voru: gamlar kirkjur kannske á kafi
í skýjakljúfa-skógi og andi þeirra horfinn. Varðveisla alls kyns
minja leiði út í mótsögn, sem sýni betur en margt annað að það er
ógerningur að nálgast fortíðina aftur: ýmist vilji menn gera
minjamar upp aftur, þá líti þær út eins og nýjar en beri heldur ekki
neitt vitni um aldur sinn, eða þeir kjósi heldur að aldurinn komi
sýnilega fram, en þá eru minjarnar ekki eins og þær voru upphaf-
lega. Skrifaðar heimildir, minjar og slíkt varðveiti auk þess aðeins
örlítið brot af fyrri tíma: langsamlega stærsti hluti hans hverfi
sporlaust.
Veruleiki fortíðarinnar sé því gersamlega horfinn og engin leið
til að nálgast hann á nýjan leik. En svo bætist annað við: menn
endurskapi fortíðina eftir sínum eigin hugmyndum, endurtúlki
heimildir og minjar, ef þeir auki ekki hreinlega við þær og skáldi
ofan í þær, og búi þannig til myndir sem eigi í rauninni lítið skylt
við fyrri tíma. Fornar byggingar hafi orðið fyrir stöðugum breyt-
ingum, og oftar en ekki hafi þær hreinlega verið gerðar upp eftir
seinni tísku eða þá stundlegum hugmyndum um það hvemig þær
hafi „upphaflega" verið, margar gotneskar miðaldakirkjur hafi
t.d. verið nánast því endurbyggðar á 19. öld í samræmi við róm-
antískar kenningar um það hvemig slíkar byggingar ættu að líta
út. Auk þess séu víða á ferli falsanir og vísvitandi rangtúlkanir.