Morgunblaðið - 06.11.2010, Qupperneq 52
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. NÓVEMBER 2010
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Hljómsveitin Gildran hefur verið að
býsna lengi; fyrir þrjátíu árum varð
til hljómsveitin Pass sem breyttist
svo í Gildruna fyrir aldarfjórðungi.
Afmæli sveitarinnar var fagnað með
tónleikum í Hlégarði í Mosfellsbæ í
vor og afrakstur þeirra tónleika var
svo platan Vorkvöld sem kemur út á
mánudaginn.
Fyrir bráðum hálfum þriðja ára-
tug héldu félagarnir í rokksveitinni
Gildrunni til Englands að taka þar
upp lög á smáskífu. Vinnubrögð þar
voru slík að marga klukkutíma tók til
að mynda að ná réttum hljómi á einn
sneril og alls fóru um 200 tímar í eitt
lag. Þegar ég rifja þessa sögu upp
fyrir þeim Gildrufélögum Karli Tóm-
assyni, Birgi Haraldssyni, Þórhalli
Árnasyni og Sigurgeiri Sigmunds-
syni skella þeir þremenningar Karl,
Birgir og Þórhallur upp úr, enda
voru þeir í ferðinni forðum, en Sig-
urgeir slóst í lið með þeim nokkru
síðar.
Við sitjum saman í kjallara í Mos-
fellsbæ þar sem þeir félagar eru í
stífri æfingalotu vegna tónleika sem
haldnir verða í Austurbæ 12. nóv-
ember næstkomandi, en þeir tón-
leikar eru til að fagna útgáfu á breið-
skífunni sem inniheldur upptökur frá
afmælistónleikunum í Hlégarði,
heimabæ sveitarinnar.
Óteljandi tónleikar
Í upptökulotunni löngu sem getið
er fóru 240 klukkutímar í eitt lag, en
svo tóku þeir Gildrufélagar völdin og
tóku upp fyrstu breiðskífu sína hjá
Didda fiðlu í Stúdíói Stemmu og þá
fóru ekki nema 23 tímar í upptökur
og 4 í hljóðblöndun. Sú plata, Huldu-
menn, kom svo út vorið 1987 og síðan
eru skífurnar orðnar nokkuð margar
og tónleikarnir óteljandi. Að því
sögðu þá hafði lítið heyrst frá hljóm-
sveitinni um hríð, þar til hún kom
saman og troðfyllti Hlégarð í vor.
Hún hætti þó aldrei, en mál atvik-
uðust svo að menn voru önnum kafn-
ir við ýmislega iðju, Sigurgeir fluttist
til Eyja og Þórhallur austur á land,
svo nokkuð sé nefnt. Þeir héldu þó
sambandi og til sannindamerkis um
það má nefna að þeir eiga í fórum sín-
um grind að breiðskífu, lög og texta
sem þeir hafa púslað saman á und-
anförnum árum að sögn Þórhalls.
„Það kom einhver pása og það var
fínt,“ segir Karl og Þórhallur bætir
við að spilamennskan hafi kannski
verið fullmikil um tíma. „Við vorum
búnir að spila út um allt og spiluðum
endalaust; við spiluðum til dæmis tvö
hundruð og eitthvað sinnum á Fimm-
unni eitt árið og það var kominn tími
á pásu.“
Þetta var bara fiðringur
Í pásunni hafa þeir komið saman
öðru hvoru, tekið upp lög og lög og
spilað smávegis, þar til nú að þeir
hrökkva svo rækilega í gang. Af
hverju, spyr ég og Birgir svarar að
bragði: „Þetta var bara fiðringur.“
Karl tekur undir það en segir að þeir
hafi líka áttað sig á því nánast óvart
að þeir hefðu byrjað að spila saman
fyrir réttum þrjátíu árum. „Svo virð-
ist líka vera heilmikil eftirspurn eft-
ir okkur,“ segir Sigurgeir. „Við
fundum stemninguna þegar við spil-
uðum í Hlégarði.“ „Stemningin fyrir
okkur virtist vera meiri en við áttum
að venjast,“ segir Karl.
Tónleikarnir í Hlégarði sem eru
skrásettir á Vorkvöldi tókust gríð-
arvel að því er þeir segja, og nefna
til sannindamerkis að á skífunni séu
öll lögin sem þeir léku á tónleik-
unum, en þess má geta að tutt-
ugasta lagið á skífunni er hljóð-
versupptaka, lagið Blátt blátt,
hluti af lagasafninu sem varð til í
pásunni.
„Það var ekkert planað að gera
meira en að taka upp eina tón-
leika og gefa út, en þegar við fór-
um svo að hlusta á upptökurnar
fundum við að við vorum með eitt-
hvað í höndunum sem skipti okk-
ur máli,“ segir Þórhallur og Sig-
urgeir heldur áfram: „Við erum
bara að gera þetta fyrir okkur,
þetta snýst ekki um það að selja
hauga af plötum eða komast í
fyrsta sæti á einhverjum lista.
Okkur langar til að líða vel með
það sem við gerðum og við lögð-
um mikið í þessa plötu.“
Karl bendir líka á að plötur
Gildrunnar séu ekki lengur fáan-
legar, allar löngu uppseldar, og
því sé platan eins og nokkurs kon-
ar yfirlit yfir feril sveitarinnar.
Ekki segja þeir félagar að það
hafi verið erfitt að velja lögin, þau
hafi nánast valið sig sjálf, en þó
þurftu þeir að skera niður frá
upprunalegum lagalista, því þeir
byrjuðu æfingar með ríflega þrjá-
tíu lög sem síðan duttu út smám
saman.
Nýtt líf
„Mörg þessara laga fá líka nýtt
líf frá því sem þau voru á plöt-
unum og við erum ánægðir með
það hvernig þau fá byr undir báða
vængi á ný,“ segir Þórhallur. „Við
köllum þetta gömlu meistara-
verkin,“ segir Sigurgeir og þeir
skella allir upp úr.
„Við renndum blint í sjóinn
með tónleikana í vor,“ segir Karl,
„en fundum svo mikinn áhuga og
svo góðan anda í salnum þegar
við stigum á svið að við höfðum
ekki fundið annað eins áður. Það
ber öllum saman um það að það
gerðist eitthvað eftirminnilegt í
Hlégarði þetta kvöld.“
Gildran leikur á tónleikum í
Borgarnesi í kvöld, en síðan eru
næst á dagskrá tónleikarnir í
Austurbæ á föstudag og svo
halda þeir félagar til Vest-
mannaeyja. „Við ætlum svo að
taka nokkra tónleika til viðbótar,
spila á völdum stöðum og halda
þar almennilega tónleika,“ segir
Þórhallur, en þeir hyggjast halda
tónleika víða, meðal annars á Ak-
ureyri, en það verður ekki fyrr en
eftir áramót.
Morgunblaðið/hag
Samrýndir Gildrufélagar: Sigurgeir Sigmundsson, Birgir Haraldsson, Þórhallur Árnason og Karl Tómasson.
Gömlu meistaraverkin
Gildran gefur út upptökur frá fjölsóttum afmælistón-
leikum á plötunni Vorkvöldi Fagnar þrjátíu ára afmæli
og er enn að Útgáfutónleikar í Austurbæ á föstudaginn
Gildran á
rætur í
hljómsveit-
inni Pass
sem stofnuð
var af þeim
Karli Tóm-
assyni, Birgi Haraldssyni og
Þórhalli Árnasyni í Mosfellsbæ
árið 1989 og tók meðal annars
þátt í Músíktilraununum 1982.
Pass varð svo að Gildrunni
1985, en fyrstu opinberu tón-
leikar Gildrunnar, eins og það
var orðað í Morgunblaðinu á
þeim tíma, voru á Hótel Borg
fimmtudaginn 13. ágúst 1987.
Fyrsta plata Gildrunnar,
Huldumenn, kom út 1987, en
Vorkvöld verður sjöunda breið-
skífa sveitarinnar.
Sigurgeir Sigmundsson gít-
arleikari gekk til liðs við Gildr-
una 1989 og hefur því verið í
henni í rúma tvo áratugi.
Samstarf í
rúm 30 ár
PASS OG GILDRAN
– meira fyrir áskrifendur
Fáðu þér áskrift á
mbl.is/askrift
JÓLAGJAFAHANDBÓK
ATVINNULÍFSINS
Þann 11. nóvember kemur
Jólagjafahandbók
Viðskiptablaðs
Morgunblaðsins út
í sjötta sinn.
Þessi veglegi blaðauki hefur skipað sér sess
sem ómissandi hjálpartæki fyrir stjórnendur
jafnt stórra og smárra fyrirtækja sem standa
frammi fyrir vandasömu verkefni á þessum
tíma árs.
Jólagjafahandbókin fjallar um allt sem snertir
jólagjafir til starfsfólks, samstarfsaðila og
viðskiptavina. Skoðaðir verða fjölbreyttir
gjafamöguleikar sem henta öllum þörfum.
Hér er á ferð samantekt sem auðveldar valið
á réttu gjöfinni sem kemur til skila þakklæti,
vinsemd og hátíðarstemningu jólanna.
Vertu með í glæsilegri sérútgáfu sem nær beint
til markhópsins
Pöntunartími auglýsinga er fyrir klukkan
16.00 mánudaginn 8. nóvember.
Nánari upplýsingar veitir Sigríður Hvönn
í síma 569 1134 / 692 1010,
sigridurh@mbl.is